Ekkert „small talk“ hjá Jónu Hrönn

Jóna Hrönn Bolladóttir prestur í Garðarsókn.
Jóna Hrönn Bolladóttir prestur í Garðarsókn. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir.

Jóna Hrönn Bolladóttir prestur er landsmönnum kunn. Hún er sóknarprestur í Garðasókn og hefur verið ötul í gegnum árin að ræða kærleikann og trúmál við þjóðina. Hún hefur verið með fjöldann allan af börnum í fermingarfræðslu í ár og segir frá óvenjulegu ári í fermingarfræðslunni, en hún hefur aldrei kynnst öðrum eins áföllum í einum árgangi. Hún mælir með að við tölum um tilgang lífsins við börnin í stað hamingjunnar. Enda er lífið fullt af áskorunum eins og reynslan hefur kennt henni. 

Spurð hvernig fermingarfræðslan hefur gengið í vetur segir Jóna Hrönn að hún hafi gengið afar vel. „Við leggjum mikinn metnað í þennan starfsþátt í safnaðarstarfinu á hverju ári. Fermingarbörnin eru framtíðarfólk og við viljum nesta þau í trú, von, kærleika og gleði. Það er líka markmið hjá okkur að þau upplifi að þau eigi andlegt heimili í sóknarkirkjunni sinni og viti að þangað geti þau leitað bæði í gleði og sorg.

Það hafa orðið mörg áföll í mínu prestakalli, Garðaprestakalli, þau þrettán ár sem ég hef þjónað, enda stórt bæjarfélag, og þá hef ég mætt fermingarbörnunum mínum aftur í alls konar aðstæðum og þá er gott að finna þennan streng sem myndast á fermingarvetrinum og lifir áfram.

Þau þekkja mig og hina prestana, Hans Guðberg Alfreðsson og Friðrik J. Hjartar, sem einnig þjóna hér og það auðveldar okkur að mætast á vegferðinni þegar tengslin bundust á fermingarvetrinum. Það er í mínum huga alveg óskaplega dýrmætt, því þegar áföllin dynja yfir er svo margt framandi og því gott að handleiðarinn sé þér kunnugur og þekki þig á mótunartíma eins og fermingarveturinn er.“

Aldrei kynnst meiri áföllum í einum árgangi

Hvernig er árgangurinn að þessu sinni?

„Þetta er stór árgangur og ég held að við höfum aldrei haft fleiri einstaklinga í fermingarfræðslunni. Við kynjaskiptum og fermingartímarnir eru því ólíkir. Á þessum aldri fer mikið fyrir drengjunum og við þurfum að glíma svolítið, sem er býsna hollt og gott. Stelpurnar eru yfirvegaðri á þessum aldri en það er mikið gaman að hitta þau í hverri viku og vera alltaf í alvöru umræðu. Það er ekkert „small talk“. Við erum í stóru spurningunum.

Það hefur líka haft gríðarleg áhrif á starfið í vetur að tvær af fermingardætrum okkar hafa misst mæður sínar í blóma lífsins. Ég hef aldrei áður upplifað svona mikil áföll hjá einum árgangi á einum vetri. Enginn getur skilið þann sársauka og söknuð sem þær eru að fara í gegnum ásamt fjölskyldum sínum nema sá sem hefur verið í þessum sporum. Fátt er erfiðara en að missa mömmu sína á þessum aldri. Þetta voru sterkar mæður og miklar fyrirmyndir en margar fjölskyldur í árganginum þekktu þær og hafa verið samferða í gegnum uppvöxt barna sinna. Það segir sig því sjálft að þetta hefur bundið okkur öll saman böndum samkenndar og umhyggju. Aldrei fyrr höfum við rætt eins mikið um sorgina og vonina og í fermingartímunum í vetur.

Undursamleg gullkorn

Þegar þær misstu mæður sínar tókum við tíma í það að fermingarbörnin fengu tækifæri til að skrifa þeim persónulega kveðju sem ég færði þeim á útfarardegi mæðra þeirra. Í þessum tæplega tvö hundruð kveðjum sem hvor þeirra fékk fann ég undursamleg gullkorn sem ég aldrei gleymi. Þau stöldruðu við og reyndu að setja sig í sporin þeirra og fundu til samkenndar og elskusemi. Ég á þá bæn eftir þennan vetur að þær tvær nái flugi eins og mæður þeirra hefðu þráð og missi aldrei vonina, enda báðar stúlkurnar alveg einstaklega vel gerðar og mæður þeirra lögðu þeim til hluti sem munu fylgja þeim alla ævi. Einnig þakka ég fyrir að fólkið í þeirra nærumhverfi lætur sér ekki á sama standa og vill fá að vera hendur Guðs í þeirra lífi.“

Ræðum tilgang frekar en hamingju

Hvaða tilgang hefur ferming í lífi barna?

„Ég held að við eigum að hætta að leggja svona mikla áherslu á að ræða um hamingjuna við börnin okkar en leggja þeim mun meiri áherslu á að ræða um tilgang. Hver er tilgangur lífs þíns? Það er sú spurning sem við eigum öll að spyrja því að þá erum við að næra eina af frumþörfum okkar. Það að hafa tilgang er hverri manneskju gjörsamlega lífsnauðsynlegt. Það er t.d. forvörn gegn sjálfsvígum. Það er upplifun af tilgangsleysi sem rífur frá okkur unga fólkið. Í fermingartímunum erum við að ræða um tilgang, hver er tilgangur lífsins? Hver er tilgangur með veru minni í þessum heimi? Hver er ábyrgð mín í þessum heimi? Skipti ég máli? Hvernig mætum við fólki sem lendir í áföllum? Hvernig höldum við áfram þrátt fyrir áföll? Hver er ábyrgð mín gagnvart náttúrunni og öðru fólki? Hvað er jafnrétti? Þessara og margra fleiri spurninga er spurt og við notum helgisagnirnar okkar og persónu Jesú Krists og dæmisögur hans til að ræða margar af þessum spurningum.“

Jóna Hrönn Bolladóttir prestur með hluta af fermingarbörnum úr Garðasókn.
Jóna Hrönn Bolladóttir prestur með hluta af fermingarbörnum úr Garðasókn. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir.

Stórkostlegt hlutverk foreldra að koma börnum til manns

„Ég held að það sé aldrei eins mikið grátið í kirkjunni og á fermingardaginn. Það eru margir sem fella tár, sérstaklega ömmur. Það eru tár þakklætis og ástar. Þetta er alveg ferlegt hjá mér; eftir því sem ég eldist er ég alltaf að fara að gráta í fermingarmessunum og þarf oft að klípa mig í lærið til að fara ekki að brynna músum.

Þú horfir á unglinginn þinn í hvíta kyrtlinum og þú veist að það er ekkert sjálfsagt að eiga þetta barn og fá það stórkostlega hlutverk að koma því til manns. Þú veist það, þetta er gjöf. Þú ert auðvitað líka kvíðin yfir hulinni framtíð. Hvað bíður þeirra? Hvernig mun þessi heimur þróast? Verða þau eins heppin og ég að lifa við frið og fegurð á þessu landi?

Ég veit að foreldrar hér í Garðabæ hvetja unglingana sína til að fermast, hvort sem það er í sóknarkirkjunni eða borgaralega, vegna þess að þetta er mótunartími og gott að fá stuðning við að leggja inn mikilvæga vegvísa og gildi hjá unglingunum eins og gert er bæði hér hjá okkur, öðrum kirkjum og hjá Siðmennt. Þau þyrstir í samtöl á þessum aldri og það er gott að fá fleiri til að vera með í samtalinu við þau. Það er líka dýrmætt hvað margir foreldrar fylgja fermingarbörnum í messur og ýmsa viðburði í safnaðarstarfinu og við fáum mjög mikið af uppörvandi kveðjum og þakklæti. Við kunnum svo sannarlega að meta það.“

Köllunin kom fljótt

Hvernig stóð á að þú varðst prestur?

„Ég ólst upp á prestssetri, Laufási við Eyjafjörð. Foreldrar mínir sátu staðinn og pabbi, Bolli Gústavsson, var þar prestur öll mín uppvaxtarár og mamma mín, Matthildur Jónsdóttir, þjónaði kirkjunni þar af miklu æðruleysi og ósérhlífni í sjálfboðavinnu sem prestsmaki. Ég ætlaði að verða prestur strax sjö ára gömul og sá því ekkert til fyrirstöðu en það voru samt þrjú ár í það að fyrsta konan yrði vígð á Íslandi, sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir.

En sem betur fer fór nú enginn að segja mér að ég ætti ekki möguleika á því að vera í þessari þjónustu. Ég var líka mjög félagslega virk strax sem barn og ég elskaði allt þetta félagslega; að mæta í sunnudaga-skólann, fara í allar fermingarveislur með pabba og mömmu í sveitinni, mæta í messur og taka á móti fólki í messukaffi heima í Laufási og hjálpa til. Mér fannst þetta algjört æði og svo hafði þetta líka allt saman áhrif á mig trúarlega og mér fannst Jesús Kristur flottastur af öllum. Hann hefur alltaf verið minn meistari.“

Að bera á bænarörmum

Hvernig getum við almenningur stutt presta í verki?

„Þjóðkirkjan er stærsta fjöldahreyfing í landinu og það er magnað hvað margir eru þar í sjálfboðinni þjónustu í gegnum sóknarnefndir, kirkjukóra, messuþjónastarf, 12 spora leiðtogar, kirkjuþing, héraðsnefndir, leiðtogar í barnastarfi og svona mætti endalaust telja. Besti stuðningurinn við presta er að hafa fleiri góða lærisveina í gegnum sjálfboðna þjónustu. Þá er presturinn ekki einn á lærisveinagöngu sinni því öll erum við að læra á vegferð trúarinnar.

Prestar eru oft svo miklir einyrkjar og það er ekki gott, þeir þurfa að uppbyggjast í samfélagi. En ekkert veit ég betra en þegar ég fæ fyrirbæn og ég hef orðið þess áskynja að það hefur margt fólk innan kirkjunnar beðið fyrir mér í gegnum árin og það er það besta sem ég veit. Ég er í bænahóp kvenna og við elskum og virðum hver aðra og ég veit að þær biðja stöðugt fyrir mér og ég er endalaust þakklát fyrir það og geri allt til að bera þær á bænarörmum.“

Manneskjur eru svo merkilegar

Hvaða kraftaverk hefur þú upplifað í trúnni?

„Ég upplifi kraftaverk á hverjum degi þar sem mannsandinn og guðsandinn renna saman. Í vetur sýndum við fermingarbörnunum tvö vídeó með viðtölum við undursamlegt fólk í Samhjálp sem hafði verið deyjandi utangarðsmenn. Þetta eru þau Magdalena Sigurðardóttir, sem mætti Jesú Kristi í Hlaðgerðarkoti og hefur náð undraverðum árangri og er starfandi fíkniráðgjafi í dag, og Gugga og Jói, sem voru við dauðans dyr, langt gengnir sprautufíklar en fyrir kraftaverk komu til baka og hafa starfað fyrir Samhjálp. Þessir þættir höfðu mikil áhrif á unglingana og okkur fræðarana enda saga þeirra þriggja stórbrotin og sterk. Ég er stöðugt að sjá kraftaverk í mínu starfi, ekki síst í gegnum fólk sem lendir í miklum áföllum en rís upp úr vonlausum og ósanngjörnum aðstæðum og lifir fallegu og gefandi lífi og ég er viss um kraft heilags anda í aðstæðum margra. Ég heyri oft svo ótrúlegar sögur í sálgæslu og ég vildi óska þess að ég gæti deilt þeim öllum því þær segja manni hvað andi fólks getur orðið stór. Manneskjur eru svo merkilegar.“

Fegurðin og umhyggjan

Hvernig getum við komist í gegnum lífið og sleppt óttanum og treyst Guði?

„Stundum getum við ekki meir, eða eins og Gugga og Jói sögðu áður en þau hófu batagönguna: „Við vorum alveg á lokastigi alkóhólismans en svo gáfumst við bara upp. Fyrsta sporið í 12 spora vinnunni er góð leið: Við viðurkenndum vanmátt okkar vegna aðskilnaðar frá Guði og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.“

Við verðum oft að lýsa okkur sigruð til að geta hafið sigurgöngu, þetta á við gagnvart fíknum, kvíða, ótta og tilgangsleysi. Svo er iðkunin mögnuð, að aga sig til iðkunar. Þá er ég að tala um bænina, hugleiðslu, núvitund, kyrrðarbæn og slökun. Við erum líkami, sál og andi og allt þarf að rækta með iðkun og umhyggju. Því allt sem nýtur umhyggju er fallegt.“

Hvernig getum við á skemmtilegan hátt eflt trú barnanna okkar í verki?

„Við erum með frábært verkefni á hverju ári í fermingarfræðslunni en það er að safna fyrir vatnsbrunnum í Úganda og kynnast aðstæðum barna þar, öll fermingarbörn í þjóðkirkjunni fara af stað út í skammdegið og knýja dyra hjá landsmönnum og bjóða fólki að styrkja þetta mikilvægi verkefni sem felst í því að bjarga mannslífum. Hjálparstarf kirkjunnar hefur um nokkurra ára skeið stutt verkefni í þremur héruðum í Úganda og það snýst um að draga úr tíðni HIV-smits og áhrifum alnæmis á samfélagið. Sá hluti sem Hjálparstarfið styður snýst um að hjálpa börnum sem misst hafa báða foreldra úr alnæmi og búa ein. Áhersla er á að bæta lífsskilyrði þeirra með því að reisa handa þeim íbúðarhús með grunnhúsbúnaði og eldaskála með sérhönnuðum hlóðum sem spara eldsneyti og helstu áhöldum. Hreinlæti á heimilum er aukið með fræðslu og með því að gera kamra og hreinlætisaðstöðu. Einnig er gengið frá því að börnin hafi betri aðgang að hreinu vatni með því að koma upp safntönkum við hús. Fermingarbörnin okkar fá kynningu á þessu mikilvæga starfi og safna peningum fyrir börnin í Úganda og það safnast margar milljónir á hverju ári frá öllum fermingarbörnum kirkjunnar og við hvetjum þau til að taka þátt í hjálparstörfum bæði hér heima og erlendis ef þau hafi tækifæri til í framtíðinni.“

Hvernig aðstoð bjóðið þið upp á fyrir börn, fjölskyldur og almenning í landinu?

„Ég get ekki svarað fyrir allar kirkjur í landinu. En í Garðabænum höfum við boðið upp á skapandi starf fyrir börn á aldrinum 7-16 ára og þá aðallega í gegnum tónlist. Við erum með frábært fólk, reynda og hæfileikaríka einstaklinga, í verkefnunum. Við erum til dæmis með Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur, Davíð Sigurgeirsson og Ingvar Alfreðsson í tónlistarstarfinu og þau eru þjóðþekkt fyrir sína miklu hæfileika. Við bjóðum upp á sálgæsluviðtöl í gegnum presta, djákna og trúarbragðafræðing við söfnuðinn. Við erum með marga sorgarhópa sem starfa árið um kring og ég held að þau sem sækja slíkt starf séu á bilinu 14-85 ára því fólk missir á öllum aldri. Við erum með djákna, Helgu Björk Jónsdóttur og Margréti Gunnarsdóttur, sem sinna húsvitjunum og heimsóknum á hjúkrunarheimilið í bænum. Þar er verið að vitja fólks sem hefur orðið fyrir missi eða glímir við veikindi. Við erum með opið hús fyrir eldri borgara í viku hverri, bænahópa, kyrrðarstundir og afar fjölbreytt helgihald þar sem áherslan er á kærleiksríkt andrúmsloft þar sem allir eru velkomnir til að njóta og vera með.

Við erum með styrktarsjóði sem við úthlutum úr til að mæta fólki í fjárhagserfiðleikum, fólki sem glímir við veikindi, tímabundið atvinnuleysi, fólki sem vill sækja nám eða þarf stuðning fyrir börnin sín.

Við erum með ýmiskonar fræðslu. Í þessum mánuði tókum við okkur saman söfnuðir Hafnarfjarðar og Garðabæjar og buðum skólastjórnendum upp á fræðslu um sorg barna eftir aldri og þroska og vorum þar með frábæra fyrirlesara og áttum gott samtal. Svo erum við auðvitað með sunnudagaskóla og foreldramorgna þar sem börnin okkar eru í heiðurssæti. Við viljum að allt starf kirkjunnar sé sönn kærleiksþjónusta. Kirkjan er mannlífstorg þar sem allir aldurshópar eiga að hafa rými og meistarinn er Jesús Kristur.“

Áttu sálm eða vers úr biblíunni tengt fermingunni sem þér þykir skemmtilegt?

„Mér þykir undurvænt um sálminn hans séra Friðriks Friðrikssonar, ekki síst vegna þess að hann var svo mikill hugsjónamaður og líklega einn áhrifaríkasti einstaklingur í íslensku samfélagi á tuttugustu öldinni. Hann stofnaði KFUM/K og sumarbúðirnar í Vatnaskógi og ég veit fátt betra en að standa í gamla skálanum í skóginum og segja fermingarbörnunum frá þessum einstaka manni sem hafði mikil áhrif á ungt fólk til góðs og hafði örugglega alveg ómælda tilfinningagreind. Hann átti reynslu af því sem ungur maður að missa sjónar á tilgangi lífsins og það var stutt í það að hann félli fyrir eigin hendi en í gegnum kærleiksþjónustu gagnvart meðbróður sínum vaknaði neistinn aftur og hvísl andans náði inn að hjarta hans og hann þjónaði fólki, sérstaklega ungu fólki, af mikilli ástríðu stóran hluta af tuttugustu öldinni.“

Vers valið af Jónu Hrönn:

Konungur lífsins kemur hér til sala,

kveður til fylgdar börnin jarðardala,

undan þeim fer hann, friðarmerkið ber hann,

frelsari er hann.

Fermingarbarn, til fylgdar þig hann krefur,

fegurstu kosti eilífs lífs hann gefur,

sakleysið verndar, sorg í gleði breytir,

sigurinn veitir.

Styrki þig Guð að velja veginn rétta,

viskan og náðin sveig úr rósum flétta,

undan þér fer hann, friðarmerkið ber hann,

frelsari er hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál