Besti vinurinn til að sigra heiminn með

Guðný Sigurmundsdóttir var ung að aldri þegar hún áttaði sig …
Guðný Sigurmundsdóttir var ung að aldri þegar hún áttaði sig á því að hún vildi deila lífinu með Tryggva. Hún segir að góður maki lætur mann langa að vera betri útgáfa af sjálfum sér. mbl.is/Valgarður Gíslason

Guðný Sigurmundsdóttir textílhönnuður og Tryggvi Hjaltason senior strategist hjá CCP vekja athygli hvert sem þau koma með börnin sín þrjú. Þau eru ekki einungis ótrúlega falleg fjölskylda, heldur kærleiksríkt teymi sem gerir hlutina á sínum forsendum. 

Tryggvi er æskuástin hennar Guðnýjar. Þau byrjuðu saman þegar hún var 16 ára og fimm árum seinna þótti þeim tími kominn til að innsigla ástina með hjónabandi. Guðný man brúðkaupsdaginn 26. júlí árið 2008 eins og hann hefði verið í gær.

„Við Tryggvi giftum okkur í Landakirkju í Vestmannaeyjum á þessum fallega sumardegi. Ég er úr stórri fjölskyldu og það voru allir heima ásamt frændfólki og vinum hlaupandi um húsið eins og brjálæðingar. Þetta var eins og atriðið í Home Alone þegar þau vöknuðu of seint í flugið. Nema ég var eins og Kevin sem ráfaði bara um húsið, svo slök og tilbúin í þetta. Eða þannig man ég þetta. Það sem stendur svo uppúr var athöfnin. Þarna var ég að labba inn kirkjugólfið og var að fara að giftast besta vini mínum. Eitt það sem mér þykir einnig vænt um er þegar við ætluðum að skiptast á brúðkaupsheitum þá var Tryggvi gjörsamlega orðlaus sem mér þykir mjög vænt um því Tryggvi er yfirleitt með alveg á hreinu hvað þarf að segja. Þetta var allt svo rétt og þægilegt. Einnig situr eftir dansinn sem við tókum í lokin á veislunni sem við Tryggvi smíðuðum rétt fyrir stóra daginn, sem vakti mikla lukku meðal brúðkaupsgesta.“

Ljósmynd/Úr einkasafni

Mögnuð veisla

Guðný rifjar upp hvernig þau hafi fengið 160 manns í brúðkaupið. ,,Þetta var mögnuð veisla. Við eigum svo stóra fjölskyldu uppi á landi og það vildu allir koma og fagna með okkur. Bróðir minn var veislustjóri ásamt besta vini hans Tryggva og stóðu þeir sig vel og héldu uppi stuðinu. Þetta var því stórt og skemmtilegt brúðkaup.“

Hvað áhrif hafði brúðkaup á sambandið ykkar Tryggva?

„Það var mikilvægt skref að ganga í hjónaband. Við tókum þessu mjög alvarlega. Enda vorum við ekki bara að gifta okkur til að gifta okkur. Fyrir okkur vorum við að verða ein eining frammi fyrir Guði og mönnum og hér eftir upplifði maður sig ekki sem einstaklingur heldur sem partur af þessari heilögu einingu. Við höfum bæði mjög sterkan trúarlegan grunn. Við fengum að mörgu leyti svipað uppeldi og eigum foreldra sem eru góðar fyrirmyndir fyrir okkur. Þau hafa verið okkar leiðarvísir í hjónabandinu.“

Guðný og Tryggvi á brúðkaupsdaginn.
Guðný og Tryggvi á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/úr einkasafni.

Passa að hafa gaman

Hvað er að þínu mati gott hjónaband?

,,Að vera í hjónabandi er fyrst og síðast fyrir mér að vera trúr annarri manneskju og setja sig ekki alltaf í fyrsta sætið. Ég tel mikilvægt að halda í vináttuna og að virðing sé til staðar. Við Tryggvi tölum mikið saman um hlutina og ef eitthvað er að angra okkur þá höldum við því ekki inni. Það verður líka að passa að gefa sér tíma fyrir hvort annað og hafa gaman.“

Hvað ætti maður þá ekki að gera?

„Það eru sumir hlutir sem skipta máli að mínu mati, eins og að tala aldrei illa um maka sinn við aðra. Það er mikilvægt að gleyma ekki samkenndinni, setja sig í spor makans og passa það að hann sem einstaklingur fái líka að blómstra með þínum stuðning.“

Ljósmynd/Úr einkasafni

Börn mikil blessun

Guðný og Tryggvi eiga þrjú börn, Bjart, Evu Eldey og Árna Storm. Guðný segir þau ákaflega þakklát fyrir þennan fallega og góða barnahóp og í raun hafi þetta verið ótrúlega auðvelt og skemmtilegt hingað til. „Af því við gerum allt svo saman og jafnt. Við erum svo samrýmd í grunninn og lífskoðanir okkar svo svipaðar að þegar kemur að barnauppeldi, trúmálum og fleira þá erum við samstiga að fullu þar líka. Hins vegar er ég á því að við Tryggvi séum frekar ólíkar persónur í eðli okkar, en grunngildin okkar eru þau sömu.“

Hvernig vissi Guðný að Tryggvi væri sá eini rétti?

„Við byrjuðum saman þegar ég var 16 ára og hann var 17 ára. Hann var fyrsti kærasti minn og ég var stelpan í næsta húsi. Það voru 250 m á milli húsanna okkar. Í fyrstu hreifst ég af því hvað Tryggvi var öðruvísi. Þegar við byrjuðum saman var hann í dauðarokks-hljómsveit og ég var góða stelpan sem var í tónlistarskólanum. Ég og Tryggvi vorum alltaf að gera einhverja skemmtilega og furðulega hluti saman. Hvort sem það var að stökkva út úr bílum á ferð ofan í höfnina, semja pönklög saman í kjallaraherberginu hans, byggja þriggja metra háa snjókarla um miðjar nætur á gatnamótum eða ræna bílum fyrir utan bæjarsjoppuna. Það hefur verið ótrúlega gaman hjá okkur Tryggva frá því í byrjun og við höldum í það sem veganesti fyrir okkur inn í framtíðina. Að hafa gaman saman og eiga skemmtileg sameiginleg áhugamál er mikilvægt.“

Guðný og Tryggvi eiga þrjú börn, Bjart, Evu Eldey og …
Guðný og Tryggvi eiga þrjú börn, Bjart, Evu Eldey og Árna Storm. Guðný segir þau ákaflega þakklát fyrir þennan fallega og góða barnahóp. mbl.is/Valgarður Gíslason

Fjarlægðin kenndi þeim hversu vel þau pössuðu saman

Það var svo þegar þau fluttu til Bandaríkjanna, þar sem þau þurftu að reiða sig hvort á annað og gera allt sjálf sem þeim fannst það staðfest hversu vel þau pössuðu saman. „Við gerðum allt saman og vorum þetta teymi sem við erum í dag. Ég sá að lífið með Tryggva mér við hlið yrði algjört ævintýri og það hefur svo sannarlega verið þannig.“

Hvernig sér Guðný framtíðina fyrir sér?

„Framtíðin er björt og fjörug. Ég hef tileinkað mér það að lifa algjörlega í núinu, líka þar sem við eigum þrjú lítil börn og ég finn hvað tíminn flýgur áfram. Ég passa mig á því að staldra við og þakka fyrir það sem ég á og hef. Ég lít á hvern dag sem ævintýri fyrir sig og hlakka til að fylla heilu blaðsíðurnar af minningum og skemmtilegheitum í bókinni okkar Tryggva. Það verður gaman að sjá hvað lífið færir manni á morgun, kannski ís, kannski blautan löðrung. Hver veit?“

Falleg fjölskylda er eitt af því dýrmætasta í þessu lífi.
Falleg fjölskylda er eitt af því dýrmætasta í þessu lífi. mbl.is/Valgarður Gíslason

Eins og Labrador að koma úr baði

Eitthvað að lokum?

„Ég mæli með hjónabandi. Ef það hefur sterkan grunn þá mun það hrista af sér hindranir og lægðirnar eins og Labrador að koma úr baði. Það er mikilvægt að hafa gaman og húmar fyrir sjálfum sér og lífinu. Það að deila lífinu með manneskju sem lætur mann langa að verða betri útgáfan af sjálfum sér og bætir upp þína galla og er til staðar fyrir þig á erfiðum stundum er ómetanlegt. Að giftast var eins og fá skráð í bókhald ríkisins eitt stykki allra besta vin til að sigra heiminn með.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál