Fyrsta teiknimyndarserían í loftið

66°Norður og Tulipop munu kynna samstarf sitt á HönnunarMars. Um er að ræða hina klassísku húfukollu 66°Norður sem fyrirtækið hefur framleitt í áratugi og hefur Tulipop nú sett svip sinn á þær með ævintýraheimi sínum.

Í samstarfinu við Tulipop má einnig finna regnkápur, léttar peysur og boli á yngstu kynslóðina. Persónur og ævintýraheimur Tulipop leika lykilhlutverk í línunni og eru litrík mynstur og teikningar af persónunum áberandi á flíkunum að sögn Signýjar Kolbeinsdóttur, yfirhönnuðar Tulipop og skapara Tulipop-heimsins.

„Innblástur minn fyrir Tulipop er líklega sá sami og innblástur annarra sem sinna skapandi starfi. Allt frá einstökum atburðum eða hlutum í umhverfi mínu yfir í lífsreynslu mína í sem breiðustum skilningi. Innblásturinn er eins og alltumlykjandi birta sólarinnar sem við fókuserum í brennipunkt með stækkunargleri sálarinnar. Boðskapurinn í Tulipop er sá sem áhorfandinn upplifir hverju sinni. Tulipop er síbreytileg og lifandi ævintýraeyja með engin bein tengsl við raunveruleikann þó að hún sé að miklu leyti innblásin af Íslandi,“ segir Signý.

„Hugmyndir mínar verða oftast til þegar ég sest niður við skrifborðið mitt með autt blað og blýant. Þegar karakterarnir komu hver á fætur öðrum uppgötvaði ég að þeir voru allir meira og minna einhvers konar afbökun og skrumskæling á mínum nánustu fjölskyldumeðlimum og vinum sem kom mér skemmtilega á óvart,“ segir hún.

Í fyrsta skipti sem Tulipop-fatnaður kemur á markað á Íslandi

Tulipop hefur getið sér gott orð undanfarin ár fyrir ævintýraheiminn sem þau hafa skapað þar sem skrítnar og skemmtilegar furðuverur búa. Vörulína fyrirtækisins er sífellt að vaxa og nú í fyrsta skipti fær Tulipop-heimurinn að líta dagsins ljós á fatnaði í samstarfi við 66°Norður. Flíkurnar verða fáanlegar í takmörkuðu upplagi og fara í sölu í verslunum 66°Norður á HönnunarMars.

„Það var alveg frábært að vinna með teyminu hjá 66°Norður. Við í Tulipop erum öll 66°Norður aðdáendur og höfum lengi dáðst að gæðum og hönnun 66°Norður varanna. Þetta er í fyrsta skipti sem Tulipop-fatnaður kemur á markað á Íslandi og það var frábært að vinna vörulínuna með fólki sem eru sérfræðingar á því sviði og með mikinn metnað til að búa til skemmtilega og litríka línu sem sameinar það besta úr bæði Tulipop og 66°Norður. Vörulínan inniheldur vörur fyrir allt frá nýfæddum börnum upp í unglinga. Ég held líka að húfurnar muni líka verða keyptar af fullorðnum, ég mun alla vegana tryggja mér eitt stykki,“ segir hún brosandi og bætir við:

„Það má segja að það hafi komið skemmtilega á óvart hversu mikill áhugi var meðal allra sem við höfum hitt í 66°Norður á verkefninu og gaman að sjá hversu mikil metnaður var til að gera vörulínuna sem flottasta. Við hjá Tulipop erum alsæl með útkomuna og allar vörurnar og hefðum gaman af því að gera enn fleiri vörur með 66°Norður í framtíðinni.“

Fyrsta teiknimyndarserían í loftið

Það er mikið í gangi og margt fram undan hjá Tulipop að sögn Signýjar. „Við settum nýlega í loftið okkar fyrstu teiknimyndaseríu á nýrri Tulipop-rás á YouTube. Handrit þáttanna skrifar snillingurinn Tobi Wilson en hann skrifar líka fyrir The Amazing World of Gumball (Undraveröld Gúnda), sem sýnd er á Cartoon Network og er ein af mínum uppáhaldsteiknimyndaseríum. Serían hefur fengið mjög góðar viðtökur en einungis þremur mánuðum eftir að serían fór í loftið voru teiknimyndirnar komnar með yfir 1,3 milljónir áhorfa og vorum við að setja framleiðslu á nýrri seríu af stað sem mun fara í loftið í sumar. Við erum búin að vera að vinna í íslenskri talsetningu þátttanna með algjöru stjörnuteymi leikara og mun serían verða sýnd á RÚV á vormánuðum. Svo eru fjölmargar nýjar vörur á leiðinni og margt skemmtilegt á döfinni í versluninni okkar á Skólavörðustíg,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál