„Svo er maður sjálfur auðvitað í þessari bullneyslu“

Jón Gnarr segir að þeir vinni alltaf í leik lífsins …
Jón Gnarr segir að þeir vinni alltaf í leik lífsins sem skemmta sér best. Að húmor auki gæði lífsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á morgun verður forsýning á heimildarmyndinni Ok í Bíó Paradís, þar sem Jón Gnarr talar fyrir hönd fjallsins sem stendur í Borgarfirði og var eitt sinn jökull. Jón Gnarr segir að hægt sé að blanda húmor inn í flest málefni. Ef húmor getur komið loftslagsmálum á kortið leggur hann því lið. Það eru nokkur sæti laus á forsýninguna á morgun.

„Eftir að ég hætti að starfa sem borgarstjóri var ég í sambandi við Dominic Boyer og Cymene Howe, sem eru prófessorar í mannfræði við Rice-háskólann í Texas. Boyer hafði mikinn áhuga á Besta flokknum og því upphlaupi öllu saman. Ég dvaldi um tíma í Rice-háskólanum. Ég var í eina önn að fræðast um loftslagsbreytingar, að skoða þær hættur sem að okkur mannfólkinu steðja. Þó var ég aðallega að taka þátt í hugmyndavinnu um það hvernig hægt er að setja fram efni um loftslagsmál á skemmtilegan hátt,” segir Jón Gnarr og útskýrir að það sé ekki beinlínis skemmtilegt að tala um veður endalaust. „Nei, veður er meira eitthvað sem við grípum í að tala um við fólk sem við ekki þekkjum.”

Í kjölfar þeirrar vinnu varð til verkefnið um fjallið Ok. „Fjallið Ok varð fyrir valinu vegna þess að ég rakst á grein sem fjallaði um sögu fjallsins. Þeir sem þekkja til í Borgarfirði vita að ofan á þessari dyngju úr grágrýti var samnefndur jökull sem nú er horfinn með öllu. Dyngjan sjálf myndaðist við hraungos á hlýskeiði síðla á ísöld. Þetta er fyrsti jökullinn í heiminum sem er tæknilega ekki jökull lengur.“ 

Jón segir að jöklasýningin í Perlunni hafi einnig haft áhrif á hann. „Ég fór á sýninguna með bandarískum jarðfræðiprófessor sem sagði að þetta væri magnaðasta sýning sem hún hefði farið á. Gagnvirk kort á sýningunni sýna að bráðnunar Vatnajökuls sé að vænta. Mér finnst svo galið að hugsa til þess að barnabörnin mínu munu ef til vill ekki geta séð Vatnajökul með eigin augum. Það er sláandi!“ 

Það er hægt að setja góðan húmor í allt

Hvernig gekk að koma húmor inn í heimildarmyndina? 

„Það gekk vel. En auðvitað er auðvelt að fyllast vanmætti þegar maður kemur sér vel inn í þessi mál. Það er ekki skemmtilegt að hugsa til þess að ein stærsta borgin í Indónesíu verður líklega óbyggileg út af loftslagsbreytingum og 10 milljónir manna verða á vergangi vegna þess ef ekki verður aðhafst.“

Jón Gnarr segir að heimildarmyndin sé gerð til að vekja fólk til umhugsunar, skapa umræðu og tengja fólk. „Ég veit ekki hvaða aðgerðir eru bestar í framhaldinu. Maður verður auðvitað að taka persónulega ábyrgð á sjálfum sér. Ég sem dæmi þarf að passa mig þegar kemur að þessu málefni, þetta eru miklar ógnir og ég verð bara þunglyndur ef ég hugsa of mikið út í þetta.“

Jón Gnarr bætir við að samkvæmt rannsóknum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er talið að árið 2050 verði 200 milljónir fólks á flótta vegna loftslagsmála ef ekkert verður gert í þessum málum. „Veður og vatn eru samt svo mögnuð fyrirbæri. Það sem við verðum að átta okkur á er undirliggjandi röð atvika sem eiga sér stað á svæðum þar sem loftslagsbreytingar eru eða vatnsskortur. Þar verður vanalega ófriður. Það eru sterk tengsl á milli stríðs og loftslagsáskorana. Sá sem ræður yfir vatninu ræður miklu.“

Jón Gnarr segir það hins vegar ótrúlega freistandi að hugsa bara um einn dag í einu, huga að börnum, eiginkonu, foreldrum og þeim sem þurfa á manni að halda reglulega og treysta því bara að einhver annar leysi þetta mál. „Svo er maður sjálfur auðvitað í þessari bullneyslu. Ég nota orku óspart, keyri bíl og flýg með flugvélum. Ég er með fjölnota poka í skottinu á bílnum. Rosa flottur á því búinn að safna þeim saman þar, gleymi þeim vanalega í bílnum og kaupi nýjan í búðinni. Síðan er ég í þeirri klemmu að ég þarf plastpokana fyrir ruslið. Svo þetta er ekki einfalt líf, þú skilur?“

Uppistand um loftslagsmál

Jón Gnarr segir að umræðan um loftslagsmál sé nær eingöngu á höndum vísindamanna og það sé misjafnlega skemmtilegt fólk í þeirra röðum. „Það kemur vanalega einhver loftslagsvísindamaður í sjónvarpsþátt og talar um málið sem fær svona misjafnlega mikla athygli. Inni á milli hafa verið gerð átök þar sem frægir leikarar eru fengnir til að að leggja sitt af mörkum,“ segir hann og nefnir dæmi um framlag Leonardo DiCaprio í heimildarmyndinni „Before the Flood“ og framlag Al Gore í heimildarmyndinni „An Inconvenient Truth“.

„Ég hef velt fyrir mér hvort ekki væri hægt að gera uppistand um loftslagsmál?“

Í alvöru, væri það hægt?

„Já, af hverju ekki? Það sem er náttúrulega fyndið við þetta er það sem við mannfólkið erum að gera af veikum mætti til að vinna vera minni umhverfissóðar. Sjáðu fyrir þér mig með skottið fullt af fjölnota pokum. Móralinn og innri átökin sem fylgja því að vera svona sóði. Eins ef þú veltir fyrir þér veðrinu. Nú sérðu hvernig þróun veðursins er um allan heim. Vísindafólk spáir hlýnun jarðar en við búum á þessum stað þar sem við megum búast við meira roki og rigningu. Jú, jú, hlýrri vetrum en kaldara á sumrin. Hvernig ætlum við að sporna gegn því? Eða verður 66 gráður norður með nýjan þurrgalla á okkur í framtíðinni sem verður einkennismerki okkar Íslendinga þegar kemur að tískunni? Hver veit? Ef húmor getur komið skilaboðunum á rétta staði og vakið fólk til vitundar er ég til í að koma að því.“

Bara vanmáttugur rauðhærður karl á Íslandi

Nú hefur þú starfað sem kennari við háskóla á erlendri grundu og tekið að þér að vera borgarstjóri um tíma. Ert í gríni og loftslagsmálum núna. Ertu búinn að finna tilganginn í  lífinu?

„Já, ekki spurning. Það er að vera grínisti. Mér þykir það skemmtilegast. Enda er ég langbest geymdur þar ef þú skoðar öll verkefni mín til þessa. Mér rennur blóðið til skyldunnar að leggja mitt af mörkum í málefnum loftslagsbreytinga og það er mér ljúft og skylt. Hins vegar geri ég mér fulla grein fyrir því að ég er vanmáttugur í þessu verkefni. Ég er bara rauðhærður karl á Íslandi sem er kannski ekki að fara af stað með neina byltingu úti í hinum stóra heimi. En ég reyni að vanda mig og vera fyrirmynd eftir bestu getu,“ segir hann og brosir.

Geturðu nefnt mér dæmi um verkefni sem sýndu þér tilganginn þinn?

„Já, mig langar að nefna Tvíhöfða annars vegar og Fóstbræður hins vegar. Í Tvíhöfða var ég alla virka morgna að sprella og leika mér. Í báðum verkefnum hugsaði ég með mér: Ég hlýt að vera heppnasti og hamingjusamasti maðurinn í heimi að fá að starfa við það sem ég geri. Tvíhöfði skipti miklu máli fyrir daglegt líf fólks í misjafnlega skemmtilegum störfum. Ef þú stilltir á Tvíhöfða gastu gleymt þér um stund, hlaðið á orkuna og hlegið með okkur. Fóstbræður komu fólki á óvart, sem var einmitt svo skemmtilegt. Já, að rifja þetta svona upp gefur mér innsýn í sannleika minn, það gefur lífinu gildi að fá að gera eitthvað fyrir aðra sem gleður. Alveg eins og það hlýtur að vera besta starf í heimi að starfa sem þjónn ef maður er með mikla þjónustulund. Það gefur manni þessa fyllingu í hjartað, manni hlýnar að innan.“

Engin vinna er leiðinleg en fólkið misopið fyrir húmor

Hvað með leiðinleg störf? Hvað kenndu þau þér?

„Tja, ég var borgarstjóri í Reykjavík í mörg ár, það voru nokkrar áskoranir fólgnar í því starfi sem ég hafði ekki alveg búist við,“ segir Jón Gnarr og hlær. „Ég tek fulla ábyrgð á því að ég hugsaði þetta starf ekki alveg til enda. Hvernig væri að starfa sem pólitíkus. Ég er ekki einu sinni viss um að ég hafi verið að átta mig á því hvað ég var að fara út í. Eins man ég eftir að hafa gert mér upp verki og hafa fengið eitthvað ósýnilegt í augað í slæmum störfum sem unglingur. Það var sjaldnast vinnan sjálf sem olli skyndilegum verkjum eða augnvandamálum, heldur frekar fólkið sem fylgdi vinnunni. Það eru ekki allir opnir á húmor og gleði. Ég held að vinnan göfgi manninn. Svo er bara að finna hvaða svið manni langar að starfa á.“

Hvað með húmorinn? Hvaðan kemur góður húmor og styðjast grínistar við ákveðnar formúlur þegar þeir vinna að efni sem fær fólk til að hlæja og skemmta sér?

„Ég held að grunnurinn að góðum húmor hafi með greind að gera. Við skiljum ekki umfang eigin greindar og sjáum einungis hluta af okkar eigin greind. Skopskyn er hluti af greind og er þróun á heilastarfsemi að mínu mati. Við erum eina dýrategundin sem hefur náð þessu, það er ekkert annað dýr sem hefur skopskyn, að öpum undanskildum. Svo eru sumir sem neita sér um húmor. Það er svona svipað og að búa í risastóru húsi, þar sem verður mjög heitt á sumrin. Inni í húsinu er fullkomnasta loftkælingin sem völ er á. En maður ætlar ekki að nota hana, frekar þjást, dæsa og svitna,“ segir hann og bætir við: Góður húmor eykur skilning og gefur okkur kraft og lífsgleði. Það að hlæja heilar okkur mannfólkið. Það eru magnaðir töfrar sem fylgja góðum húmor.“

Lélegur húmor byggir stundum á úreltri hugsun

Hvað með þá sem búa yfir engum eða þá lélegum húmor? Fólk sem einungis hlær að óförum annara? 

„Við erum alin upp í menningu sem er ekkert sérstaklega velviljuð gríni. Í raun ef þú skoðar það þá erum við innrætt neikvætt gagnvart húmor og gleði. Mjög ríkur hluti af okkar menningu hér á árum áður var að karlar hlæja ekki eða ræða tilfinningar sínar. Þeir áttu að vera sterkir, alvörugefnir og fókuseraðir. Ef einhver hló þá var hann kellingalegur. Eins og flissandi smástelpa, sem er fáránlegt ef við skoðum samspil greindar og húmors. Nei, nei, hér á árum áður þótti heimskulegt að hlæja, að glaðir menn væri einfaldir menn og þar fram eftir götunum. Ef þú hittir einhvern með lélegan húmor að þínu mati verður þú að gefa honum það hvaðan hann kemur. Hann er kannski bara að stíga út úr skelinni.“

Jón Gnarr bætir við að þeir sem stjórni löndum og einræðisherrar séu einmitt ekki að ala á húmor heldur ótta. „Þessir menn og konur koma sjálfum sér til valda með því að brynja sig fyrir gríni, þeir taka sjálfa sig hátíðlega og benda á allt sem er hættulegt í þessum heimi. Húmor er oft pest fyrir fólk sem vill mikil völd. Við eigum fjársjóði í eigin skopskyni, kímnigáfa gerir okkur svo mannleg, opin og falleg.“

Jón Gnarr segist stoltur af ungum mönnum í dag sem eru farnir að stíga út úr þessum gamla karlakassa sem um þá hafði myndast og inn í það að ræða tilfinningar. „Ungir menn ræða tilfinningar og líðan sína án þess að það sé þrúgandi. Þetta er andstæða þess þegar ég var að alast upp. Auðvitað mun þessi bylting taka einhvern tíma en hún er hafin og því ber að fagna. Það margborgar sig að vera heiðarlegur í þessu lífi og segja satt og rétt frá. Þá er maður líka svo opinn fyrir spaugi í lífinu. Auðvitað passar ekki alltaf að tala um það sem er satt, slíkt getur valdið meiri skaða en gleði. Svo maður þarf að feta þennan gullna meðalveg í þessu sem öðru.“ 

Sá sem skemmtir sér best vinnur alltaf í leik lífsins

Hvað stendur upp úr á síðustu árum hjá þér?

„Ja, bara þetta hversu lífið er mikill leikur. Ef það er eitthvað þá er það leikur. Eftir því sem maður eldist kemst maður betur og betur að því að maður skyldi njóta ferðalagsins. Þú sérð þetta alls staðar. Tökum sem dæmi fótboltaleik. Sumir kunna að halda að sigurvegarinn í leiknum sé alltaf sá sem skorar flest mörkin. En það er ekki svo og við vitum betur. Í lífinu er sá alltaf sigurvegarinn sem skemmti sér best. Sá sem fékk hvað mest út úr leiknum. Þetta veit allt gáfað, þroskað fólk og er í raun inntak í öllum heimspekikenningum og trúarbrögðum okkar tíma. Við erum sífellt að læra betur að njóta, vera og upplifa. Auðvitað er alltaf frábært ef við getum skorað flestu mörkin og skemmt okkur best. En ef þú ættir að velja á milli þess að hanga með markaskoraranum eða skemmtilega leikmanninum. Hvort myndirðu velja?“

Eitthvað að lokum?

„Já, mig langar að minnast á sýninguna „Ég var einu sinni nörd“ í Eldborgarsal Hörpu. Þetta er 20 ára afmælissýning og við höfum ekkert auglýst hana. Það eru en örfáir miðar á lausu og fyrir þá sem ekki vissu af sýningunni er það hér með komið fram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál