Skemmtilega öðruvísi upplifun í fermingarveislunni

Birta Flókadóttir.
Birta Flókadóttir.

Birta Flókadóttir er annar stofnenda Furðuverka ásamt Rúnu Kristinsdóttur. Saman starfa þessar hugmynda- og hæfileikaríku konur við rýmis- og upplifunarhönnun fyrir fjölmarga áhugaverða viðskiptavini. Þær hafa m.a. hannað veitingastaði, verslanir, bankaútibú, hótel, skrifstofur, ásamt sýningum og viðburðum, þar sem upplifun er höfð að leiðarljósi. 

Þrátt fyrir að Furðuverk vinni aðallega fyrir fyrirtæki, þá hafa þær Birta og Rúna frábæra reynslu af því að halda veislur og partí þar sem mikið er lagt upp úr því að skapa ákveðna upplifun. „Þegar við tökum að okkur verkefni byrjum við á þarfagreiningu til að komast að því hvað það er sem fólk langar að ná fram. Í framhaldinu förum við á flug og komum með hugmyndir að útfærslum til að láta þann draum verða að veruleika. Ef fólk er ekki ákveðið í því hvað það vill hjálpum við því að finna það út eða fáum að leika lausum hala. Það vantar aldrei hugmyndirnar hjá okkur og við njótum þess að starfa með skemmtilegu fólki sem þorir að stíga örlítið út fyrir boxið.“

Upplifunarhönnun heillar

Birta er með viðskiptafræðilegan bakgrunn og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur starfað við markaðsmál og auglýsingagerð í yfir áratug en hefur sl. sex ár sérhæft sig í rýmis- og upplifunarhönnun. Hún hefur alla tíð haft brennandi áhuga á margskonar hönnun og er afar hugmyndarík. Okkur leikur forvitni á að vita hvað hún getur sagt okkur um það að skapa upplifun í veislu.

„Fyrir fermingarveislur eins og aðra viðburði er mikilvægt að byrja á að skoða þarfir og langanir en leyfa sér svo að fara á flug í hugmyndarvinnunni. Hugmyndir eru svo mátaðar við praktísk atriði og rauði þráðurinn ákveðinn. Um leið og ákveðin hugmynd er komin og þannig gildi til að vinna eftir, þá verður eftirleikurinn svo miklu auðveldari.“

Að mati Birtu er tækifæri til að hafa áhrif á heildarupplifun í fermingarveislu í öllum snertiflötum sem koma að veislunni. „Í boðskortinu, húsnæðinu, skreytingunum, matnum, uppröðun og sætafyrirkomulagi, tónlist, því sem fer fram í veislunni, viðmóti gestgjafa, tímasetningu veislunnar o.s.frv. Öll þessi atriði bjóða upp á ólíkar útfærslur til að ná fram mismunandi upplifunum.“

Áhugavert sjónarmið í þessu samhengi er áherslan sem Birta leggur á upplifun fermingarbarnsins. „Mér finnst mikilvægt að fermingarbarnið fái að njóta sín og fái hlutverk. Ef við erum með fermingarbarn sem er opið og elskar að koma fram þá er t.d. frábært að það taki virkan þátt í dagskránni. Er barnið með sérstaka drauma þegar kemur að deginum? Langar það að sýna á sér nýja hlið eða tala um eitthvað sem er því kært til að gefa gestum innsýn í líf sitt? Hvernig getur veislan endurspeglað fermingarbarnið?

Það er þannig rétt að huga bæði að upplifun gesta en alls ekki gleyma fermingarbarninu sjálfu og fjölskyldu þess. Þetta eru ólík sjónarhorn sem nauðsynlegt er að hafa í huga.“

Matur er greinilega ekki bara matur að mati Birtu. „Ef við tökum veitingarnar sem dæmi, þá skiptir máli hvað við bjóðum upp á, hvenær dagsins, hvernig því er uppstillt, hvort og hvernig matnum er dreift um salinn og svo framvegis. Á veislan að vera afslöppuð eða formleg? Sitjandi borðhald eða standandi? Er boðið upp á brauðtertur upp á gamla mátann (klassískt), súpu í brauðhleif (óvenjulegt) eða jafnvel sushi (nútímalegt). Eru hefðbundnar rjómatertur eða eru píramídar úr girnilegum ávöxtum og hollustan í fyrirrúmi? Þetta eru allt ólíkir valmöguleikar sem framkalla ólíkar upplifanir og hafa áhrif á það hversu mikil samskipti milli gesta verða og fleira í þeim dúr.

Það sem mér finnst skemmtilegt í stærri fermingarveislum þar sem ekki er víst að allir þekki fermingarbarnið vel, er að fá að kynnast því örlítið nánar með einhverjum hætti. Bæði er hægt að gera það með ljósmyndum frá áhugamálum þess og smá texta á boðskortinu, en líka í veislunni. Það væri t.d. hægt að sýna stutt myndbandi um fermingarbarnið eða láta ljósmyndir úr lífi þess rúlla á skjá eða hengja þær upp á einn vegginn. Fermingarbarnið gæti líka tekið til máls og sagt sögu úr lífi sínu, spilað á hljóðfæri eða sungið. Fyrir marga væri það ákveðin áskorun sem gaman væri að sigrast á. Allt framangreint stuðlar að því að gestir upplifi persónuleg tengsl við fermingarbarnið og það getur einnig aukið líkur á spjalli á milli gesta sem þekkjast lítið.“

Gleðin við völd

Birta mælir með léttu andrúmslofti í fjölskylduveislum. „Þó að fermingin sé hátíðlegt fyrirbæri þá má samt hafa veisluna létta og skemmtilega. Gleðin má vera við völd. Það er alltaf þakklátt.“

Það má líka alveg rugga þessu hefðbundna örlítið að mati Birtu. „Það er enginn sem segir að það megi ekki dansa kónga í veislunni. Hversu gaman væri að sjá ömmu sína dansa kónga? Sápukúluvél blásandi sápukúlum við innganginn framkallar örugglega bros og vekur lukku hjá yngri kynslóðinni. Það má láta fjölskylduhundinn sýna nokkur trix sem búið er að æfa í tilefni dagsins, hver stenst slík krúttlegheit? Ef fermingarbarnið fengi hest í fermingargjöf væri hægt að hafa hann á beit í garðinum, það myndi örugglega vekja kátínu meðal gesta að sjá hann út um gluggann. Að koma pínulítið á óvart gerir daginn bara eftirminnilegri.“

Varðandi það að geyma minningar frá deginum, þá er gott að hugsa það fyrirfram að mati Birtu.

„Það er hægt hafa myndatökuhorn þar sem teknar eru myndir af öllum gestum áður en þeir fara. Það er enn persónulegra en undirskriftir í bók. Allar myndirnar mætti svo prenta í litríka gestabók. Einnig væri hægt að hafa litla miða á öllum borðum þar sem gestir geta gefið fermingarbarninu góð ráð inn í lífið eða skilið eftir hlýleg orð í þeirra garð. Þeim mætti svo bæta við inn á milli mynda í gestabókinni. Einnig væri hægt að láta alla ástvini þrykkja fingrafar sitt á veglega pappírsörk sem væri hægt að ramma inn. Svona smáatriði geta kryddað daginn.“

Upplifun með Degi

Þótt Birta sjálf hafi nokkur ár ennþá til stefnu fyrir son sinn Dag Spóa, þar sem hann er aðeins níu ára, þá er hún staðföst í því að það verður glaðlegt og örlítið óvenjulegt. „Ég heyrði nýlega af skemmtilegri áskorun þar sem fermingarbarn fór í gegnum eins konar mannsdómsþraut. Það markmið var sett að komast á Hvannadalshnúk, æft var eð fjölskyldunni á minni fjöllum og markmiðinu svo náð saman. Mér finnst það ótrúlega skemmtileg hugmynd sem er bæði til þess fallin að skapa gæðastundir með barninu, kenna markmiðasetningu og efla sjálfstraust. Ég gæti vel hugsað mér að útfæra eitthvað sambærilegt með syni mínum. Það væri líka mjög skemmtilegt að deila myndum frá slíkri manndómsþraut í veislunni og jafnvel láta fermingarbarnið segja gestum frá sinni upplifun. Ég er bara þannig gerð að „út fyrir boxið“ er þema sem höfðar alltaf til mín!“ segir hún að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál