Fjölmiðlakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir mun ganga í hjónaband með sínum fyrsta kærasta, Haraldi Haraldssyni, í sumar. Þau eru bæði temmilega kærulaus að sögn Evu og undirbúningurinn hefur gengið vel.
Eva og Haraldur, eða Haddi eins og hann er gjarnan kallaður, munu ganga upp að altarinu í lok júlí, ári eftir að þau tóku ákvörðun um að gifta sig.
„Ég og Haddi höfum þekkst frá því við vorum lítil, vorum saman í grunnskóla og hann var fyrsti kærasti minn. Það stóð að vísu stutt yfir og hann sagði mér upp í sms-i, ég hef reyndar ekki fyrirgefið honum það enn. Þegar við vorum 17 ára byrjuðum við saman á ný eftir nokkurra ára hlé og eigum tíu ára sambandsafmæli í ár. Okkur fannst þess vegna tilvalið að gifta okkur í ár. Við trúlofuðumst þess vegna ekki formlega heldur tókum þessa ákvörðun úti á Spáni í júlí í fyrra, á afmælisdegi dóttur okkur sem fagnaði þá eins árs afmæli. Hún Ingibjörg Rósa verður tveggja ára þann 6. júlí og við ætlum að gifta okkur 23. júlí. Sá mánuður verður sem sagt mjög gleðilegur í ár,“ segir Eva.
„Þegar við tókum ákvörðunina í fyrra þá bókuðum við kirkju og sal, þar með var það frá. Við erum bæði mjög róleg yfir þessu og ég er búin að fá með mér í lið frábært fólk sem ætlar að hjálpa okkur. Undirbúningurinn hefur gengið vel og við erum á góðu róli (þar til annað kemur í ljós). Ég held að mikilvægast í þessu ferli sé að vera temmilega kærulaus og þiggja alla hjálp sem býðst,“ segir Eva sem fékk móður sína, systur og vinkonur til að aðstoða sig við leitina að hinum fullkomna brúðarkjól.
„Um leið og við ákváðum að gifta okkur þá fór ég strax að huga að kjólnum, ég var með ákveðnar pælingar varðandi kjólinn og var búin að skoða mjög marga á netinu. Ég ákvað síðan að panta mér tíma í Brúðarkjólaleigu Katrínar og tók mömmu og systur mína með mér. Ég mátaði nokkra gullfallega kjóla og fann þann eina rétta. Ég bókaði síðan annan tíma með vinkonum mínum og keypti kjólinn. Ég mæli með því fyrir allar konur að fara í brúðarkjólamátun og þá sérstaklega að taka mömmu, ömmu og vinkonur með. Það er virkilega skemmtilegt og ég verð að hrósa þjónustunni í Brúðarkjólaleigu Katrínar. Þær vilja allt fyrir mann gera og mér finnst mikið öryggi að kaupa kjólinn hér heima, ef eitthvað kemur upp á eða ef eitthvað þarf að laga þá get ég alltaf farið til þeirra og þær laga hann fyrir mig.“
Eva kveðst vera ein af þeim konum sem hafa lengi látið sig dreyma um fallegt brúðkaup. „Ég er búin að sjá þennan dag í hillingum frá því ég var lítil. Áherslurnar eru þó að þróast í aðra átt en ég var búin að skipuleggja í huganum, sem betur fer,“ segir Eva og hlær. „Þetta hefði annars þróast í stíft konunglegt brúðkaup.“
Margir tengja Evu Laufeyju við matargerð enda heldur hún úti matarbloggi og hefur gefið út matreiðslubók. Eva er snillingur í eldhúsinu en hún hefur tekið þá ákvörðun að fá kokka til liðs við sig fyrir brúðkaupið og þannig tryggja að hún fái að njóta dagsins til hins ýtrasta. Hún mun þó baka sína eigin brúðartertu sjálf.
„Ég ákvað strax að fá góða kokka í lið með mér, mamma mín og systir eru frábærar í eldhúsinu en mig langar að allir fái frí þennan dag og einbeiti sér bara að því að hafa gaman. Að sjálfsögðu erum við búin að setja saman matseðil sem er samsettur af okkar uppáhaldsréttum. Ég er svo að skrifa kökubók og í þeirri bók verður sérstakur kafli um brúðartertur og þess vegna mun ég baka mína eigin köku í sumar og nokkrar til viðbótar. Ég fæ sem sagt svigrúm til þess að æfa mig nokkrum sinnum fyrir stóra daginn.“
Það liggur mikil vinna að baki því að halda góða veislu en Eva Laufey kveðst njóta þess að skipuleggja þennan stóra dag. „Mér finnst þetta bara skemmtilegt, að vísu get ég stundum stressað sjálfa mig upp en þá er gott að eiga Hadda sem kemur mér fljótt niður á jörðina. „Þetta er ekkert vesen,“ fæ ég að heyra og þá róast ég. Þetta á auðvitað að vera skemmtilegt ferli og maður á að njóta þess. Eins og áður sagði er best að vera temmilega kærulaus og plana ekki allt of mikið til að koma í veg fyrir allt óþarfa stress.“
Það sem hefur valdið Evu Laufeyju og Haraldi mestum höfuðverk í skipulaginu er gestalistinn. „Hann er án efa okkar stærsti og jafnvel eini stressvaldurinn sem upp hefur komið í brúðkaupsundirbúningnum. Við eigum bæði stórar fjölskyldur og marga góða vini og okkur langar vitanlega að bjóða öllum og hafa alla með okkur á stóra daginn. En það gengur því miður ekki upp og það hefur verið erfitt stilla upp gestalistanum og skera niður, það þarf víst að miða út frá salnum þó að mann langi að hafa alla með sér.“
Eva Laufey er dóttir eins ástsælasta fjölmiðlamanns Íslands, Hermanns Gunnarssonar, sem lést í júní árið 2013. Hún er viss um að faðir hennar verður með þeim í anda á brúðkaupsdaginn. „Ég er svo heppin hafa alist upp með frábærum pabba, honum Steindóri, og hann mun leiða mig upp að altarinu. Ef Hemmi hefði verið á lífi hefði ég gjarnan viljað að þeir báðir myndu leiða mig upp að altarinu, það hefði verið ósköp fallegt. Þeir tveir skipta mig gríðarlega miklu máli og það er sárt að annar þeirra sé farinn. Hann verður þó með okkur í anda, svo mikið veit ég.“
„Akraneskirkju, það kom aldrei önnur kirkja til greina,“ segir Eva svo, aðspurð hvaða kirkja hefði orðið fyrir valinu. Við erum bæði frá Akranesi og erum bæði skírð og fermd í kirkjunni. Við tengjumst henni svo mikið að við gátum ekki hugsað okkur að giftast í annarri kirkju. Athöfnin fer fram í kirkjunni og í kjölfarið verður haldin veisla í Hlégarði í Mosfellsbæ, mitt á milli Akraness og Reykjavíkur. Ég kolféll fyrir Hlégarði um leið og ég kom þangað inn, skemmtilegri og fallegri salur en vandfundinn. Salur með sál og nákvæmlega eins og okkur langar að hafa hann.“