Fermingarmyndin gefur Eddu enn smá hroll

Edda Björgvinsdóttir.
Edda Björgvinsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Edda Björgvinsdóttir leikkona er okkur flestum kunn. Hún er frábær gamanleikkona, einlæg og þroskuð. Ein af þeim sem verða bara betri með árunum. Hér talar hún um ferminguna og skilning sinn á æðri mætti, tilgang þess að rækta andlegt líf og að taka ábyrgð á eigin trúarlífi. 

Edda Björgvinsdóttir er um þessar mundir að æfa í Þjóðleikhúsinu fyrir nýjan íslenskan söngleik sem ber nafnið Slá í gegn. Söngleikurinn er eftir Góa – Guðjón Davíð Karlsson og er byggður á stuðmannalögunum sem allir þekkja. Hún er einnig að leika í Risaeðlunum í Þjóðleikhúsinu, þar sem hún leikur sendiherrafrúna Ágústu, og er ekkert lát á vinsældum þess leikrits.

Fyrirlestrar Eddu um húmor og gleði á vinnustað eru einnig sívinsælir og hafa farið víða um heim.

Inn á milli reynir Edda að fylgja eftir myndinni Undir trénu, sem vakið hefur heimsathygli.

Þegar ég tók sjálf ábyrgð á trúarlífi mínu

Hvaða minningu áttu úr eigin fermingu?

„Eina sem ég man mjög vel eftir er að mér fannst hátíðlegt að standa í fallegu kirkjunni og ég fann í hjarta mínu að ég var að byrja að taka sjálf ábyrgð á mínu eigin trúarlífi, í þessari athöfn.

Fermingarveislan var mikið stuð og gjafirnar á þessum tíma voru vanalega skartgripir, náttföt og undirkjólar (úr næloni!). Ekkert af þessu notaði ég þá – og ekki enn þann dag í dag!“ segir Edda brosandi.

Hvaða máli skiptir ferming í þínum huga?

„Ferming er svolítið eins og að sleppa undan ábyrgð foreldranna og taka sjálfur við eigin trúarlífi eða andlegri ræktun.“

Áttu þér sterka trú? (æðri mátt)

„Minn æðri máttur skiptir mig gríðarlega miklu máli. Samband mitt við æðri mátt hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Fyrst fannst mér trúariðkun vera skylda og kvöð en í dag nýt ég þess að fá að vera hluti af andlegri dulúð alheimsins og finnst ég upplifa alls konar æintýri þegar ég sleppi raunhyggju og læt leiðast eitthvað burt úr hversdagsleikanum.“

Hvernig hefur það nýst þér í lífinu?

„Ef ég staldra við og hætti um stund að vera á harðahlaupum í lífinu – anda djúpt og hlusta á mína innri rödd – finnst mér ég stundum vera í dálítið mögnuðu sambandi við eitthvað sem ég get ekki útskýrt og fyllist oft vissu og öryggi um þær leiðir sem ég þarf að velja.“

Er Guð með húmor?

„Brjálæðislega góðan húmor! Og þegar ég er á milljón að gera plön heyri ég stundum skellihlátur þar sem ég er gripin á lofti og beint í þveröfugar áttir við það sem ég var að skipuleggja.“

Áttu góða húmoríska sögu af þér og Guði?

„Mjög margar, en í hnotskurn er lýsingin einmitt í svarinu hér á undan. Ég lendi svo oft í að sjá fyrir mér hvernig hlutirnir muni þróast – ég legg drög að einhverju og skipulegg í smáatriðum – og svo er eitthvað óskiljanlegt sem gerist og ég er allt í einu stödd í gjörólíkum veruleika.“

Andleg hreinsun og að koma sér á óvart

Hvað er hægt að gera skemmtilegt þegar maður fagnar áfanga sem þessum?

„Ég held að það skemmtilegasta sem maður gerir á svona tímamótum sé að koma sér svolítið á óvart í nýju „fullorðinslífi“. Fara til dæmis í andlega hreinsun um tíma. Taka allar neikvæðar hugsanir og breyta þeim. Gera góðverk á hverjum degi í stuttan (eða langan) tíma. Finna allt það fallegasta í fari fólks og láta vita að maður dáist að t.d. styrkleikum þess. Og byrja að elska sjálfan sig eins og maður er.“

Um hvað snýst lífið?

„Kærleikann. Það er kjarninn í öllum trúarbrögðum og grunnurinn í allri andlegri vegferð.“

Hvað er það merkilegasta sem þú hefur gert í lífinu?

„Fyrir utan kraftaverkin fjögur sem ég gat af mér – börnin mín – er það gæfa mín að þora að viðurkenna vanmátt minn og byrja að taka til og reyna að laga eigin bresti.“

Vissirðu hvað þú myndir verða þegar þú fermdist?

„Já – ég var staðráðin í að verða leikkona frá sjö ára aldri.“

Eitthvað að lokum?

„Já. Ekki vera grimm við ykkur, elsku fermingarbörn, þegar þið skoðið fermingarmyndirnar af ykkur eftir 30 ár! Maður öðlast smám saman húmor fyrir þeim (ég fæ samt ennþá smáhroll þegar ég horfi á miðaldra hárlagninguna á 13 ára Eddu Björgvins!).“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál