Buðu upp á vodka fyrir utan kirkjuna

Sara María Karlsdóttir og Þorlákur Ómar Einarsson.
Sara María Karlsdóttir og Þorlákur Ómar Einarsson.

Sara María Karlsdóttir og Þorlákur Ómar Einarsson fasteignasali gengu í hjónaband 29. ágúst 2015 eftir þriggja ára samband. Brúðkaupið sjálft fór fram í Dómkirkjunni og veislan var á Hótel Borg. Sara María skipulagði veisluna og segir Þorlákur að hann hafi í raun bara mætt, hún hafi ráðið öllu. 

Þegar ég heyri í brúðhjónunum segja þau að það sé best að Sara María sitji fyrir svörum því hún hafi skipulagt brúðkaupið frá A-Ö, hann hafi bara mætt. Hjónin voru búin að vera saman í þrjú ár þegar þau giftu sig en þau kynntust á kosningavöku og segjast hafa fallið fyrir hvort öðru strax. Sæbjörg Guðjónsdóttir innanhússarkitekt hjálpaði brúðhjónunum að skipuleggja veisluna og segir Sara María að það hafi eiginlega æxlast þannig óvart.
Þorlákur Einar og Sara María með börnin sjö. Hann átti …
Þorlákur Einar og Sara María með börnin sjö. Hann átti sex dætur frá fyrra hjónabandi og hún átti einn son. Dæturnar voru brúðarmeyjar nema sú elsta því hún er nú þegar gift.

„Sæbjörg var að hjálpa okkur með heimilið þegar við vorum að undirbúa brúðkaupið. Og svo var hún einnig að hjálpa okkur að hanna skrifstofur Stakfells fasteignasölu. Hún datt því eiginlega í að skipuleggja það. Ég vildi hafa brúðkaupið svolítið sérstakt og öðruvísi. Ég vildi ekki fylgja neinum reglum heldur hafa þetta eftir mínu höfði,“ segir Sara María.

Gestirnir fengu ekki að vita hvar brúðkaupið sjálft væri heldur áttu gestir að mæta á Hótel Borg kl. 18.00. Þar var tekið á móti þeim með fordrykk og 40 mínútum seinna mætti lúðrasveit sem spilaði áður en hún marseraði með gestina yfir í Dómkirkjuna. Brúðguminn var í fordrykknum en brúðurin var hvergi sjáanleg.

„Í fordrykknum komu veislustýrur brúðkaupsins og kynntu sig. Það voru þær Gyða Dan Johansen og Margrét Íris Baldursdóttir. Ég bað Gyðu sérstaklega um að vera veislustjóri en hún er fyrrverandi kona Þorláks og þar sem við höfum alltaf verið vinkonur fannst mér það viðeigandi. Fólk var samt pínu hissa á því. Þær stóðu sig mjög vel sem veislustýrur og voru mjög skemmtilegar og skiptu til dæmis nokkrum sinnum um föt í veislunni,“ segir Sara María.

Eftir fordrykkinn fór fólk í halarófu yfir í Dómkirkjuna. Sara María segir að það hafi skapað sérstaklega góða stemningu. Brúðguminn var þó orðinn svolítið órólegur með sötrandi gesti í kirkjunni því brúðurin lét bíða eftir sér. Loksins þegar hún mætti gaf Guðrún Karls Helgudóttir prestur brúðhjónin saman.

„Athöfnin var stutt en í kirkjunni voru gestir með gin og tónik í hönd því fólk labbaði með drykkina yfir í kirkjuna. Það var skemmtilegt að fólk gæti sötrað drykkina á meðan,“ segir Sara María.

Að athöfn lokinni var boðið upp á vodka-staup fyrir utan kirkjuna áður en gestir ásamt brúðhjónum þrömmuðu yfir á Hótel Borg aftur. Það var gert vegna þess að brúðurin er ættuð frá Póllandi og þar tíðkast að staupa sig með vodka. Það var líka fleira sem minnti á Pólland í veislunni því þar var boðið upp á svínafitu á brauði með súrum gúrkum sem ku vera algert lostæti.

„Þá tók við hefðbundin dagskrá en þegar líða tók á kvöldið ákváðum ég og dætur Þorláks að koma honum á óvart. Við fengum Gísla Pálma til að koma og syngja en Þorlákur dýrkar hann. Þetta var gjöf frá okkur til hans í tilefni brúðkaupsins,“ segir hún. Seinna um kvöldið, eftir ræðuhöld og fleira komu Fjallabræður og stigu á svið.

Sæbjörg Guðjónsdóttir sá um að skreyta salinn.
Sæbjörg Guðjónsdóttir sá um að skreyta salinn.

Eins og fram kom hjálpaði Sæbjörg Söru Maríu og Þorláki við skipulagningu brúðkaupsins.

„Hún var að hjálpa okkur heima hjá okkur og í leiðinni flæktist hún inn í að vera „wedding planner“ fyrir okkur. Hún hjálpaði mér með brúðarkjólinn og svo var hún með mér í að skreyta salinn. Hún henti til dæmis upp nammibar í veislunni og gerði salinn mjög fallegan. Hún raðaði upp í salinn og sá um útlitið á þessu öllu saman. Ég á það til að vera eins og jólatré, þannig að hún róaði þetta aðeins niður,“ segir Sara María og hlær.

Á brúðkaupsdaginn klæddist Sara María glæsilegum kjól sem Edda Bára Róbertsdóttir sem rekur vefinn eddabara.com saumaði á hana. Þorlákur var í sérsaumuðum Armani-fötum úr Herragarðinum. Hjónin eiga samtals sjö börn. Hún átti dreng fyrir en hann sex dætur. Hann var hringaberi og fimm af þeim voru brúðarmeyjar. Sú elsta var ekki brúðarmær enda gift sjálf.

„Brúðarmeyjarnar voru allar eins klæddar en Sæbjörg sá um að láta sauma á þær föt. Þær voru allar í stíl nema sú elsta, því hún er gift,“ segir Sara María.

Villi á Rauðhettu og úlfinum greiddi henni fyrir stóra daginn og líka stjúpdætrunum. Svo sá vinkona hennar um að farða hana fyrir stóra daginn.

Þegar Sara María er spurð að því hvort þau hafi verið lengi að skipuleggja brúðkaupið segir hún að undirbúningur hafi hafist um vorið.

„Við vorum nú ekki mjög lengi að skipuleggja brúðkaupið. Ég fattaði ekki hvað þetta tæki langan tíma og gerði þetta allt á síðustu stundu. Byrjaði almennilega í apríl eða maí og svo bættist og bættist í þetta.“

Ertu með einhver góð ráð við brúðkaupsskipulagningu?

„Kannski bara að reyna að njóta svolítið og vera ekki að stressa sig of mikið. Það þarf samt svolítið skipulag.“

Þegar Sara María er spurð hvað hafi staðið upp úr segir hún áberandi hvað allt tókst vel og hvað þetta var allt saman fljótt að líða.

„Við fengum fólk til að taka myndband af brúðkaupinu. Ég mæli með að fólk geri það. Það að eiga heimildamynd um daginn er stórkostlegt.“

Fréttin hefur verið uppfærð. Presturinn sem annaðist athöfnina og kirkjuvörður í Dómkirkjunni lögðu áherslu á að glös yrðu skilin eftir í anddyrinu og eftir þeirra bestu vitneskju var það gert. Enda ekki leyfilegt að sötra áfengi í messu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál