Kristín er syngjandi tannlæknir

Kristín Stefánsdóttir tannlæknir lætur gamlan draum rætast.
Kristín Stefánsdóttir tannlæknir lætur gamlan draum rætast.

Kristín Stefánsdóttir, söngkona og tannlæknir, ætlar að halda tónleika í Salnum í Kópavogi 19. október þar sem hún syngur bestu lög Burt Bacharach. Gestasöngvari er Hreimur Örn Heimisson og 17 manna stórhljómsveit svo þetta er stórt og metnaðarfullt verkefni hjá Kristínu.

„Ástríðan á söng hefur fylgt mér alla tíð, svo lengi sem ég man eftir mér. Ég var syngjandi sem barn og unglingur en ég var svo feimin að ég þorði ekki að koma fram opinberlega á þeim tíma. Ég söng þess í stað bara í einrúmi og það var algerlega óhugsandi að ég hefði komið fram á sviði. En með árunum jókst þörfin og fyrir rúmum tíu árum fór ég að þreifa fyrir mér. Ég tók flestöll námskeið sem voru í boði hérlendis og á endanum bar leitin mig til Danmerkur í skóla sem heitir  Complete Vocal Institute. Þar stundaði ég nám í samtals fjögur ár og þá er óhætt að segja að líf mitt hafi tekið aðra stefnu hvað sönginn varðar,” segir Kristín.

Hún tók einnig grunnnám í rytmiskum söng við Söngskóla Sigurðar Demenz og var í námi hjá tónlistarkonunum og söngkennurunum Þórhildi Örvarsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur og Margréti Eir.

Kristín fór á tónleika Burt Bacharach í Hörpunni fyrir nokkrum árum.

„Það var alveg magnað að sjá hann. Svo einlægur, hógvær og sannur í list sinni. Þegar hann söng og spilaði lagið Alfie flaug mér í hug hvað það væri nú gaman að halda tónleika með lögum hans. Hann er svo einstakur lagahöfundur og lögin hans eru svo mikill klassi. Við þekkjum öll lög á borð við What the world needs now og Say a little Prayer.  Á þessum tíma var þetta samt mjög fjarlægur draumur. Hann hélt þó áfram að blunda í mér og þegar ég söng svo lagið The Look of Love í brúðkaupi í Noregi í fyrrasumar ákvað ég að nú myndi ég loksins láta hann rætast.”

Tónleikarnir eru föstudaginn 19. október og hefjast þeir klukkan 19.30.
Tónleikarnir eru föstudaginn 19. október og hefjast þeir klukkan 19.30.

„Ég hafði samband við píanóleikarann minn Hlyn Þór Agnarsson og samþykkti hann að taka að sér útsetningar og hljómsveitarstjórn. Við urðum fljótlega sammála um að til þess að þessi lög fengju þá reisn sem þau ættu skilið þyrftum við að setja saman stórhljómsveit. Við fengum því til liðs við okkur úrvalslið tónlistarmanna; grunnband, bakraddir, strengi og blásara og Hreimur verður gestasöngvari. Við héldum þessa tónleika í vor við mjög góðar undirtektir og vorum við hvött til að halda aðra. Þetta eru stórglæsilegir tónleikar sem við viljum sem flestir fái að njóta.

Það sem rekur mig áfram er ástríða mín fyrir söng. Tónlistargyðjan er yndisleg en getur verið harður húsbóndi. Maður sleppur ekkert svo auðveldlega frá henni,” segir Kristín og brosir.  „Ég er bara svo uppfull af þakklæti að vera að sinna þessari ástríðu minni og hafa með mér þetta stórkostlega tónlistarfólk. Það er ekkert sem jafnast á við það. Tónlist er náttúrlega bara heilun og í starfi mínu sem tannlæknir stunda ég líka heilmikla heilun svo það er líklega það sem þessi störf eiga sameiginlegt,” segir hún.

„Ég á það einnig til að syngja yfir sjúklingunum og ég hef ekki fengið neinar kvartanir yfir því,” segir Kristín og hlær og bætir við: 

„Við hlökkum alveg óskaplega til þess að fá að flytja þessi fallegu lög aftur og lofum yndislegri kvöldstund,” segir hún enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál