Sleppa veislunni og fara í ferðalag

Guðríður Sigurðardóttir segir. „Það sem kom kannski á óvart var …
Guðríður Sigurðardóttir segir. „Það sem kom kannski á óvart var hvað við foreldrarnir höfðum gaman af þessu öllu saman sem var hugsað fyrir börnin.“ Ljósmynd/Úr einkaeign.

Guðríður Sigurðardóttir, eigandi og ráðgjafi hjá Attentus, er að ferma annað barn sitt á þessu ári. Hún og eiginmaður hennar, Grétar Þórarinn flugstjóri, og börn þeirra fara nú í annað sinn í ferðalag í tilefni fermingar. Sú hefð er að skapast innan fjölskyldunnar að sleppa veisluhöldum og pakkastandi í kjölfar fermingar og fjárfesta heldur í ævintýri. 

Um tilurð þessarar hugmyndar segir Guðríður eða Gurrý eins og hún er vanalega kölluð: „Áður en dóttir mín tók þessa ákvörðun á sínum tíma vorum við fjölskyldan að horfa á heimildarmynd um Montezuma í Mexíkó og upp úr því varð til samtal okkar á milli þar sem við ákváðum að eitt af því sem við gætum gert til að halda upp á ferminguna væri að fara saman sem fjölskylda á fjarlægar slóðir. Þau mættu velja nýja heimsálfu sem við höfum ekki áður heimsótt og saman myndum við fjölskyldan svo plana ferðalagið en þemað væri að gera eitthvað ævintýralegt með börnunum.“

Vigdís Birna valdi þessa leið í staðinn fyrir hina hefðbundnu leið að fermast, halda stóra veislu og fá pakka. Vigdís Birna er í eðli sínu ævintýramanneskja, er sjálf lítið fyrir athyglina svo þetta átti vel við hana að sögn Gurrýjar.

Ævintýri í Ástralíu

Þar sem eiginmaður Gurrýjar er flugstjóri og hún sjálf mikið fyrir ferðalög fer fjölskyldan reglulega saman í góð frí. En hugmyndin var að gera þetta ferðalag sérstakt. „Vigdís Birna fékk að velja heimsálfuna sjálf. Í fyrstu leitaði hugur hennar mikið til Asíu, nánar tiltekið til Indlands. En svo varð Ástralía fyrir valinu hjá henni, en þar býr yngsta systir mín ásamt fjölskyldu sinni. Hugmyndin var að fermingarbarnið myndi velja heimsálfuna, að því loknu ætti hver fjölskyldumeðlimur að leggja til einn hlut sem við myndum gera á þessum stað. En auk eldri barnanna eigum við Grétar tvo yngri syni, sem eru þrettán ára og sjö ára.“

Eitt af því sem fjölskyldan gerði í Ástralíu í fermingarfríinu var að synda með villtum höfrungum, snorkla við Kóralrifið mikla og heimsækja Uluru sem er helgur staður frumbyggja í Ástralíu svo eitthvað sé nefnt. „Þar fórum við m.a. á stutt myndlistarnámskeið hjá frumbyggjakonu þar sem við lærðum ýmis tákn sem frumbyggjar nota í myndum sínum til að segja sögur. Ég tókst á við lofthræðsluna í ævintýralegum rússíbana og við fengum leiðsögn um lífríki kórala hjá sjávarlíffræðingi svo eitthvað sé nefnt.“

Börnin virða fyrir sér Uluru, í heimsferðalagi sínu í Ástralíu.
Börnin virða fyrir sér Uluru, í heimsferðalagi sínu í Ástralíu. mbl.is

Næsta ævintýri í Afríku

Það var mikið gert í þessu ferðalagi, segir Gurrý, mun meira en þau eru vön. „Það sem kom kannski á óvart var hvað við foreldrarnir höfðum gaman af þessu öllu saman sem var hugsað fyrir börnin.“

Í ár fékk Andri Sveinn sömu valmöguleikana og systir hans tveimur árum áður um hvort hann vildi fermast og hvort hann vildi veislu og pakka eða heimsferðalag. „Hann var ekki lengi að taka ákvörðun um að hann vildi ferðalag. Það var mikill hausverkur fyrir hann að velja hvert förinni væri heitið, en að lokum valdi hann Afríku sem heimsálfu sem hann langaði að upplifa með okkur.“

Gurrý er þannig í frekar óhefðbundnum fermingaundirbúningi; að finna skemmtilega hluti að gera í Afríku í stað þess að velja kökur og búa til boðslista. „Við leggjum öll okkar í dagskrána enda ýmislegt að gera og sjá í Afríku. Við ætlum til Suður-Afríku, byrjum í Höfðaborg, erum að plana safarí í Namibíu og ætlum svo mögulega að enda í litlum strandbæ í tvo til þrjá daga í enda ferðarinnar eða eitthvað annað sem okkur dettur í hug þegar við erum komin út.

Fjölskylda sem elskar að ferðast

Við elskum að fara á fjarlægar slóðir og fjárfesta í minningum saman. Við erum með þessu að auka víðsýni barnanna og ferðahæfni þeirra. Ef þau hafa ferðast svona langt með okkur verða þau færari um að ferðast sjálf og finna nýja og spennandi hluti að gera í lífinu.“

Andri Sveinn fermingardrengur ásamt Gurrý, Vigdísi Birnu og Arnóri Gunnari.
Andri Sveinn fermingardrengur ásamt Gurrý, Vigdísi Birnu og Arnóri Gunnari.

Gurrý segir að eftir fyrra ferðalagið hafi hún strax fundið fyrir því hvernig það hafi opnað augu barnanna. „Vigdís Birna talaði lengi um það eftir á hvað hana langaði til að leggja stund á sjávarlíffræði í framtíðinni eftir sundferðina um Kóralrifið mikla með sjávarlíffræðingi, og það hefði hún án efa ekki gert nema hafa kynnst fræðigreininni í gegnum leiðsögn hans. Ég tel þessa upplifun barnanna á fjarlægum slóðum opna möguleika. Börnin fá heiminn í fangið og það stækkar veröldina að kynnast af eigin raun hvað er í boði utan landsteinanna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál