Skrifaði handritið í stresskasti á gamlárskvöld

Þóranna Sigurðardóttir.
Þóranna Sigurðardóttir.

„Áriđ 2014 sótti ég um kvennaprógrammið í AFI eða Directing Workshop for Women og umsókninni þurfti ađ fylgja handrit. Þannig að að íslenskum hætti var Zelos skrifuð í stresskasti á gamlárskvöld, tveimur dögum fyrir umsóknarfrest. Hugmyndin kemur úr mörgum áttum, frá Family Guy, Her, Persona og Blue Jasmine. En mest kemur hún úr mínum eigin reynsluheimi sem kappsfull kona,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Þóranna Sigurðardóttir, höfundur stuttmyndarinnar Zelos. Myndin fjallar um bugaða konu sem ákveður að láta klóna sig. Þóranna er búsett er í Los Angeles og komst í fréttir á dögunum þegar hún gerði tónlistarmyndband fyrir Red Hot Chili Peppers. 

Stuttmynd hennar Zelos er komin í sýningu á Vimeo. Það er svo sem kannski engin frétt því hver sem er getur sett myndir sínar þangað inn en aftur á móti komst hún í flokkinn Staff Picks, sem gerir það að verkum að myndin fær miklu betri dreifingu. Þóranna segir að það sé mjög mikill heiður að komast inn í Staff Picks. 

„Á Vimeo er miklum fjölda mynda halað niður á hverjum degi, þannig að það er erfitt að fá fólk til að staldra við og finna meistaraverkin þín. En núna þegar Zelos var valin á Staff Picks koma margir við og nú eru mörg þúsund manns búnir að sjá myndina. Miklu fleiri en á öllum kvikmyndahátíðunum sem hún fór á,“ segir hún og bætir við: 

„Allar stuttmyndir sem gerðar eru í AFI-námi eru í eigu skólans, þannig að ég mátti ekki setja Zelos á Vimeo eftir að hún var búin að fara á kvikmyndahátíðir. Þetta er auðvitað frekar leiðinlegt, þar sem internetið er frábær leið til að fá heiminn til að sjá stuttmyndir, en sem betur fer keypti KQED, sem er ríkisrekin sjónvarpsstöð hérna, Zelos fyrir Film School Shorts-prógrammið og þannig var hún fyrst sýnd í sjónvarpinu og svo sett á Vimeo-stöðina þeirra,“ segir hún. 

Þóranna lagði mikið á sig til að vinna Zelos. 

„Zelos var fjármögnuð í gegnum Indiegogo og það var ótrúlegt hversu mikinn stuðning ég fékk frá Íslandi. Margir af fátækustu vinum mínum sem ég hef varla hitt í mörg ár voru að gefa mér háar upphæðir. Hér í Bandaríkjunum eru svona framlög frádráttarbær, en ekki á Íslandi. Það hjálpaði mér mikið í gegnum ferlið að finna fyrir hversu margir höfðu trú á verkefninu. Sara Nassim, sem ég hafði unnið með í Noah á Íslandi, var við nám sem framleiðandi í AFI og hún hjálpaði mér að framleiða myndina. Hún þekkti flesta nemendurna í skólanum og þekkti hvaða teymi ég ætti að velja mér. Fyrst ætlaði ég að fá allt það fólk sem ég hafði unnið með í gegnum árin í auglýsingagerð, en það var enginn til í að vinna frítt og það er regla hjá AFI að maður má ekki borga neinum, hvorki leikurum né tæknimönnum. Snemma bættist Aron Hjartarson sem rekur Framestore í LA í hópinn og hann hjálpaði mér að koma með tæknilegar lausnir á að mynda eina leikkonu sem tvær persónur. Ég fann fyrir miklum stuðningi úr öllum áttum. Foreldrar úr skólum barnanna minna buðu sig fram til að hjálpa, ein mamman tók allar ljósmyndirnar baksviðs og annar pabbi litaði myndina. Truenorth, sem er fyrirtæki sem ég hef verið að vinna mikið með á Íslandi, hjálpaði mér svo með stóran hluta af fjármagninu,“ segir Þóranna. 

Þegar ég spyr Þórönnu hvað hún hafi fengið út úr því andlega að gera Zelos líkir hún líðaninni við barnsfæðingu.

„Það er bara mjög svipað að fæða barn og gera mynd, hvort sem hún er stutt eða löng. Þetta er ótrúlega erfitt og sársaukafullt ferli, en svo þegar maður er búin og vel til tekst, þá getur maður ekki beðið eftir því að gera næstu mynd. En ég var bún að vera með leikstjóradrauma frá því að ég man eftir mér, svo það var frábært að láta drauminn rætast og svo bara bónus að fólk hefur gaman af myndinni. Ég hélt reyndar að Zelos væri gjörsamlega misheppnuð mynd, þar til ég sýndi hana fyrst í Bíó Paradís nokkrum dögum eftir að ég kláraði hana. Þá sá ég á fólki að því fannst hún góð, það var ekki bara að hrósa mér til að hughreysta mig. Svo þegar frændi minn hringdi (frændi sem hringir aldrei í mig) nokkrum dögum seinna til að hrósa mér aftur og svo ræða myndina í smáatriðum áttaði ég mig á því að frumraunin væri kannski bara þokkaleg.“

Á töskustað.
Á töskustað.
Kvikmyndin var tekin upp á heimili Þórönnu í Los Angeles.
Kvikmyndin var tekin upp á heimili Þórönnu í Los Angeles.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál