„Ég lifi eins og sígauni“

Tom Dixon heillaðist af Íslandi í heimsókn sinni.
Tom Dixon heillaðist af Íslandi í heimsókn sinni.

Hönnuðurinn Tom Dixon heimsótti Ísland í síðustu viku og heillaðist upp úr skónum af orkunni sem ríkir hérlendis. Hann mætti hingað til lands með sýningu á verkum sínum en á sýningunni var einnig hægt að sjá nýjar afurðir hönnuðarins. Íslendingar þekkja vel hönnun Dixon en hann hannaði til dæmis bronskúluna sem hangir í betri stofum bæjarins. 

Saga Dixons er merkileg. Hann er sjálfmenntaður iðnhönnuður sem fór óvenjulega leið í átt að frægð og frama. Hann er fæddur 1959 og þegar hann var 13 ára lærði hann leirmótun og skissugerð sem gerði það að verkum að áhugi hans á efnum og framleiðslu hófst. Þegar hann var 18 ára gamall byrjaði hann í listnámi en endist í sex mánuði. Hann segir að skólavistin hafi bundið hann niður og það kunni hann ekki að meta.

Þegar ég spyr hann hvort það hafi ekki lengt leiðina á toppinn að fara ekki í hönnunarskóla segir hann svo ekki vera. 

„Það að fara ekki í hönnunarskóla flýtti ferlinu og gerði það að verkum að ég gat prófað mig áfram. Það hentar sumum að fara í hönnunarskóla, en það hentaði bara ekki mér. Í dag geri ég töluvert af því að kenna í slíkum skólum og þá nota ég tímann og læt nemendurna prófa sig áfram. Fólk lærir mest af því að prófa sig áfram og gera mistök,“ segir hann. 

Hér má sjá Melt ljósið í gylltu.
Hér má sjá Melt ljósið í gylltu.

Dixon er nú á 90 daga ferðalagi um heiminn og þess vegna kom hann til Íslands. Þótt hann hafi stoppað stutt náði náttúran og fólkið að hreyfa við honum. Hann segir að sé magnað að upplifa áhugann hérlendis á hans hönnun. 

„Það þurfa allir hönnuðir að fá ferskt loft til að fá nýjar hugmyndir. Ísland er mjög góður staður til að fá góðar hugmyndir.“

Ég segi honum að bronsljósið hans sé á öðru hverju heimili á Íslandi og hann hlær. 

„Þess vegna var mikilvægt að búa þetta ljós til í svörtu,“ segir hann en í nýju línunni er komin kolsvört útgáfa af bronslitaða ljósinu og kemur það einnig í fleiri stærðum. Bronskúlan hans Dixons skapar góða stemningu og keyrir upp diskóið. Sama ljós er líka komið í bláan lit sem er frísklegur. Það er svo sem ekkert skrýtið að þessi ljós hafi orðið vinsæl því það er eitthvað svo mikið diskó í þeim. En það er líka diskó í Dixon sem var hér á árum áður í diskó hljómsveitinni Funkapolitan þar sem hann spilaði á bassa. Úr þessari hljómsveit fór hann yfir í næturklúbbabransann og rak nokkra klúbba. En svo tók lífið völdin og áður en hann vissi af var hann kominn með dellu fyrir að logsjóða sem hann lærði af vini sínum sem átti bílapartaverkstærði. Eftir að hann lærði að logsjóða fóru hlutirnir að gerast. 

„Það opnaðist alveg nýr heimur fyrir mér. Þetta var fljótleg og auðveld leið til að búa til hluti,“ segir hann en á þessu tímabili bjó hann til 100 stóla á einu ári. Húsgögnin hans vöktu fljótlega áhuga margra og Dixon eignaðist kúnnahóp sem gerði það að verkum að hann fór frá því að vera logsuðumaður yfir í handverksmann og að lokum hönnuður. Á níunda áratugnum stækkaði verkstæðið hratt og unnu 20 manns hjá honum sem sérhæfðu sig í málmsmíði og varð það nokkurskonar leikvöllur fyrir unga og upprennandi hönnuði eins og Micheal Young, Thomas Heatherwick og Michael Anastassiades. Það var svo árið 1988 að hann hannaði sitt fyrsta ljós, Spiral, sem átti eftir að kveikja ástríðu hans og áhuga fyrir ljósum. 

Melt ljósið hans Tom Dixon í speglaefni.
Melt ljósið hans Tom Dixon í speglaefni.

Árið 1998 var Dixon ráðinn sem listrænn stjórnandi Habitat, sem þá var í eigu IKEA, og því starfi gegndi hann til ársins 2008. Hann segist hafa lært óskaplega margt á því að vinna fyrir Habitat. Þar vann hann með upprennandi stjörnum í hönnunarheiminum eins og Bouroullec bræðrum, Achille Castiglioni og Verner Panton.

„Að vinna fyrir Habitat veitti mér mikla innsýn inn í hvað fólk vill og hvað það kaupir. Í raun er fólk mjög íhaldsamt. Ég lærði mikið um það hvernig fólk býr sér til heimili, um vöruframleiðslu, alþjóðlega smásölu og innkaup. Ég lærði að skilja þennan heimilisheim sem fæstir hönnuðir búa að,“ segir hann. 

Árið 2002 stofnaði Dixon fyrirtæki sitt, Tom Dixon. Þegar hann er spurður að því hver hafi verið skurðarpunkturinn og hvers vegna hann hafi stofnað fyrirtækið á þessu augnabliki segist hann hafi þurft eitthvað nýtt. 

„Ég var byrjaður að endurtaka mig og mig langaði að einbeita mér að hönnuninni.“

Lífsstíll fólks er að breytast. Fólk sækir í minna húsnæði og vill frekar njóta lífsins meira. Ég spyr Dixon hvort hann taki mið af þessu í sinni hönnun. 

„Ég hanna 50% fyrir heimili og 50% fyrir fyrirtæki eins og bari og veitingahús. Stundum hugsa ég um það hvernig lífi fólk lifi en við erum ekki það stórt fyrirtæki að það skipti máli. Við erum ekki að reyna að leysa framtíðarvandamál fólks þótt ég hafi vissulega áhuga á þeim. IKEA hugsar til dæmis mikið um þetta og þegar ég vinn með þeim þá er þessi hugsun í forgrunni, enda er það risastórt fyrirtæki. Í mínu fyrirtæki leyfi ég mér að búa til mínar eigin fantasíur með minni hönnun og mínum klikkaða heimi. Við leggjum meiri áherslu á að leyfa fólki að dreyma og hafa óvenjulega hluti inni á heimilinu. En auðvitað er ég meðvitaður um hvað er að gerast í heiminum,“ segir hann. 

Í fyrra starfaði Dixon með IKEA og bjó til mublu sem heitir DELAKTIG. Um er að ræða bekk sem hægt er að raða sama á mismunandi hátt og mun samstarfið halda áfram með aðeins öðruvísi áherslu.

Þessa mublu hannaði Tom Dixon í samvinnu við IKEA.
Þessa mublu hannaði Tom Dixon í samvinnu við IKEA.

Við snúum okkur að öðru. Herra Dixon hefur ekki farið varhluta að því að hönnun hans er kóperuð. Hægt er að kaupa hana á vefsíðum beint frá Kína fyrir slikk. Þegar ég spyr hann hvernig tilfinning það sé segist hann upplifa allan tilfinningaskalann. 

„Ég verð glaður, ég verð reiður, ég verð niðurdreginn og allt þar á milli. En þetta fær mig til að hugsa. Hvernig get ég gert betur þannig að þetta gerist síður,“ segir hann og játar að Melt ljósið sé hannað með það fyrir augum að það sé erfiðara að gera eftirlíkingu af því. Hann segir þó að það sé allt hægt og framleiðendur í Kína eigi pottþétt eftir að gera eftirlíkingu af því. Við ræðum um hvað hægt sé að gera til að sporna við eftirlíkingum og að fólki finnist það í lagi að kaupa feik eftir fræga hönnuði. Dixon segir að það sé mikilvægt að skapa umræðu um þessa hluti, fræða fólk sem fái það til að hugsa. Hann segir að fólk þurfi að vera meðvitað um að það sé að kaupa vöru sem tapar ekki endursöluverði sínu á meðan feik hönnun hefur í flestum tilfellum minni líftíma.

Hvað viltu segja við þá sem finnst í lagi að kaupa feik hönnun?

„Berið virðingu fyrir upprunalegri hönnun og ekki gleyma því að upprunaleg hönnun er fjárfesting sem hægt er að selja aftur."

Frá því Dixon kom fram á sjónvarsviðið hef ég fylgst með honum og fundist hönnun hans framúrskarandi á margan hátt. Ég verð því að fá að vita aðeins meira um hann þótt það sé hægt að tala endalaust um heimili og hönnun. Þegar ég spyr hann út í lífsstíl sinn fer hann að hlæja. 

„Ég lifi eins og sígauni. Ég ferðast mikið um heiminn og oft bý ég í ferðatösku. Heimili mitt er glundroðakennt á köflum. Þar er samansafn af allskonar hlutum sem er blandað saman á kaótískan hátt. Þetta er svona eins og með skósmiðinn sem gengur í ónýtum skóm. Heimili mitt er svolítið þannig,“ segir hann og hlær. 

Aðspurður hvort hann upplifi mikið stress í dagsins önn vill hann ekki meina það. 

„Ég lifi algeru forréttindalífi. Ég starfa við mitt stærsta áhugamál, ferðast um heiminn, gisti á lúxushótelum og tala endalaust um sjálfan mig. Fólk sem lifir mjög stressuðu lífi borgar fólki til að hlusta á sig og það geri ég auðvitað,“ segir hann og hlær. 

Hvað gerir þig hamingjusaman?

„Það eru ný ævintýri. Að vera hér á Íslandi gerir mig til dæmis mjög hamingjusaman. Ég er búinn að sjá mikið af ólíkum hlutum hér og hef fengið tækifæri til að skoða annað landslag en ég er vanur. Það færir mér mikinn innblástur og gerir líf mitt gott. Mér finnst leiðinlegt þegar ég spurður um uppáhaldshluti því ég vil alltaf prófa eitthvað nýtt, upplifa eitthvað nýtt og fá innblástur. Að koma til Íslands er mikil upplifun. Hér er ný lykt, nýtt bragð og nýtt landslag,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál