Mireya sýnir í Los Angeles

Mireya Samper sýnir verkin sín í Los Angeles í lok …
Mireya Samper sýnir verkin sín í Los Angeles í lok mánaðarins. Hún er spennt að fara inn á nýtt markaðssvæði með verkið sem hún nefnir Vide et Plein. Ljósmynd/ Ómar Sverrisson.

Listakonan Mireya Samper er að setja upp sýninguna Vide et Plein í nýju galleríi  arkitektsins Gullu Jónsdóttur á La Peer-hótelinu í Los Angeles. Sýningin á verkum Mireyu verður dagana 26. október til 8. desember næstkomandi.

Gulla Jonsdottir Atelier-galleríið er staðsett á besta stað á þessu nýja hóteli sem Gulla hannaði og fylgdi eftir í byggingu í ein fimm ár.

Gulla segir sannan heiður að fá tækifæri til að kynna það sem henni finnst fallegt hverju sinni í galleríinu. Fjölmiðlar ytra hafa verið duglegir að fjalla um nýja galleríið hennar Gullu, meðal annars California Home+Design sem lofuðu arkitektinn og hæfileika hennar nýlega og Surface tímaritið sem var með góða umfjöllun um galleríið.

„Ég hef fylgst lengi með Mireyu og finnst listaverkin hennar eiga erindi við íbúa Los Angeles,“ segir Gulla.

Mireya segir að eftir að hafa lokið meistaragráðu í myndlist í Frakklandi árið 1993 hafi leið hennar legið lengra út í veröldina.

„Ég hef sýnt myndlist ýmist á einkasýningum eða samsýningum, haldið fyrirlestra og tekið þátt í sýningarstjórnun í yfir 20 löndum. Ég er með heimili og vinnustofu í Kópavogi en vinn jöfnum höndum þar og erlendis á þeim stöðum sem ég sýni sem oft og tíðum eru mitt annað heimili líka.“ 

Mireya segist sjá list alls staðar enda sé það vinnan hennar en einnig aðaláhugamálið. 

Spurð um sýninguna í Los Angeles segir hún að titill sýningarinnar Vide et Plein (tómt og fullt) sé innblásinn af heimspekingnum og ljóðskáldinu Francois Cheng og vísar til þeirra hugmynda er liggja meðal annars að baki verkanna sem endurspegla tómarúm í tengslum við ljós og vatn.

„Sýningin samanstendur af pappírsverkum, skúlptúrum, innsetningu og videoverki sem er upptaka af innsetningu sem var unnin í Japan 2017 með tónlist eftir japanska tónlistarmanninn Tomoo Nagai. 

Mér finnst þetta mjög spennadi í alla staði og frábært tækifæri, það er tilhlökkunar efni að sjá hvernig tekst til. Þetta er nýtt gallerí sem Gulla er að opna og mikil áræðni sem hún sýnir með því. Hún er mjög þekkt af eigin verkum þannig að það er virðingarvert að hafa svo mikinn áhuga á list annara. Að leggja sig fram við að koma verkum þeirra á framfæri.

Ég hlakka líka til að nálgast myndlistarheiminn þarna en ég þekki hann ekki af eigin raun.

Eins er ég spennt fyrir þvi að dóttir mín Asra Rán Björt sem er 22 ára gömul skrifaði ljóð á ensku sérstaklega út frá listaverkunum mínum á sýningunni sem verður lesið upp og birt á sýninguni. Asra hefur skrifað í mörg ár og er að læra alþjóðlegar bókmenntir með áherslu á japanskar bókmenntir. Þetta er í fyrsta skiptið sem við tengjum listsköpun okkar saman.“

Á fyrstu hæð La Peer-hótelsins í Los Angeles rekur Gulla …
Á fyrstu hæð La Peer-hótelsins í Los Angeles rekur Gulla Jónsdóttir arkitekt listagallerí þar sem hún mun sýna m.a. verk Mireya Samper í lok október. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál