Aldrei gleyma að þetta er ykkar dagur

Auður Ýr og Gunnar Stefánsson.
Auður Ýr og Gunnar Stefánsson.

Auður Ýr Guðjónsdóttir gekk að eiga Gunnar Stefánsson í ágúst 2016. Auður Ýr er 29 ára gömul þriggja barna móðir sem er uppalin í Kópavogi. Hjónin kynntust á stefnumóta-síðu sem tilheyrir Facebook. 

„Ég reyndi í nokkur skipti að beila á honum en hann þrjóskaðist við og að lokum gaf ég eftir og hann kom í heimsókn til mín. Ég átti 2 stelpur úr fyrra hjónabandi sem hann hefur tekið eins og sínum eigin frá degi eitt. Fyrir um ári síðan eignuðumst við son saman,“ segir Auður Ýr.

Hún segir að Gunnar þekki hana eins og lófann á sér. Árið 2014 bað hann hennar.  

„Hann bað mín í English PUB niður í bæ og það voru allir vinir okkar með okkur. Hann fékk mig upp á svið og þar var einhver gæi að spila á sexafón og hann lét hann spila og kalla á mig. Þetta var svona týpískt bíómynda atriði, enda elska ég athygli,“ segir hún og hlær. 

Ári eftir bónorð byrjaði parið að skipuleggja brúðkaupið en þau voru bæði með ákveðnar hugmyndir. 

„Gunnar kemur frá Hofsósi, úr sveitinni eins og ég kalla þetta, og við vildum hafa þetta í svolítið sveitó stíl. Við vorum með rustic-þema í brúðkaupinu en veislan var haldin í Fáksheimilinu í Víðidal. Við leigðum einnig partítjald sem var fyrir utan salinn. Í partítjaldinu var fordrykkurinn og snitturnar á meðan gestirnir biðu eftir okkur. Það að hafa þetta partítjald gerði stemninguna mjög góða,“ segir hún. 

Auður Ýr og Gunnar eiga bæði mjög stórar fjölskyldur og þéttan vinahóp. Þau buðu 196 gestum í brúðkaupið en það mættu alls 182. 

„Við ætlum bara að gifta okkur einu sinni og vildum gera þetta almennilega. Sjálf athöfnin var í Háteigskirkju og var það Jóna Hrönn Bolladóttir sem gifti okkur. Athöfnin var mjög skemmtileg,“ segir hún og bætir við: 

„Besta vinkona mín, Sonja Maggý, og Kristján Gíslason mágur Gunna sungu Endless love þegar ég gekk inn kirkjugólfið og svo söng Sonja líka lagið Með þér. Þar á eftir kom Björgvin Halldórsson og sögn lögin Ég er komin heim og Ég lifi í draumi. Athöfnin var 100% að okkar mati.“

Auður Ýr og Gunnar voru með ljósmyndara allan daginn. Ekki bara í veislunni og athöfninni. Hún segist mæla hiklaust með því vegna þess að það sé svo gaman að eiga myndir frá öllum sjónvarhornum. 

Veitingarnar í brúðkaupinu voru ekki af verri endanum. 

„Við vorum með snittur í forrétt sem fólk fékk á meðan við vorum að klára myndatökuna og svo vorum við með steikarhlaðborð frá veislugardur.is. Við vorum með bollakökur með Daim og karamellu frá 17 sortum. Hún sló algerlega í gegn og maturinn líka. Við vorum með léttvín og bjór og gos, en ekkert sterkt,“ segir hún. 

Parið keypti allt skraut á Aliexpress og segir Auður Ýr að það hafi munað mjög miklu í verði. Skraut eitt og sér gleður augað en það býr þó ekki til stemningu. Til þess að hafa ennþá skemmtilegra í veislunni fengu þau tvo trúbadora til að halda uppi stuðinu fram á nótt.

„Það var sveitaballastemning og dansað fram á rauða nótt.“

Aðspurð um kjólinn segist hún hafa keypt hann á netinu, á síðunni JJS House. Á síðunni er ekki bara gott úrval af brúðarkjólum heldur kjólar fyrir mæður brúðarinnar, brúðarmeyjar- og sveina ásamt skarti fyrir stóra daginn. 

„Kjóllinn sem ég pantaði var fullkominn. Hann kostaði um 40 þúsund krónur og þurfti ég ekki að gera neitt nema láta laga ermarnar smávegis á saumastofu. Ég vildi hafa blúndur og ermar á kjólnum og opin í bakið og hann var bara nákvæmlega eins og ég vildi. Kallinn var hinsvegar í jakkafötum frá Herragerðinum sem kostuðu töluvert meira enda meira notagildi í þeim.“

Þegar Auður Ýr er spurð að því hvað stóð upp úr á stóra deginum segir hún að það hafi verið að Gunnar hefði sagt já. 

„En svo var það bara öll veislan. Það fór ekkert úrskeiðis og dagurinn var yndislegur frá A-Ö.“ 

Aðspurð um það hvers vegna það skipti máli að vera í hjónabandi segir hún að það sé vegna öryggi barnanna þeirra. „Svo er það líka staðfesting á ástinni. Þetta er svo falleg og dýrmæt stund og ég spyr mig oft af hverju ekki að gifta sig. Þetta er minning sem ég mun aldrei gleyma og mun lifa með mér alltaf.“

Auður Ýr og Gunnar fengu margt fallegt í brúðargjöf eins og Cartell lampa, Omaggio vasa, rauðvínsglös, matarstell, flugmiða fyrir tvo sem þau nýttu í brúðkaupsferð til Tenerife og peninga. 

„Við vorum með gjafalista í Casa og Líf og list og fengum allt sem var á listanum.“

Aðspurð um skipulagningu á brúðkaupinu segir Auður Ýr að það skipti mjög miklu máli að vera búin/n að panta kirkju, sal, prest, ljósmyndara og söngatriði í kirkjuna með árs fyrirvara. 

„Svo er nauðsynlegt að þiggja alla þá hjálp sem býðst og aldrei gleyma því að þetta er ykkar dagur og þið ráðið hvernig þið viljið hafa hann. Svo þarf bara að njóta stóra dagsins og gleyma aldrei að elska hvort annað.“

Hægt er að lesa nánar um brúðkaup þeirra á bloggsíðu hennar. 

mbl.is