Seldi allar eigur og byrjar upp á nýtt

Ósk og Sigga Lund með infæddum á Balí.
Ósk og Sigga Lund með infæddum á Balí.

Fjölmiðlakonan Sigga Lund fór til Balí á dögunum þar sem hún dvaldi í mánuð í góðu yfirlæti. Hún segir að það að fara til Balí hafi verið besta gjöf sem hún hefur gefið sjálfri sér.  

„Mér líður mjög vel. Þetta var langbesta gjöfin sem ég gat gefið sjálfri mér á þessum tímapunkti. Eftir alla sjálfsvinnuna er ég svo miklu sterkari til að takast á við framhaldið og allt það sem framtíðin ber í skauti sér,“ segir Sigga. 

Spurð að því hvað hafi staðið upp úr nefnir hún námskeiðin hjá Ósk sem ganga út á lífsstílshönnun. 

„Lærðu að elska sjálfa þig og Transform your life. Svo kemur kemur Pilagrímsferðin upp fjallið Pura Lempuyang fast þar á eftir. Fjallgangan kallast 1.700 tröppurnar, en um leið og maður gengur upp fjallið er maður að gera upp fortíðina. Þetta var mikil lífsreynsla og svo táknrænt fyrir akkúrat það sem ég kom til að gera á Balí,“ segir hún. 

Áður en Sigga lagði land undir fót auglýsti hún heimildamynd sína um leitina að sjálfri sér á Karolina Fund. Þegar ég spyr hana hvernig gangi með myndina segist hún lítið geta sagt um hana akkúrat núna. 

„Öll vinna er bara á byrjunarstigi. Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvaða leið ég vil fara, en ég mun vinna framhaldið með fólki sem hefur meira vit á heimildarmyndargerð en ég til að þróa verkefnið frekar og setja myndina saman. En það er heilmikið sem einstaklingur þarf að takast á við í kjölfar skilnaðar. Við tekur langt ferli þar sem viðkomandi þarf að gera upp fortíð og horfast í augu við framtíð á gjörsamlega breyttum forsendum. Þetta ætla ég að vinna með í myndinni og kryfja til mergjar með mínu ferðalagi, viðeigandi sérfræðingum og síðast en ekki síst flétta inn í þetta þessum töfrum sem hafa myndast á milli mín og fylgjenda minna á Snapchat og ég mun hiklaust fá þá til að vera hluti af þessu öllu, með sína reynslu og innlegg, fyrir utan hvað það væri gaman að hitta allt þetta fólk í myndinni sem ég hef deilt lífi mínu svo persónulega með.“

Sigga tók upp mikið af myndefni á Balí sem verður notað í heimildarmyndinni.  

„Ég fjárfesti í myndavél og þrífæti og tók með mér út. Svo á ég auðvitað gífurlega mikið efni af Snapchat, en ég hef geymt allar upptökur þaðan frá upphafi. Ég er því komin með góðan grunn að myndinni. En tökum er ekki lokið, það er ekki komið að leiðarlokum í „Leitinni að Siggu Lund“, það er smá spölur eftir. En eins og áður hefur komið fram mun ég vinna framhaldið með fagfólki sem mun að mestu leyti sjá um myndatökurnar héðan í frá.“

Hvar verður heimildarmyndin sýnd?

„OMG, ég er ekki komin svo langt. Ég á alveg eftir að fjármagna þetta verkefni og þar af leiðandi er ég ekki komin með neina dagsetningu á hvenær hún veður tilbúin. Hvar hún verður sýnd kemur bara í ljós. Það er seinni tíma vandamál.“

Hvernig er að vera komin aftur heim?

„Það er bara gott að vera komin aftur heim. Ég var alveg tilbúin. Fannst best í heimi að anda að mér íslenska fjallaloftinu þegar ég steig á íslenska grundu. Ég sakna alltaf ferska loftsins á Íslandi þegar ég er í útlöndum.“

Áður en Sigga lagði af stað til Balí seldi hún veraldlegar eigur sínar. Þegar ég spyr hana hvort hún sé núna að byrja upp á nýtt segir hún svo vera. 

„Ég er ekki ríkasta kona í heimi eftir ævintýri undanfarinna ára, svo til þess að fjármagna ferðalagið og allt sem ég var að gera á Balí seldi ég allt dótið mitt. Ég lagði allt í sölurnar. Ég fann líka fyrir svo sterkri löngun að losa mig við allt og byrja alveg upp á nýtt þegar ég kæmi heim.  Svo já, til að svara spurningunni, þá er ég að byrja alveg upp á nýtt. Ég er nýkomin heim og ég á ekkert heimilisfang, ég á engin húsgögn, ekki einu sinni rúm. Ég er atvinnulaus og ég veit ekki hvenær eða hvaðan næsti launatékki kemur og það er svo sannarlega ekki mikið eftir á reikningnum mínum.

En um leið og óvissan hræðir mann, finnst mér þetta líka spennandi áskorun að takast á við, að byggja upp mitt nýja líf alveg frá grunni. Ég er núna hjá syni mínum á Egilsstöðum, en þegar ég kem heim í höfuðborgina á næstu dögum veit ég ekkert hvað tekur við. Ég þarf að byrja á því að finna mér vinnu og húsnæði og svo kemur allt hitt smátt og smátt. Þetta er ekki endilega það auðveldasta sem ég hef gert, en eftir á að hyggja er þetta allt þess virði. Ég er bjartsýn.“

Það er ein stór spurning sem brennur á vörum mér og það er hvort Sigga hafi fundið sjálfa sig á Balí. 

„Já, ég mundi segja það, ég fann alla vega mörg púsl í púsluspilið þar. Ég er að sjálfsögðu enn þá á þessari vegferð allri, enda ekki nema fimm mánuðir síðan ég skildi, en á Balí  tókst mér að núllstilla mig og í raun komast í tengingu við sjálfa mig og það finnst mér dýrmætast. Ef ég get tekið svo sterkt til orða þá líður mér eins og ég sé endurfædd,“ segir hún og hlær.

„Ég lærði líka aðferðir til að takast á við lífið á nýjan hátt og hafa stjórn á tilfinningum mínum og það fannst mér lærdómsríkt. Ég er nefnilega mikill tilfinningabolti. Núna er ég bara svo miklu heilsteyptari og algerlega tilbúin fyrir næstu skref í minni vegferð.“

Hvað er það við Balí sem er svo gott?

„Það er eitthvað töfrandi við Balí sem er erfitt að útskýra. Ég held að það sé fólkið sem býr þar. Og í Ubud er eitthvað við orku staðarins sem er svo heilandi. Hún (orkan) tengir mann einhvern veginn  betur við hjartað, sem hjálpar manni að átta sig betur á hvað maður vill.  Einhver orðaði það líka  svo skemmtilega að á Balí opnast fyrir öll skilningarvitin, ég tek svo sannarlega undir það.“

Hvernig hefur svona ferðalag eins og þú fórst í breytt lífi þínu?

„Ég er sterkari, heilsteyptari, kærleiksríkari og ég hræðist ekki framtíðina. Ég er miklu betur í stakk búin til að takast á við framhaldið.“

Hverjar eru þínar vonir og væntingar fyrir 2017?

„Ég vænti þess að 2017 færi mér allt sem hjarta mitt þráir. Það er allt opið og allt getur gerst. Er spennt að sjá hvaða tækifæri bíða mín og hvert lífið ætlar að leiða mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál