Með hamingjukitl í maganum

Kolbrún Vaka Helgadóttir og Hilmar Guðjónsson á brúðkaupsdaginn.
Kolbrún Vaka Helgadóttir og Hilmar Guðjónsson á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Kolbrún Vaka Helgadóttir hefur starfað við dagskrárgerð fyrir RÚV. Í nokkur ár starfaði hún við menningarþáttinn Djöflaeyjuna og Menninguna í Kastljósi. Hún gerði einnig þáttaseríuna Örkina sem fjallaði um sambandi milli manna og dýra. Í dag vinnur hún að heimildarþáttum um HönnunarMars og byrjaði nýlega í starfi sem kynningarfulltrúi hjá RÚV. Hún er gift Hilmari Guðjónssyni, leikara hjá Borgarleikhúsinu. 

Brúðkaup þeirra Kolbrúnar og Hilmars var haldið laugardaginn 15. apríl 2017. „Þetta var laugardagurinn fyrir páska og afmælisdagur tengdamóður minnar Kristínar Lárusdóttur. Planið er svo að halda upp á brúðkaupsafmælin alltaf laugardaginn fyrir páska frekar en á dagsetningunni sjálfri. Þá eigum við alltaf frí á brúðkaups-afmælisdaginn. Við erum nú þegar byrjuð að framkvæma planið, héldum fyrsta brúðkaupsafmælið okkar á Tenerife núna um daginn,“ segir Kolbrún og brosir.

Fékk bónorð í Flatey

Hvernig var undirbúningurinn?

„Undirbúningurinn var æðislega skemmtilegur. Himmi bað mín í Flatey 30. júní 2016 og við tókumst í hendur þann dag og hétum því að gifta okkur innan árs. Það er svo dæmigert að trúlofa sig og finna svo aldrei „rétta“ tímann fyrir brúðkaupið. Það er alltaf hægt að finna sér afsökun til að gera þetta ekki. Brúðkaup kosta mikla vinnu í skipulagningu og einnig peninga.“

Spurð um undirbúning brúðkaupsins segir Kolbrún að Hilmar, eða Himmi eins og hann er kallaður hafi verið verkstjórinn.

„Hann keypti skipulagsbók um haustið þar sem við settum niður hugmyndir okkar og allskonar upplýsingar. Okkur langaði að hafa þetta sveitabrúðkaup en þar sem planið var að gifta okkur að vori voru gistimöguleikar takmarkaðir. Við ákváðum því að gifta okkur í Garðaholti, þar er tilfinningin eins og að vera úti á landi en allir geta tekið leigubíl heim að veislu lokinni. Okkur fannst líka gaman að hafa sjóinn nálægan þar sem við kynntumst í sjósundi.“

Falleg fjölskylda í ljósmyndatöku á brúðkaupsdaginn.
Falleg fjölskylda í ljósmyndatöku á brúðkaupsdaginn. Ljósmyndari/Íris Dögg Einarsdóttir

Að missa sig ekki í smáatriðunum

Að sögn Kolbrúnar gekk undirbúningurinn mjög vel og náttúrulega fyrir sig. „Við tókum strax þá ákvörðun að missa okkur ekki í smáatriðunum. Það er nefnilega endalaust hægt að spá og spekúlera í öllu varðandi brúðkaup. Allt frá því að velja lit á servíettur í að finna réttu sokkana fyrir börnin. Við reyndum að halda okkur við heildarmyndina og að njóta alls þess sem við kæmi brúðkaupinu, þar með talið undirbúningnum.“

Kolbrún og Hilmar eru einstaklega hæfileikaríkt fólk sem ákváðu í …
Kolbrún og Hilmar eru einstaklega hæfileikaríkt fólk sem ákváðu í sameiningu að missa sig ekki í smáatriðunum fyrir brúðkaupið. Ljósmyndari/Íris Dögg Einarsdóttir

„Okkur fannst mikilvægt að hafa skemmtiatriðin persónuleg og fengum aðeins fólk sem við tengdumst til að vera með atriði. Við erum svo heppin að eiga fullt af hæfileikaríkum vinum og fjölskyldu sem sáu um skemmtiatriði í athöfninni og veislunni. Til að mynda söng pabbi minn í kirkjunni með kórnum sínum, góðar vinkonur okkar sungu einnig í kirkjunni þær Magga Stína, Harpa Björnsdóttir og Ása Ninna Pétursdóttir og Guðbjörg Hlín, frænka Himma, spilaði á fiðlu. Faðir Himma spilaði svo með hljómsveitinni sinni Bítilbræðrum fyrir dansi í veislunni og þeir fengu með sér fjölda gestasöngvara upp á svið. Þetta var alveg æðislegt!“

Fallegt söngatriði frá vinkonum í athöfn.
Fallegt söngatriði frá vinkonum í athöfn. Ljósmyndari/Íris Dögg Einarsdóttir

Var eitthvað sem kom á óvart?

„Hversu erfitt það var að setja saman gestalistann kom kannski helst á óvart í undirbúningnum. En varðandi brúðkaupið þá kom það mest á óvart hvað þetta var stórkostleg lífsreynsla.“

Fann vintage-brúðarkjól í Kaupmannahöfn

Var vandasamt að finna þennan fallega kjól sem þú varst í?

„Ég fór í litla vintage-búð í Kaupmannahöfn sem var alveg pökkuð af gömlum brúðarkjólum. Það voru þúsundir kjóla þarna inni í þessum litla kjallara. Ég fór þangað með bróður mínum og mágkonu minni. Á tímabili var ég alveg að bugast og nálægt því að gefast upp þegar bróðir minn rétti mér þennan kjól sem varð síðan fyrir valinu. Afgreiðslumaðurinn í búðinni benti mér á frábæra möguleika til að breyta kjólnum lítillega þannig að hann hentaði mér ennþá betur. Ég fékk svo Helgu Ægisdóttur klæðskera til að breyta honum fyrir mig og varð svakalega ánægð með útkomuna.“

Nú skemmtilegra að fara í brúðkaup hjá öðrum

Hvað lifir ennþá í minningunni frá brúðkaupsdeginum?

„Gleði, birta og hamingjukitl í maganum.

Að ganga inn í kirkju fulla af fólkinu sem manni þykir vænst um er ólýsanleg tilfinning. Það er fátt fallegra en að fagna ástinni. Það er svo mikil gleði og hamingja í loftinu, allir skælbrosandi og tilbúnir að eiga góða stund.

Við fórum í myndatöku fyrr um daginn með börnin en fórum svo í stutta myndatöku eftir athöfnina sem okkur fannst alveg frábært. Það var svo magnað að kúpla sig aðeins út úr aðstæðunum, bara við tvö og átta okkur á hvað væri að gerast. Þetta var eins og að setja á pásu í smá stund, horfast í augu, kyssast og skála. Vá, það var magnað. Íris Dögg Einarsdóttir, ljósmyndari og vinkona okkar, fékk að fylgjast með og náði yndislegum myndum af okkur á þessu augnabliki.

Samhent brúðhjón er ávísun á gott líf.
Samhent brúðhjón er ávísun á gott líf. Ljósmyndari/Íris Dögg Einarsdóttir

Svo var svo gaman að koma aftur í veisluna saman og sjá öll þessi brosandi andlit.“

Er mikill munur að fara í gegnum lífið í heilögu hjónabandi að þínu mati?

„Nei, í rauninni finnst mér það ekki mikill munur, brúðkaupið er falleg minning sem við getum endalaust rifjað upp og yljað okkur við. En lífið hefur lítið breyst. Það sem helst hefur breyst er að mér finnst ennþá skemmtilegra að fara í brúðkaup hjá öðrum eftir þessa lífsreynslu af því að núna veit ég hvernig tilfinning þetta er fyrir þá sem eru að gifta sig.“

Bæði andlega þenkjandi

Trúir þú á æðri mátt?

„Já, við hjónin erum bæði andlega þenkjandi og höfum unnið mikið í sjálfum okkur. Það var aldrei spurning í okkar huga um að gifta okkur í kirkju. Við vorum líka svo heppin að fá Grétar Halldór Gunnarsson prest til að gifta okkur, hann er alveg frábær prestur. Við fundum það strax á fundi með honum að hann væri rétti maðurinn til að gifta okkur, mjög nútímalegur prestur ef svo má að orði komast og við vorum öll á sömu bylgjulengd varðandi trúna.“

Skipar æðri máttur sess í lífi ykkar hjóna?

„Já, hann gerir það, við erum ekki beint kirkjurækið fólk en við ræktum trúna okkar á okkar eigin hátt og erum mjög samstiga í því.“

Áttu góð ráð til að lifa í hamingjusömu hjónabandi?

„Að rækta sambandið, eiga tíma saman og gera eitthvað skemmtilegt. Við finnum það fljótt ef það er búið að vera mikið að gera hjá okkur og við höfum hist lítið, þá byrjum við að missa taktinn. Þá er mikilvægt að staldra við, taka frá tíma bara fyrir okkur tvö. Stundum hittumst við ekki heilu dagana þegar Himmi er að sýna á kvöldin og ég að vinna á daginn en þá reynum við að ná hádegismat saman eða skellum okkur í sjósund í hádeginu.

Við pössum líka upp á að taka á hlutum um leið og þeir koma upp. Láta vita hvernig manni líður og ekki vænta þess að hinn aðilinn lesi hugsanir... Tala um hlutina. Svo hefur Himmi verið duglegur við það að draga mig út á stofugólf, setja góða tónlist á fóninn og svo dönsum við saman ef við höfum verið að takast á við erfiða hluti. Þá verður allt einhvern veginn betra.

Mér finnst líka mikilvægt að rifja upp fyrstu kynni okkar, við getum endalaust talað um þann tíma. Skemmtilegast er að gera það í Nauthólsvíkinni þar sem við kynntumst.“

Velta sér ekki upp úr vandamálunum

Eitthvað sem þú reynir að forðast?

„Við reynum að forðast það að velta okkur upp úr vandamálum án þess þó að hunsa þau. Halda í gleðina og muna að lífið er ekkert sérstaklega alvarlegt.

Einnig reynum við að halda svefnherberginu utan leiðinda, við reynum að taka ekki á stórum og erfiðum málum á koddanum.“

Hvaða ráð gefur þú þeim sem eru í brúðkaupshugleiðingum?

„Við þau sem eru í brúðkaupshugleiðingum vil ég segja, sláið til, gerið þetta! Aðalmálið er að taka ákvörðun, festa dagsetningu og svo gerast hlutirnir svolítið af sjálfu sér. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég hefði ekki getað trúað því hvað þessi dagur gaf af sér mikla gleði og gerir enn þann dag í dag.

Það skiptir máli að taka sér tíma saman eftir athöfn …
Það skiptir máli að taka sér tíma saman eftir athöfn að mati Kolbrúnar. Ljósmyndari/Íris Dögg Einarsdóttir

Það má líka nefna það að okkur fannst alveg yndislegt að taka frá dagana eftir brúðkaupið til að vera bara tvö saman og njóta þess að vera á bleika skýinu. Það er nefnilega alveg ótrúleg hvað manni líður vel dagana á eftir. Maður er ennþá á þessu bleika mjúka skýi og getur rifjað endalaust upp góðar minningar frá deginum. Það er mjög sniðugt að gefa sér næði og tíma í að njóta þessa í stað þess að hoppa beint í hversdagsamstrið.“

Eitthvað að lokum?

„Það er að sjálfsögðu mikilvægt að skipuleggja sig vel og þiggja alla hjálp sem í boði er, á þann hátt getur maður verið slakur á deginum sjálfum og notið sín í botn.

Það er líka ótrúlega mikilvægt að fá ljósmyndara til að vera í veislunni til að fanga öll þessi fallegu augnablik. Auk Írisar Daggar ljósmyndara fengum við vin okkar Elmar Þórarinsson til að taka upp athöfnina og veisluna og eigum því myndbandsupptöku af öllu saman. Það var algjörlega magnað að fá að sjá þetta alltsaman aftur á myndbandi og ótrúlega dýrmætt efni til að eiga um ókomna tíð.“

Skálað í kampavíni á brúðkaupsdaginn.
Skálað í kampavíni á brúðkaupsdaginn. Ljósmyndari/Íris Dögg Einarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál