Ljónið: Ófyrirséðir peningar koma til þín

Elsku Ljónið mitt, 

núna er það bara kærleikurinn sem getur sigrað og þú skalt hafa það að leiðarljósi út þennan mánuð. Auðmýkt fyrir öðrum og annarra manna lífi mun líka gefa þér 10 stjörnur. Svo ekki setja höfuðið niður og kvarta og kveina vegna þess að þér finnst stundum ekkert vera þér að kenna, bara öðru fólki. Sporðdreki, naut og ljón eru keimlík merki að því leitinu til að þegar Júpíter hættir að fara afturábak sem gerist þann þriðja júní þá breytist margt. Þá munu koma til þín ófyrirséðir vinningar; peningalega, andlega og líkamlega.

Þú virðist bara standa upp alveg sama hvað dynur á. Þú færð „powerið“ sem þú þarft til þess að endurbyggja þig frá grunni. Ef þetta er ekki að gerast hjá þér, þá ertu inni í búbblu þar sem veröldin nær ekki til þín. Þú gengur alltaf sama hringinn, en býst alltaf við annari útkomu. Ef þín tilfinning er svo, þá breytist ekkert nema þú sprengir búbbluna og sjáir þann kraft sem er í boði. Það er afar, afar mikilvægt að þú hafir allt skipulag á hreinu, því að þá geturðu náð því sem þig vantar. Þegar allt er í kaósi í kringum þig, þá ertu jú kaós.

Þú munt eiga mörgum að þakka hversu bjartur og kraftmikill vegur þinn verður. Klappaðu þeim á bakið sem aðstoða þig áfram, því þá færðu meira af utanaðkomandi hjálp. Veröldin væri nú aldeilis leiðinleg ef Ljónin væru ekki til, því þá væri ekkert að gerast og engar fréttir um eitt né neitt.

Þú berð af öðru fólki og getur brotið niður allan klaka og varnir sem tengist yfirmönnum eða yfirvaldi, svo skoppaðu áfram í það, því það er þitt að breyta heiminum, en byrjaðu samt á þér.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is