Hætt að opna pakkana á aðfangadag

Jóhann og Svali með drengina þrjá.
Jóhann og Svali með drengina þrjá.

Sigvaldi Kaldalóns eða Svali eins og hann er kallaður og eiginkona hans, Jóhanna Katrín Guðnadóttir, ákváðu að breyta jólahefðum sínum og eru hætt að opna gjafirnar á aðfangadag. 

„Við ákváðum að breyta til um síðustu jól og opna gjafirnar á jóladagsmorgun. Ástæðan fyrir því var sú að okkur hefur þótt svo sjarmerandi hugsun að vakna í rólegheitum á jóladag og opna án nokkurs stress. Erum með þrjú ung börn sem hafa verið vægt til orða tekið spennt fyrir jólunum eins og önnur börn og gert það að verkum að aðfangadagur hefur oft verið bullandi keyrsla,“ segir Svali. 

Sigvaldi Kaldalóns og Jóhanna Katrín Guðnadóttir.
Sigvaldi Kaldalóns og Jóhanna Katrín Guðnadóttir.

Svali er dagskrárstjóri K100 og stýrir hinum vinsæla útvarpsþætti Svali og Svavar á útvarpstöðinni. Hann segir að stress sem fylgir vinnu og jólahaldi hafi gert það að verkum að þau ákváðu að gera breytingar til að geta notið jólanna betur. 

„Fólk eyðir deginum í að preppa fyrir matinn, keyra út pakka, baða allt og alla og klára svo að elda. Hamast við að vera sestur kl. 18 við borðið og byrjað að borða. Allur þessi dýrindis matur á það til að vera gleyptur og pressan við að setjast og opna pakka er gríðarleg. 

Pakkarnir eru rifnir upp og stundum á mörkunum að maður geti séð hver fær hvað frá hverjum. Eftir að pakkarnir eru opnaðir þarf svo að setja allt dótið saman. Þegar því er lokið er bindið komið út á öxl og kaffið er orðið kalt,“ segir Svali. 

Í fyrra ákváðu þau hjónin að breyta til eins og fyrr segir. 

„Það er skemmst frá því að segja að þetta sló í gegn hjá krökkunum og var sérstaklega beðið um að þetta yrði gert aftur. Með þeirri bón fylgdi að pabbinn, ég, ætti að vera vaknaður á undan öllum og búinn að gera heitt súkkulaði og mönz fyrir hópinn og svo myndi pakkaopneríið hefjast,“ segir hann. 

Svali segir að það hafi komið fjölskyldunni á óvart hvað það er gaman að prófa eitthvað nýtt og njóta aðfangadagskvölds á annan máta.

„Við borðuðum góðan mat í rólegheitunum, spiluðum og fórum svo í kvöldkaffi til fjölskyldunnar,“ segir hann. Það verður því ekkert stress í ár hjá fjölskyldunni. 

Svali og Svavar Örn.
Svali og Svavar Örn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál