Fannst fáránlegt að tala við símann sinn

Egill Fannar Halldórsson í Sundhöll Reykjavíkur.
Egill Fannar Halldórsson í Sundhöll Reykjavíkur.

Egill Fannar Halldórsson er 24 ára bloggari sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Wake Up Reykjavík ásamt félaga sínum. Hann elskar að draga andann og segir að kærasta sín, Tanja Ýr, hafi ýtt sér út á samfélagsmiðlana sem hafa gert hann að samfélagsmiðlastjörnu. Þegar ég spyr hann út í líf hans segist hann vera að lifa til fulls. 

„Ég elska að lifa, ferðast og skapa ný tækifæri. Þar að auki finnst mér rosalega mikilvægt að vera alltaf að læra nýja hluti og vera stanslaust að bæta mig. Til dæmis sæki ég mikið af fyrirlestrum, las yfir 10 viðskipta- og sjálfshjálparbækur á síðasta ári og er að læra arabísku! Áður en Wake Up Reykjavík-ævintýrið mitt hófst var ég ritstjóri Menn.is, stofnaði minn eigin fréttamiðil og starfaði á veitingahúsum og börum í mörg, mörg ár,“ segir hann. 

Egill er sönn samfélagsmiðlastjarna. Hann segir að kærasta hans, Tanja Ýr, hafi ýtt honum út á þessa braut, þar að segja að verða virkari á þessum miðlum. 

„Ég viðurkenni alveg að mér hefur alltaf fundist rosalega gaman að taka myndir og deila efni. Ég hef verið á Snapchat og Instagram síðan þeir miðlar fóru að vera vinsælir. Og svo var ég líka með bloggið gullöld blog.central með vinum mínum á sínum tíma. 

En þetta ævintýri sem er í gangi núna hófst eiginlega á því að hún Tanja mín er að gera rosalega spennandi hluti á sínum miðlum og þar eru alveg tugþúsundir sem elska að fylgjast með henni. Út frá því fór mjög mikið af liði að vilja fylgjast með mér – bæði vegna þess að það var spennandi en kannski aðallega til þess að fá að geta skyggnst enn meira inn í lífið hennar. Ég held að það hafi verið kveikjan. Þar að auki myndi ég nú ekki ganga það langt að kalla mig samfélagsmiðlastjörnu! En það er samt rosalega gaman að sjá, að síðan ég fór að sýna aðeins meira frá því sem ég er að gera, þá hefur verið mikill áhugi á því að fylgjast með og ég hef verið að fá rosalega jákvæð viðbrögð frá alls konar fólki. Skemmtilegast er að fá skilaboð frá öðrum strákum og fólki almennt sem fær innblástur frá mér eða hvatningu til þess að standa sig vel á einhverju sviði,“ segir Egill. 

Egill Fannar Halldórsson.
Egill Fannar Halldórsson.

Dagarnir hjá Agli eru drekkhlaðnir verkefnum. 

„Allir dagar hjá mér byrja á „heilsuboozt“ og Wake Up Reykjavík. Ég er með skrifstofu í Austurstræti og þar eyði ég yfirleitt heilum vinnudegi með framúrskarandi frábæru fólki við það að láta drauma ferðamanna í Reykjavík rætast. Þar fyrir utan er ég með nokkur önnur leyniverkefni í eldinum sem ég er að sinna. Næst fer rútínan yfirleitt með mig niður í Crossfit Reykjavík þar sem ég hitti meira af góðu fólki og reyni að halda mér í formi. Dagarnir mínir enda svo yfirleitt með kæró þar sem við förum út að borða eða eldum okkur eitthvað hollt og gott,“ segir hann. 

Egill býr með Tönju Ýr sem er fyrrverandi Ungfrú Ísland, eigandi Tanja Ýr Cosmetics og bloggari. 

„Ég er búinn að vera með kærustunni minni henni Tönju Ýr í næstum því 5 ár og flestir vita það örugglega ekki en við erum búin að vera stinga saman nefjum síðan 2009! Svo okkur líður rosalega vel saman,“ segir hann og hlær. 

Hefur þú nægilegar tekjur af því að vinna á samfélagsmiðlum eða þiggur þú laun hjá einhverju fyrirtæki?

„Ég gæti örugglega sótt duglegar tekjur af því að vinna á samfélagsmiðlum hefði ég áhuga á því. Þetta er algjörlega það sem koma skal í markaðsmálum fyrir mörg fyrirtæki og mér finnst mikilvægt að stilla upp þeim umfjöllunum sem ég tek að mér sem „win-win-win“. Þar sem bæði ég, fyrirtækið og fólkið sem fylgist með mér nýtur góðs af. En eins og staðan er í dag sæki ég allar mínar tekjur frá Wake Up Reykjavík,“ segir hann. 

just a quick swim to balance out all the holiday eating ... 😁💣 - #reykjavik

A post shared by Egill Halldórsson (@egillhalldorsson) on Dec 26, 2017 at 5:53am PST

Hvernig finnst þér þú vera að þróast sem samfélagsmiðlastjarna?

„Þetta er alveg frábær spurning vegna þess að mér finnst sjálfum rosalega spennandi að sjá og pæla í því hvernig ég eða mín tilvera á samfélagsmiðlunum er að þróast. Hingað til hef ég nær eingöngu verið að deila bara mjög náttúrlega frá mínu eigin lífi og því sem ég er að snúast í hverju sinni. En frekar nýlega er ég farinn að gera aðeins meira úr þessu og því fylgir smá vinna. Það er að skipuleggja hvernig efni ég vil deila, hvar ég vil taka myndirnar, í hverju, með hverjum og svo framvegis.

Í dag er ég að fjalla mest um mat og drykk, minn eigin lífsstíl og ferðalög. En ég hef töluverðan áhuga á að fjalla meira um heilsu, viðskipti og hvernig við getum alltaf haldið áfram að bæta okkur sjálf,“ segir hann. 

Hverjar eru áskoranirnar þínar?

„Úff, mér þykir sem betur fer flestar áskoranir mínar tengjast fyrirtækjunum sem ég er að koma að frekar en því sem ég er sjálfur að gera á þessum miðlum. En þar eru helstu áskoranirnar svolítið að stíga út fyrir þægindarammann. Til að mynda þá gat ég aldrei hugsað mér að vera að tala við símann minn og senda það út í kosmósið og allir sæju það á Snapchat. Mér hefur alltaf fundist það svolítið skrítið en auðvitað er það eins og allt annað, lítið mál þegar það er komið í vana!“

Þegar þú ferð yfir árið, hvað stóð upp úr?

„Skemmtilegast á árinu eru ógleymanleg ferðalög um alla Ítalíu og alla Marokkó með Tönju. Að eyða tíma með ótrúlega hæfileikaríku fólki hjá Wake Up Reykjavik og eiga með þeim mjög árangursríkt þriðja ár í rekstri og síðast en ekki síst þá vorum við Tanja að kaupa okkar fyrstu íbúð saman núna í október. Það var mjög skemmtilegt og að sjálfsögðu gífurleg breyting á okkar lífi,“ segir hann. 

Hverjar eru vonir þínar og væntingar fyrir næsta ár?

„2018 á án nokkurs vafa eftir að verða stærsta, besta og skemmtilegast árið mitt til þessa. Og á það ekki að vera markmiðið hjá öllum öðrum líka?“

Egill og Tanja Ýr á Ítalíu.
Egill og Tanja Ýr á Ítalíu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál