Loksins tekin í sátt af Beyoncé

Kim Kardashian hefur loksins hlotið náð fyrir augum Beyoncé. Eiginmaður söngkonunnar, Jay-Z, og unnusti veruleikastjörnunnar, Kanye West, eru nánir vinir en Beyoncé var treg til að kynnast Kardashian og fannst þær ekki eiga samleið. Nú hefur hún loks tekið hana í sátt og boðið hana velkomna í þröngan vinahóp sinn.

Allt frá því að Kardashian og West hófu ástarsamband í vor hefur veruleikastjarnan reynt að vingast við Beyoncé en ekki haft erindi sem erfiði.

„Þrátt fyrir að Kanye sé einn af nánustu vinum Jays hefur Beyoncé útilokað Kim,“ var haft eftir vini söngkonunnar í samtali við tímaritið Heat. „Beyoncé þolir ekki veruleikasjónvarp og finnst þær tvær ekki eiga neitt sameiginlegt,” sagði vinurinn.

„Þetta hefur verið mjög erfitt því Jay-Z og Kanye eru svo nánir,“ segir heimildarmaður breska blaðsins The Sun. Þeir vinirnir eru nú á miklu tónleikaferðalagi um Bretland og  þegar Beyoncé og Kardashian mættu báðar á sömu tónleikana á dögunum notaði West tækifærið og fékk þær til að hittast og borða saman kvöldverð á hótelherbergi hans.

Það hreinsaði andrúmsloftið og nú hefur Beyoncé tekið Kardashian í sátt og kynnt hana fyrir vinahópnum, en meðal nánustu vina hennar og Jay-Z eru hjónin Gwyneth Paltrow og Chris Martin.

mbl.is

Bloggað um fréttina