Sendir heimagerð jólakort á hverju ári

Guðrún er lunkin með prjónana.
Guðrún er lunkin með prjónana. Kristinn Magnúsosn

Guðrún S. Magnúsdóttir er mikið jólabarn og fyllist alltaf tilhlökkun þegar jólin nálgast. Guðrún er auk þess einstaklega lunkin í höndunum og prjónar bæði jólaskraut af miklum móð auk þess sem hún sendir vinum og ættingjum heimagerð jólakort á hverju ári. 

„Ég held ég geti sagt að ég sé einstaklega mikið jólabarn en það lýsir sér fyrst og fremst í tilhlökkun og gleði sem fylgir því að jólin séu að koma,“ segir Guðrún sem einnig er fastheldin á jólahefðir, en hún bakar ávallt og skreytir piparkökur fyrir jólin með börnum og barnabörnum.

„Við erum orðin 21 talsins þannig að þetta er heilmikill fjöldi sem kemur saman. Við skerum út hjörtu, sætabrauðskarla, stjörnur og allt mögulegt úr piparkökudeigi. Svo eru kökurnar skreyttar á eftir með glassúr. Þetta er rosa stemning, en ég hef gert þetta frá því börnin mín voru lítil. Nú eru þau orðin fullorðið fólk og sjálf komin með börn,“ segir Guðrún. Hún lætur baksturinn ekki nægja því hún föndrar ávallt eigin jólakort.

Hér má sjá safn af jólakortum sem Guðrún hefur föndrað.
Hér má sjá safn af jólakortum sem Guðrún hefur föndrað. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

„Ég geri handgerð jólakort fyrir hvert einasta ár og sem vísu inn í þau. Ég byrja oft í október, eða nóvember, að föndra kortin. Það er ótrúlega mikil vinna á bak við kortin, en alltaf rosalega skemmtileg. Við vinnum þetta gjarnan saman, ég og tvíburasystir mín, Þuríður Magnúsdóttir. Við vinnum voðalega vel saman og gerum stemningu úr þessu. Við förum saman að versla í kortin og hittumst síðan og búum þau til saman,“ segir Guðrún.

Þegar Guðrún er spurð hvort hún skreyti mikið heima við, segist hún ekki fara yfir strikið, þótt hún hafi vissulega gaman af því að skreyta fyrir jólin.

„Það er ekki yfirþyrmandi, en ég skreyti alltaf svolítið,“ segir Guðrún og kímir. „Ég byrja við upphaf aðventunnar og fer þá að tína til skrautið smám saman. Síðan er ég að setja upp smá skraut allan desember.“

Guðrún segir auk þess að hún sveiflist lítið með tískustraumum þegar kemur að jólaskrauti og haldi mest upp á þá muni sem hafa fylgt henni í gegnum tíðina.

„Manni þykir náttúrlega vænst um það sem hefur fylgt manni í gegnum árin og það fer alltaf á sama stað í húsinu. Ég er fastheldin á það að sumir hlutir eigi sinn stað,“ segir Guðrún að endingu.

Sokkarnir eru jólalegir og sætir.
Sokkarnir eru jólalegir og sætir. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

Guðrún gaf á dögunum út bókina Jólaprjón, en hún hefur að geyma fjölmargar fallegar prjónauppskriftir í anda jólanna. Hér deilir hún uppskrift af jólasokk, sem myndi prýða sér vel á hvaða arinhillu sem er.

Múrsteinn

Prjónar nr. 3 ½

Heklunál nr. 3

Garn: Trysil Superwash Funny, litir: Rautt (nr. 209) 1 hnota, hvítt (nr. 202) 1 hnota, hvítt (nr. 1002) 1 hnota – Funny

Prjónfesta 5 x 5 cm = 13 L og 16 umf. (Trysil Superwash)

Fitjið upp 56 L með Funny-garninu á prjóna nr. 3 ½. Skiptið á fjóra prjóna og tengið í hring, 14 L á hverjum prjóni. Prjónið garðaprjón (sjá bls. 8) alls 8 garða. Prjónið munstur u.þ.b. 20 – 21 cm. Endið í munstri á síðustu rauðu og hvítu umf.

Hæll – prjónið með hvíta garninu. Prjónið band í öðrum lit yfir 2 prjóna . Ef prjónaður er sokkur til að hengja upp , prjónið þá bandið yfir 2. og 3. prjón, annars er bandið prjónað á öðrum sokknum yfir 1. og 2. prjón en yfir 3. og 4. prjón á hinum sokknum. Síðan er prjónað með aðallit. Prjónið 1 umf. sl. yfir alla prjónana (líka yfir mislita bandið) en síðan er byrjað á úrtöku.

  1. umf.:
    1. prjónn – 1 L óprjónuð, 1 L sl. , steypið óprjónaðri L yfir þá prjónuðu. Prjóna út prjóninn.
    2. prjónn – prjónið þar til 2 L eru eftir, prjóna 2 L sl. saman.
    3. prjónn – eins og 1. prjónn.
    4. prjónn – eins og 4. prjónn.
  2. umf. – prjónið sl.

Þessar tvær umf. eru endurteknar þar til helmingur lykkjufjöldans er eftir, þá er tekið úr í hverri umf. þar til 8 L eru eftir (2 L á hverjum prjóni). Slítið frá og dragið bandið í gegnum lykkjurnar.

Rekið mislita bandið úr og skiptið lykkjunum niður á 4 prjóna. Takið líka bönd í hlið. Lykkjurnar skiptast þannig á prjónana að prjónn byrjar á hlið, á miðjum hæl, í hlið og á miðri rist. Ef lykkjurnar eru fleiri en gefið var upp í byrjun er tekið úr í hlið með því að prjóna 2 L sl. saman þar til upphaflegum lykkjufjölda er náð (eða uppgefnum fjölda).

Ef ekki eru jafn margar lykkjur á prjónunum takið þá fyrst úr á þeim prjóni þar sem fleiri lykkjur eru.

Þegar prjónaður er garðaprjónshæll eru 2 L prj. br. saman í brugðinni umferð þegar tekið er úr í hverri umferð.

Þegar lokið er við hælinn prjónið þá munstur u.þ.b. 10 – 11 cm. Passið að munstrið stemmi.

Úrtaka fyrir tá – prjónið með hvíta garninu. Umf. byrjar í hlið.

  1. umf.:
    1. prjónn – 1 L óprjónuð, 1 L sl., steypið óprjónaðri L yfir. Prjónið út prjóninn.
    2. prjónn – prjónið þar til 2 L eru eftir.
    3. prjónn – eins og 1. prjónn.
    4. prjónn – eins og 2. prjónn.
  2. umf. – prjónið sl.

Endurtakið þessar tvær umf. þar til helmingur lykkjufjöldans er náð eftir, takið þá úr í hverri umf., þar til 8 L eru eftir. Slítið frá og dragið bandið í gegnum lykkjurnar.

Gangið frá endum og heklið hanka með hvíta garninu.

Jólasokkurinn sem Guðrún prjónaði.
Jólasokkurinn sem Guðrún prjónaði. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon
Hér má sjá uppskrift af dýrindis jólasokk úr nýjustu bók …
Hér má sjá uppskrift af dýrindis jólasokk úr nýjustu bók Guðrúnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál