Málar í hættulegasta hverfi Hollywood

Hjónin María Birta og Elli Egilsson.
Hjónin María Birta og Elli Egilsson.

Listamaðurinn Elli Egilsson hefur síðustu fimm ár unnið að sýningu sinni sem opnar í Norr11 í dag. Hann býr í Los Angeles þar sem hann málar myndir í einu hættulegasta hverfi stórborgarinnar. 

„Fyrst og fremst þá er þetta fyrsta einkasýningin mín á Íslandi. Ég hef verið að skoða í kringum mig og leita að rétta plássinu og rétta tímanum í ágætis tíma og það er ekki fyrr en fyrir um það bil 3 vikum síðan að þessi sýning fór í gang. Sýningin samanstendur af stórum landslags olíumálverkum sem ég hef verið að mála í stúdíóinu mínu í Los Angeles og Bolungarvík síðustu 2 árin. Mér finnst verkin passa svo fullkomlega inn í Norr11 þar sem verkin verða umkringd þessum fallegu húsgögnum og munum,“ segir hann. 

Elli á vinnustofu sinni í Los Angeles.
Elli á vinnustofu sinni í Los Angeles.
Elli málar á hverjum degi og tekur myndlistina mjög alvarlega.
Elli málar á hverjum degi og tekur myndlistina mjög alvarlega.

Hvaða efnivið ertu að nota?

„Olíu á striga. Ég byrjaði eins og flestir í akrýl málningu og vatnslitum en um leið og ég stakk mér í olíuna þá var ekki við snúið. Ég strekki mína eigin striga og smíða jafnvel stundum mína eigin blindramma, ég lærði margt af afa mínum Bjarna Guðjónssyni sem var einn af þessum köllum sem maður leit upp til og hugsaði bara vá hann getur allt. Ég fékk þetta drif og þennan kraft frá honum. 

Síðustu fimm ár hefur Elli verið að vinna að sýningunni. 

„Þessi pæling myndaðist fyrir sirka 5 árum síðan en ég hef verið að þróa þennan stíl minn áfram. Ég málaði fyrsta fjallið veturinn 2013 inni í stofu heima hjá okkur Maríu Birtu þegar við vorum nýbyrjuð að hittast. Upprunalega pælingin við að búa til þessi fjöll var einfaldlega söknuður eftir landslags útsýninu í heimalandinu en ég hafði verið mikið í London og mér fannst alltaf vanta nálægðina í náttúruna.“ 

Hvað er það sem drífur þig áfram? 

„Ég er alveg svakalega drifinn í því að maður getur alltaf gert betur þannig ég skapa og mála hvern einasta dag. Þetta er það sem ég vil skilja eftir mig eftir minn dag, nákvæm og vandvirk málverk tileinkuð móðurlandinu mínu. Ég hef alltaf málað þessi fjöll og fjallagarða eftir minni, aldrei eftir ljósmyndum eða neinu slíkt, frekar eftir því hvernig ég sé fyrir mér íslenska náttúru. Það tekur að sjálfsögðu miklu meiri tíma að skapa þín eigin fjöll í staðinn fyrir að mála eftir myndefni og það þykir mér svo magnað! Ég ferðast mikið upp á hálendi og stari á fjöllin og tek ljósmyndir í kollinn á mér í staðinn fyrir að festa það á filmu eða símann. Sumt fólk sem kíkir við upp á vinnustofu til mín bendir kannski á eitthvað málverk eftir mig og segjast þekkja þetta fjall eða hafa labbað upp á það. Ég brosi bara og hlæ. Það getur vel verið að einhversstaðar aftast í kollinum mínum séu gamlar minningar um einhver sérstök fjöll að myndast á strigann hjá mér án þess að ég geri mér fulla grein fyrir því, einhverskonar undirmeðvitund að koma fram eftir langan tíma. Það getur vel verið, heilinn er svo magnaður,“ segir hann. 

Ástin sigrar allt.
Ástin sigrar allt.

Hvernig er venjulegur dagur í lífi þínu?

„Ætli það fer ekki eftir því hvar ég er staddur í heiminum,“ segir hann og hlær:

„Í Los Angeles þá byrja ég oftast daginn á að færa konunni minni heitt kaffi og einhvern meiriháttar morgunmat í rúmið. Ég hef haldið þeirri hefð alveg frá því við byrjuðum að hittast. Henni finnst það alltaf jafn æðislegt og mér líka. Þannig byrjum við daginn saman því oftast er ég fastur inni á vinnustofu að mála allan daginn og sinna annarri vinnu fyrir framan fartölvuna fram að kvöld. Svo syndi ég minn kílómeter áður en ég fer upp á vinnustofu. Ég er með vinnustofu í Crenshaw hverfinu í LA og hjóla oftast þangað. Það tekur ekki nema einhverjar 20 mínútur frá þar sem við búum í Hollywood. Svo kem ég heim og dippa mér í sundlaugina okkar úti í garði, elda góðan vegan mat handa okkur Maríu og fæ mér vindil seinna um kvöldið. Ég verðlauna mér daginn með því. Líf myndlistarmanns er mun einfaldara en fólki grunar, maður málar mikið og maður pælir mikið, þetta er ekki mikið flóknara en það. “ 

Veitir hitinn í Hollywood mikinn innblástur?

„Ég get allavega sagt að ég þurfti að skipta yfir í olíu frá akrýl því verkin mín þorna allt of hratt í hitanum. Ég er lengi með hvert verk og þá er betra að málingin sé blaut. Sýningin heitir Ólíkir heimar því ég máli í hrjóstrugu umhverfi í Crenshaw sem er mjög hættulegt hverfi og mikil fátækt. Ég þarf að einbeita mér töluvert þegar ég mála ískalt íslenskt landslag. Ég myndi kalla það einhverskonar innblástur.“

Hvers saknar þú frá Íslandi þegar þið eruð í Kaliforníu?

„Ég sakna landslagsins en við erum svo dugleg að heimsækja Ísland að maður fær aldrei einhvern djúpann söknuð þannig séð. Ísland er alltaf jafn meiriháttar og það segir sig sjálft í verkunum mínum hversu mikið ég elska þetta land og náttúruna okkar.“

Elli segir að það sé ekki hægt að finna ólíkari borgir en Los Angeles og Reykjavík, 

„Það er lítið sem þessa tvær borgir eiga sameiginlegt og það er bara hið besta mál. Mér finnst allir ættu að breyta aðeins til einhvern tímann á lífsleiðinni, skipta um umhverfi í smá tíma! Það er hollt fyrir sálina, kynnast smá harki og alvöru breytingum. Fólkið, náttúran, hefðir, veðrið, lífstíllinn. Þetta gæti ekki verið mikið ólíkari því umhverfi sem Íslendingar eru vanir en aftur á móti tekur maður eftir viðbrögðunum sem Kaninn sýnir og segir frá þegar þeir heimsækja Ísland. Við sem Íslendingar getum verið stolt af okkar landi. Ég er það allavega og mun ávallt sýna mína virðingu gagnvart okkar fallegu náttúru og umhverfi með því að mála það eftir minni og ást,“ segir hann auðmjúkur og mjög spenntur. Það er ekki annað hægt því sýningin opnar á eftir eða kl. 17.00

Elli málar fjöll eftir minni.
Elli málar fjöll eftir minni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál