„Ég fór að gráta, eðlilega“

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefjarins og starfsmaður við vísindamiðlun hjá verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, á gott ár að baki. Það sem stendur upp úr er fallegasta augnablik lífs hans sem hann upplifði í Bandaríkjunum í ágúst. 

Hápunktur ársins?

„Ferð með næstum sjö ára syni mínum til Boston í byrjun ágúst og síðan þriggja vikna ferðalag um Vestur- og Miðvesturríki Bandaríkjanna með vinafóki mínu strax í kjölfarið. Stórkostlegar ferðir báðar tvær sem náðu hápunkti með almyrkva á sólu sem við fylgdumst með frá Wyoming.“

Hvaða manneskja hafði mestu áhrifin á þig á árinu? 

„Carl Sagan heitinn. Leita alltaf í bækurnar hans og sjónvarpsþætti þegar mig vantar innblástur. Stórkostleg manneskja, fyrirmynd mín í lífinu.“

Skrítnasta upplifun þín 2017?

„Þegar ég komst að því að sjónin í öðru auganu í mér er svo döpur að ég get aldrei látið draum minn um að læra flug rætast. Það útskýrði ýmislegt, aðallega af hverju ég sé illa.“

Mest eldaði rétturinn í eldhúsinu?

„Sennilega gerði ég oftast heimagerða hamborgara á árinu. En það er ekki nógu gott svar svo ég ætla að segja að það hafi verið uppáhaldsfiskrétturinn minn, ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu frá Dröfn Vilhjálmsdóttur hjá Eldhússögum. Gerði hann alloft á árinu.“

Uppáhalds lagið þitt á árinu?

„Spotify segir að ég hafi spilað Praying for Time með George Michael oftast á árinu. Það er enda frábært lag. Lögin Run for Cover og The Man með The Killers eru samt eiginlega uppáhalds nýju lögin mín á þessu ári.“

Uppáhaldsvefsíðan þín?

„Svo margar en fyrir utan mína eigin, Stjörnufræði.is, þá les ég daglega Kjarnann.is og sér í lagi alla frábæru pistlana hans Þórðar Snæs ritstjóra.“

Besta bók sem þú last á árinu?

„Earth in Human Hands eftir stjörnulíffræðinginn David Grinspoon. Sú bók fjallar um áhrif okkar mannkynsins á plánetuna okkar og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir ef við ætlum að lifa af allar breytingarnar af okkar völdum. Hin uppáhaldsbókin mín á árinu er Gulur, rauður, grænn og salt eftir Berglindi Guðmundsdóttur því ég dýrka fallegar og gómsætar matreiðslubækur, enda ástríðukokkur.“

Gulur, rauður, grænn og salt eftir Berglindi Guðmundsdóttur.
Gulur, rauður, grænn og salt eftir Berglindi Guðmundsdóttur.

Fallegasta augnablik ársins?

„Almyrkvinn á sólu í Bandaríkjunum 21. ágúst 2017. Það jafnast ekkert á við þetta einstaka sjónarspil og að fylgjast með því innan um 90.000 manns var ótrúlega mögnuð og falleg upplifun. Ég fór að gráta, eðlilega.“

Mest krefjandi verkefni ársins?

„Skrifa bók og rembast við að spara og safna fyrir útborgun í íbúð. Líður dálítið eins og ég sé að þreyja maraþon þar sem endalínan færist sífellt lengra burt og ég næ ekki að halda í við hana.“

Þakklæti ársins? 

„Svo margt! Þakklátur Sigmari Guðmunds og RÚV fyrir að leyfa mér að mala um hugðarefni mín í Morgunútvarpinu alla þriðjudagsmorgna og Sindra og Sigyn hjá KrakkaRÚV fyrir að bjóða mér að vinna með þeim. Þakklátur Agli Erni, Æsu Guðrúnu ritstjóra og Emilíu hönnuði hjá Forlaginu fyrir að vilja gefa út bækurnar mínar og hvetja mig til frekari verkefna. Þakklátur Friðrik Pálssyni á Hótel Rangá fyrir að gefa mér að borða öll stjörnubjört kvöld. Umfram allt er ég mest þakklátur fyrir þær stundir sem ég varði með syni mínum Arnóri Braga og foreldrum mínum fyrir að hugsa um hann þegar ég er önnum kafinn. Svo er ég bara þakklátur öllum þeim frábæru manneskjum sem ég hitti á árinu.“

Stoltur með nýju bókina sína!
Stoltur með nýju bókina sína! mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál