50 ára og í besta formi lífsins

Ljósmynd/Friðrik Hreinsson

Hárgreiðslumeistarinn Böðvar Þór Eggertsson á Marmik gerir allt með stæl sem hann kemur nálægt. Hann er 50 ára í dag og af því tilefni ákvað hann að vera í besta formi lífs síns. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér því Böðvar hefur æft sex daga vikunnar síðustu átta mánuði. En núna hefur hann bætt við æfingum og æfir tvisvar á dag. 

„Að verða fimmtugur er æðislegt. Ég er eiginlega búinn að hlakka til síðan ég var 30 ára. Fyrir tíu árum, þegar ég varð fertugur, gaf ég það út að ég væri í besta formi lífs míns. En nú ákvað ég að toppa það. Ég er svo sannfærður um að það að verða 50 ára sé byrjunin á besta tíma lífs míns,“ segir hann. 

Þegar ég spyr hann út í undirbúninginn að besta formi lífsins segist hann borða 80% hollt og leyfi sér eitthvað smá þessi 20%. Fyrir átta mánuðum byrjaði hann að undirbúa sig markvisst og skráði sig í einkaþjálfun hjá Konráði Gíslasyni sem er þekktur fyrir að þjálfa fitness-drottningar og -kónga þessa lands. 

Ljósmynd/Friðrik Hreinsson

„Ég hef verið í þjálfun í World Class og rekur Konráð mig áfram að gera gott betra. Ég elska það.“

Geta allir komist í svona svakalegt form?

„Að sjálfsögðu og það eru engin aldurstakmörk þegar kemur að formi. Þetta snýst um að búa sér til markmið og stilla hausinn á rétta rás. Þá kemur „error“ þegar eitthvað sem þú mátt ekki er fyrir framan þig,“ segir Böðvar og hlær. 

Böðvar æfir núna tvisvar á dag og hann skiptir líkamanum þannig að hann tekur einn vöðvahóp í einu. 

„En núna er planið að keppa í fitness í Laugardalshöll á Iceland Open-mótinu sem fram fer 15. desember næstkomandi eða í miðri jólatörn. Ég vigta allan mat ofan í mig núna og tel mínar 3.000 hitaeiningar sem ég borða á hverjum degi. Núna er ég að æfa tvisvar sinnum á dag,“ segir hann. 

Er eitthvað sem þú borðar ekki?

„Nei, borða allt en bara í hófi almennt. Nema kannski núna. Ég borða pínulitla nammi-máltíð á laugardögum. Þá borða ég hammara og franskar eða pítsu eða allt sem mig langar í og fæ mér smá ís á eftir.“

Böðvar hefur ekki alltaf verið vöðvastæltur. Hann segir mér frá því að einu sinni hafi hann verið væskilslegur eða 62 kíló með skólatösku eins og hann orðar það. 

„Síðustu fimm ár er ég búinn að vera 80% á hreinu mataræði en síðustu átta vikur hef ég verið á mjög ströngu niðurskurðarmataræði og næstu sjö vikur verða einnig þannig.“

Böðvar er fjölskyldumaður og segir að fjölskyldan geri hann hamingjusaman en líka það að lifa heilsusamlegu lífi og hafa heilsu til að láta drauma rætast. Þegar ég spyr hann hvernig sé að eldast í starfinu segist hann elska vinnuna sína. 

„Að eldast í hárgreiðslunni er æðislegt. Ég hef alltaf haft gaman að þessari vinnu en ég hef unnið við fagið í 29 ár án þess að taka pásu. Ég upplifi mig ekki sem staðnaðan og finnst ég enn þá vera að vaxa í mínu fagi. Ég fylgist grannt með stóru nöfnunum í þessum tískuheimi og tel mig verða betri með hverju árinu. Ég er til dæmis orðinn sendiherra Balmain á Íslandi og fylgist því vel með öllu því nýjasta sem er að gerast í litum sem þeir eru að bjóða upp á í fyrsta skipti. Þannig að mér finnst ég vera rétt að byrja og hlakka til næstu 50 ára,“ segir afmælisbarnið. 

Hér er Böðvar Þór Eggertsson árið 2008 í partíi á …
Hér er Böðvar Þór Eggertsson árið 2008 í partíi á Café Oliver ásamt Írisi Björk og Laufeyju. Takið eftir hárlitnum, þetta er náttúrulegur grár en Böddi segist vera löngu hættur að lita á sér hárið. mbl.is/Haraldur Guðjónsson
Ljósmynd/Friðrik Hreinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál