Eva Laufey segir frá fósturmissinum

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir.
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, matreiðslubókahöfundur og sjónvarpskona, missti fóstur á dögunum. Hún segir að fólk eigi ekki bara að deila gleðistundum á samfélagsmiðlum heldur líka þegar fólk gengur í gegnum erfiðleika. 

Eva Laufey greindi frá fósturmissinum á Facebook fyrir stundu. 

„Í byrjun júlí kom í ljós (mjög óvænt) að við Haddi ættum von á þriðja krílinu og samkvæmt fyrstu útgönguspám átti barnið að koma í heiminn þann 20. mars á þrítugsafmæli Hadda. Við tóku nokkrir hressir dagar með tilheyrandi óvæntum tilfinningum sem fljótt breyttist í mikla gleði og tilhlökkun. Stelpurnar væru heppnar að eignast annað systkini, það yrði stutt á milli og hellings fjör fram undan. Í síðustu viku í miðjum upptökum hjá mér fann ég að eitthvað væri ekki eins og það á að vera, óvenjulegir verkir og fljótlega fór að blæða. Slíkt hafði ekki gerst áður með stelpurnar og því tók mikil hræðsla við, en ég reyndi að láta lítið bera á þar sem ég var með þrjár myndavélar fyrir framan mig,“ segir Eva Laufey. 

Í framhaldinu kom í ljós að ekki var allt með felldu og var enginn hjartsláttur hjá 10 vikna fóstrinu. 

„Á því augnabliki leið mér eins og ég væri að kafna, reyndi eins og ég gat að halda aftur að tárunum en það tókst ekki. Læknirinn minn útskýrði fyrir mér að þetta væri afar algengt hjá konum og ráðlagði mér að tala um þetta, segja þetta upphátt við fólkið mitt, því rétt eins og hún sagði að ef enginn vissi hvað væri í gangi þá fengi maður ekki viðeigandi stuðning á þessum tímum. Fósturmissir er vissulega eitthvað sem ég hef heyrt oft áður, ég á vinkonur sem hafa lent í því að missa fóstur en ég hef verið það lánsöm í lífinu að eiga tvær góðar meðgöngur að baki og hugurinn hefur því aldrei og þá meina ég aldrei reikað að ég gæti misst fóstur.“

Hún segir að þau hjónin hafi verið búin að gera ráðstafanir og allt hafi verið á fullu í skipulagningu og þau hafi því upplifað mikla sorg þegar kom í ljós að hún væri búin að missa fóstur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál