„Stressið heldur mér í formi“

Anna Mjöll Ólafsdóttir mun syngja á sérstökum David Bowie-tónleikum.
Anna Mjöll Ólafsdóttir mun syngja á sérstökum David Bowie-tónleikum.

Anna Mjöll Ólafsdóttir söngkona er á leið til Íslands en hún er búsett í Kaliforníu, uppi í fjöllunum þar sem einu sinni voru villtir Zorro-vestrar teknir upp en á lóðinni stóð stúdíó Disney. 

„Ég er mjög heppin, það er mikið að gera hjá mér. Núna er ég að klára geisladisk og um leið og hann er tilbúinn byrja ég á næsta. Ég spila mikið í samkvæmum í Beverly Hills og nágrenni,“ segir Anna Mjöll, spurð um hvað sé að frétta af henni. 

Hún segir frá því að hún sé svo lánsöm að búa á mjög góðum stað núna. 

„Ég bý núna á stað þar sem eru hestar og hænur í kringum húsið og hundarnir hlaupa lausir og geta því heimsótt nágrannahundana og farið út að leika. Ég bý uppi í fjalli í Los Angeles á lóð þar sem Disney var með stúdíó en þar voru allra fyrstu svarthvítu vestrarnir teknir upp. Ég hef fundið Zorro-vestra á Youtube þar sem hann er hoppandi með skikkjuna flaksandi og atriðið var greinilega tekið í garðinum hjá mér,“ segir hún. 

Hér er hundurinn hennar Önnu Mjallar. Myndin er tekin heima …
Hér er hundurinn hennar Önnu Mjallar. Myndin er tekin heima hjá þeim í fjöllunum fyrir ofan Los Angeles.

Þótt Anna Mjöll sé mest í jazzi og slíkri tónlist getur hún náttúrulega sungið hvað sem er. Hún kemur til dæmis fram á David Bowie-tónleikum sem fram fara í Hörpu 7. október. 

„Forsprakki tónleikanna, Angelo Bundini, hafði samband við mig fyrir nokkrum mánuðum og spurði hvort ég væri til í að vera sérstakur gestur og syngja með þeim á tónleikunum. Ég sagði að sjálfsögðu já þar sem ég er mikill David Bowie-aðdáandi. Ásamt því að vera frábær listamaður var hann mjög góður gæi,“ segir Anna Mjöll. 

Anna Mjöll er ein af þessum manneskjum sem er alltaf leiftrandi. Þegar hún er spurð að því hvernig hún fari að því að verða ekki goslaus grínast hún með að stressið haldi henni í formi. 

„Það sem heldur mér aðallega í formi er bara gamla góða stressið. Það virkar alltaf ljómandi vel,“ segir hún og hlær. 

„Ég reyni að borða alltaf einhverja ávexti á hverjum degi og helst eitthvað graskennt. Það fer víst alltaf best með mann. Svo reyni ég að drekka eins mikið vatn og kemst yfir. Ég sakna alltaf íslenska fisksins. Hann er bestur.“

Einkalíf Önnu Mjallar er reglulega í fréttum en allt ætlaði um koll að keyra þegar hún giftist mjög öldruðum bílasala í Bandaríkjunum. Núna vill hún ekkert tala um það, ekki þannig séð. 

„Einkalífið er bara mjög rólegt í augnablikinu. Ætli það sé ekki bara lognið á undan storminum?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál