Ljónið: Þú öðlast nýja sýn á lífið

Elsku Ljónið mitt,

þú ert að velta fyrir þér af hverju vissir hlutir gangi ekki upp. Hvers vegna þú þurfir að lenda í hinu eða þessu stressi. Það er að mörgu leyti vegna þess að þú ert á ógnarhraða í þroskaferli. Þú ert að skoða hvort þér líki vel í vinnunni og marga hluti í sambandi við heimili og staðsetningu. Þetta hefur sett mikið rót á tilfinningar þínar og ef þú skoðar orðið tilfinning, þá er það að finna til. Notaðu þessar aðstæður til þess að leiðrétta þann veg sem þú ert á og hafðu það í huga að í raun geturðu ekki stólað á neitt eða neinn nema sjálfan þig. Þegar þú stendur upp úr þessu kaósi, þá brýstu í gegnum fjallið. Það er ekkert stjörnumerki sem fær eins mikið afl til þess að berjast þegar því vantar eitthvað eins og Ljónið hefur.

Þó að það hafi brotnað af þér vængurinn þá vex bara annar í staðinn. Það verða mörg svör sem birtast þér í maí. Mikil hreinsun verður á huga og líkama og með því færðu nýja sýn á veröldina. Þú skalt ekki kenna neinum um stöðu þína, slepptu algjörlega tökum á því og lærðu nýjar aðferðir til þess að breyta og bæta þína líðan sjálfur.

Það er ekkert varið í lífið ef allt er slétt og fellt og allir kaflar í bókinni eru eins. Þú átt eftir að geta sagt sterka og merkilega sögu um hvernig allt þróaðist hjá þér. Þú ert svo stórkostleg og kraftmikil mannvera, en þær eiga samt mun auðveldar með að brenna sig en þær persónur sem ganga hljóðlaust um.

Þú skalt láta þér það í léttu rúmi liggja þó að einhverjir séu alls ekki þér velviljaðir. Þú getur ekki hindrað að fólk slúðri, eða hreinlega ljúgi sögum upp á þig. Það eru nefnilega svo margir sem vilja slökkva á annarra manna kertum í þeirri von um að láta eigið ljós skína.

Knús og kossar,

Sigga Kling.

mbl.is