Vogin: Mikil atorkusemi einkennir þig

Elsku Vogin mín,

þú verður í meira í sviðsljósinu en þú bjóst við. Það gerast þannig atburðir sem tengja þig þannig að þú verður hugfangin af nýju verkefni eða bara að prófa eitthvað allt öðruvísi og meira spennandi en áður. Það er undir þér komið að skreyta líf þitt og núna er verið að rétta þér tilkomumiklar skreytingar sem þú getur nýtt þér til að hafa gaman.

Náttúran og landið munu soga þig til sín og þér finnst að hugur þinn magnist margfalt. Sumarið líður eins og eitt augnablik og verður vart dauður punktur í því. En þú getur líka ákveðið að sitja heima og farið í fýlu, en það er ákvörðun. Þetta táknar líka að ástin vill gefa þér tíma og það er mikil spenna í öllum þráðum líkamans. Það er líka hætta á að þú farir yfir strikið ef þú ert í sambandi, hafðu þetta bara í huga. Nýtt tungl í Nautsmerkinu er á laugardaginn 30. apríl og hefur það sérstök áhrif fyrstu dagana í maí. Þarna færð þú tíma til að skrifa niður hvað þú vilt að komi til þín á þessu sumri og fara síðan út í náttúruna og brenna þann snepil út í Alheimsvitundina.

Innsti kjarni þinn hefur guðlegt afl, svo settu fegurri sýn og bjartsýnni orku og meiri blessun yfir skref þín, það er trixið.

Þinn bráðskarpi hugur verður að hafa svo mikið fyrir stafni, því þú pirrast ef það er lognmolla. Þú reynir að láta sjaldan stjórnast af tilfinningum og það getur oft verið ágætt því að þær eru búnar til úr eldi. Þú skapar og framkvæmir merkilega hluti fyrir þig sem færa þér vellíðan. Og út frá því og þessum aðstæðum sem þú ert í ertu að byggja risaveldi og þetta gerist með einu skrefi og svo öðru, og svo verður spretthlaup sem þú ert sannarlega til í.

Knús og kossar,

Sigga Kling.

mbl.is