Vonbrigði að komast ekki á lista yfir hárprúðustu Íslendingana

Árni Helgason lögmaður og eigandi CATO lögmanna.
Árni Helgason lögmaður og eigandi CATO lögmanna.

Lögmaðurinn Árni Helgason hefur í nægu að snúast í sumar. Hann ákvað að fara í veðurfarslega áhættustýringu og keypti sér ferð til Tenerife. 

Hvað er á döfunni hjá þér í sumar?

Eftir hörmungasumarið í fyrra þar sem ekki sást til sólar ákvað fjölskyldan að fara í veðurfarslega áhættustýringu fyrir þetta sumar og fjárfesta í ferð til Tenerife, eða „Tene“ eins og þessir hörðustu segja. Þar tökum við tvær vikur undir vinnuheitinu „heilalaus sólarlandaferð“ en annars hefur eitt og annað verið á dagskrá, t.d. ættarmót, sumarbústaðarferð og flakk um landið.

Hvert er upp­á­halds­landið þitt/borg­in þín?

Mér líður yfirleitt vel í löndum þar sem það er aðeins heitara en á Íslandi, sem eru nokkurn veginn flest lönd. Annars bjó ég eitt ár úti í Þýskalandi eftir menntaskóla og manni þykir auðvitað vænt um þennan agaða og skipulagða lífsstíl Þjóðverjans þótt ég hafi kannski ekki tileinkað mér hann til fulls. Svo er New York uppáhaldsborgin.   

Ertu dug­leg­ur að elda?

Dugnaðurinn hefur ekki verið mitt stærsta vandamál í eldhúsinu, heldur frekar skortur á hæfileikum. En ég er svona að koma til, sérstaklega á grillinu og við skötuhjúin reynum að vera dugleg að elda, bæði fyrir fjölskylduna og að bjóða vinum í mat. Sem betur fer hefur fólk sýnt mér þolinmæði í þessu lærdómsferli sem eldamennskan er, eins og t.d. einu sinni þegar ég ætlaði að bjóða upp á béarnaise-sósu með nautasteikinni en endaði á að bera fram öll frumefni sósunnar ofan á kjötinu. En maður lærir af mistökunum og smám saman hefur þetta verið að batna.

Horf­ir þú mikið á sjón­varp eða hlust­ar þú mikið á út­varp?

Þótt það sé í tísku í dag að segjast ekki horfa á sjónvarp og margir séu farnir að leggja mikið upp úr því að velja sér sitt eigið efni þá hef ég haldið tryggð við sjónvarpið. Þar eru í sérstöku uppáhaldi íslensku stöðvarnar sem hafa sprottið upp undanfarin ár, eins og t.d. ÍNN. Ég hlusta ekki mikið á útvarp, einna helst í bílnum á morgnana eða á leiðinni heim, en meira á podcöst.

Áttu gælu­dýr?

Nei á ekki gæludýr og hef meira að segja aldrei átt. Svo má kannski velta því upp hvort snjallsíminn sé ekki gæludýr 21. aldarinnar? Hann fær allavega mikla alúð og athygli.

Hvaða flík finnst þér að all­ir karl­menn þurfi að fjár­festa í fyr­ir sum­arið?

Úff. Ég stunda ekki fatainnkaup á svona árstíðabasis, eins og að kaupa sérstakar flíkur fyrir sumarið heldur kaupi ég föt svona einu sinni á ári eða svo og þá yfirleitt bara það sem ég sé hverju sinni. En ef ég ætti að nefna eitthvað þá segi ég kvartbuxurnar sem ég keypti fyrir mörgum árum og nota helst á sumrin. Þær eru bundnar í mittið þannig að þær hafa lifað með mér í gegnum þykkt og þunnt, bókstaflega.

Hver er fal­leg­asta kona heims, fyr­ir utan maka?

Langnæstfallegasta kona heims er Scarlett Johansson.

Hver er upp­á­halds­mat­ur­inn þinn?

Lasagne sem Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, konan mín, eldar er það besta sem ég fæ. Ég nefni hana með fullu nafni til að forðast misskilninginn sem stundum myndast þar sem hún er nafna kynfræðingsins Sigríðar Daggar Arnardóttur en ég fæ stundum vandræðalegar spurningar um hvernig það sé að eiga konu sem er kynfræðingur og hvort ég þurfi ekki að vera kynfærafyrirsæta.

Borðar þú morg­un­mat?

Já, vinn mest með ristað brauð og kaffi á morgnana.

Klukk­an hvað vakn­ar þú á morgn­ana?

Morgnarnir eru ekki alveg minn tími og það gengur mikið á þegar ég vakna. Því er best lýst sem ákveðinni baráttu þar sem takast á annars vegar ég frá kvöldinu áður sem telur sig ekki þurfa mikinn svefn og reynir mjög lymskulega að stilla upp vekjaraklukkum hér og þar um húsið og svo hins vegar ég um morguninn sem gengur svefndrukkinn um heimilið, slekkur á þessum hávaða og reynir svo að lauma sér aftur upp í. Það hefur samt verið á brattann að sækja fyrir morgun-manninn undanfarið þar sem dætur mínar, Auður Freyja og Sólveig Katla, kóa ekki með þessu ástandi heldur vakna snemma og rífa föður sinn á fætur.

Hver er draum­ur­inn?

Ég dreg ekki dul á að það voru ákveðin vonbrigði að komast hvorki á lista Smartlands yfir 21 Íslending með fallega húð24 hárprúðustu. Ég stefni hærra í þeim efnum, það er ljóst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál