Bogmaðurinn: Þú sérð hlutina í öðru ljósi

Elsku Bogmaðurinn minn,

þó að það hafi skiptst á með skini og skúrum hjá þér, þá er nákvæmlega allt eins og það á að vera. Þetta er bara Yin&Yang og það helst í hendur. Tímasettu það sem þú ætlar að framkvæma því þá stimplast það inn í hugann á þér. Þú getur átt það til að gleyma og að fresta, en ef þú tímasetur, þá er enginn möguleiki til þess.

Þér verður leiðbeint og þú verður verndaður þegar þú ert að velja leiðina sem þú vilt fara í lífinu. Það er líka sterkt hjá þér að þú ert svo vel tengdur við orkuna í kringum þig og þarft á breytingum að halda, því eins og þú veist allra best sjálfur, þá ertu ekki tré.

Það er eitthvað stórbrotið í lífinu að birtast þér og þegar þú tengist þessari tíðni eða orku, þá verða þér allir vegir færir. Ekki halda aftur af löngunum þínum, því að draumar þínir margir hverjir eru að rætast og að raungerast.

Ákvarðanir sem þú tekur geta verið öðrum óskiljanlegar vegna þess að hvatvísi þín kemur jafnvel sjálfum þér á óvart. Þetta ár gefur þér lífstöluna 6 sem er sama tala og Ísland hefur árið 2022. Þú sérð hlutina í öðru ljósi og ástin, fjölskyldan og vinir eru lífsmottóið þitt. Vond ást springur í öllum tegundum, hvort sem það er í vináttu eða öðru, en góð ást dafnar og verður sannari.  Þetta tengist líka ást á þínu eigin lífi og gleði yfir því sem þú hefur og spenna yfir því sem er að koma.

Passaðu þig einlægt á reiðinni, gefðu engum það færi að geta ýtt á þína takka svo að skapið þitt blossi upp. Þá eyðirðu kröftunum þínum til einskis og ekkert annað gerist en að hægja á því sem bætir hag þinn og eykur blessun. Þetta er kærleiksríkt tímabil og þú hefur leyfi til að vera góður við þann sem þú vilt. Á þessu tímabili byggirðu líka upp undirstöður fyrir næstu 20 mánuði sem verður grunnurinn að góðu lífi.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is