Henny byrjaði með yfirmanni sínum 1973

Brúðhjón og foreldrar. Unnur Kristjánsdóttir, Gúndi, Henny, Hermann Ragnar og …
Brúðhjón og foreldrar. Unnur Kristjánsdóttir, Gúndi, Henny, Hermann Ragnar og Unnur Arngrímsdóttir.

Henny Hermannsdóttir varð goðsögn í íslensku þjóðlífi þegar hún var valin Miss Young International í Japan árið 1970. Þá var hún aðeins 18 ára gömul og í framhaldinu tók við mikið glæsilíf þar sem dans- og dægurmenning var í forgrunni. Í bókinni Henny Hermanns, Vertu stillt, segir frá því að ekki hafi allt verið gull sem glóði því undir niðri var raunveruleikinn oft og tíðum sár og napur. Margrét Blöndal er höfundur bókarinnar en hér fyrir neðan má lesa einn kafla úr bókinni eða þegar Henny kynntist Gúnda árið 1971: 

Gúndi kemur til sögunnar

Henny kynntist Guðmundi þegar hún fékk vinnu sem hlaðfreyja árið 1971. Hann var yfirmaður hennar og hún kunni strax vel við hann en það var fjarri því að hún yrði ástfangin af honum á fyrstu vakt.

Ég hef aldrei upplifað ást við fyrstu sýn. Það væri mjög ólíkt mér ef slíkt gerðist. En ég heillaðist af því hvað hann var vel gefinn, fróður og skemmtilegur og síðla árs 1973 var ég orðin mjög ástfangin.

Mér leist ekkert á þetta samband. Mér fannst hann allt of gamall fyrir hana og ég gat ekki séð þetta ganga. Ekki að það kæmi mér á óvart að hún færi ekki hefðbundnustu leiðina, en ég átti von á að hún myndi giftast útlendingi. Hún hafði séð miklu meira af heiminum og upplifað allt öðruvísi hluti en nokkur jafnaldri hennar hér heima, en ég verð að viðurkenna að þetta kom mér óvart.

             – Arngrímur Hermannsson, bróðir

Guðmundur sem var oftast kallaður Gúndi var 16 árum eldri en Henny, fæddur 1936. Hann var fráskilinn og átti eina dóttur. Henny tók eftir því að hann var vinmargur og vinsæll og það heillaði hana líka.

Þegar ljóst var í hvað stefndi flutti Henny til Gúnda á Laufásveg 60 þar sem hann bjó í íbúð í húsi föðursystur sinnar Guðbjargar Konráðsson. Hún var þá orðin ekkja og bjó í annarri íbúð í húsinu ásamt vinnukonunni Margréti Hjartardóttur frá Skagaströnd. Segja má að þau Guðbjörg og maður hennar, Geir Konráðsson kaupmaður, hafi verið eins konar fóstur­foreldrar Gúnda. Foreldrar hans, Unnur Kristjánsdóttir og Kristinn Guðmundsson, bjuggu ásamt börnum sínum í næsta húsi, Laufásvegi 58, en hjónunum á Laufásvegi 60 varð hins vegar ekki barna auðið. Guðbjörg tók miklu ástfóstri við þennan litla bróðurson sinn og ef til vill er fullmikið sagt að hún hafi rænt honum úr næsta húsi, en án þess að um það væri rætt var hann sífellt meira og meira hjá Guðbjörgu og Geir en sinni eigin fjölskyldu.

Ég heyrði báðar hliðar á þessu máli. Bæði frá Unni tengdamóður minni og Guðbjörgu og það var stirt á milli þeirra. Ég held að Gúndi hafi alltaf verið í klemmu með þetta og alltaf reynt að ýta þessu til hliðar.

Henny kunni vel við tengdafjölskylduna en tengdaföður sínum Kristni Guðmundssyni náði hún ekki að kynnast. Hann var nýlega látinn þegar þau Gúndi fóru að vera saman.

Arngrímur bróðir var ekki sá eini sem hafði efasemdir um þetta nýja ástarsamband. Gúndi átti ekki samleið með vinum Henny en hún lét það ekki á sig fá. Hún dreif hann í tjald­úti­legur og sumarbústaðaferðir og hann lagði sig allan fram um að taka þátt, hennar vegna. Og hún var alsæl með manninn sinn.

Brúðkaupið fór fram í Bústaðakirkju 6. júlí árið 1974. Veislan var haldin heima hjá Unni og Hermanni og varð hin glæsilegasta. Henny og Gúndi voru oft á næturvöktum saman og nýttu rólegar stundir til að skipuleggja brúðkaupið. Gúndi sagðist ætla að redda þessu og redda hinu, bæði mat og áfengi. Fínt, hugsaði Henny og velti því svo ekkert meira fyrir sér hvernig hann ætlaði að fara að. Ekki fyrr en dag einn að Gúndi sagði henni að þau þyrftu að fara á tveimur bílum í vinnuna um kvöldið. Hann átti amerískan kagga, Ford Firebird, og hafði keypt annan álíka handa pabba sínum. Henny fór á honum og þegar þau komu til Keflavíkur fór Gúndi yfir planið. Hann hafði fengið tvær konur sem hann þekkti til að kaupa allan mat fyrir veisluna í PX, stórversluninni sem eingöngu var ætluð bandarísku hermönnunum og eiginkonum þeirra. Og nú var komið að því að ferja allt saman í litla einkaflugvél sem stóð á lítt áberandi stað austan við flugstöðvarbygginguna. Henny og Gúndi fylltu bílana af varningi og brunuðu svo í átt að vélinni. Allt gekk eins og í sögu. Flugmaðurinn var með allt klárt og eftir að hafa fengið smávegis greiðslu og kassa af bjór var hann ferðbúinn. Henny var með dúndrandi hjartslátt.

Ég hafði einu sinni verið tekin í tollinum með fjóra „mínea­túra“ og nokkra sígarettupakka sem ég hafði hent í hugsunarleysi í töskuna mína og þá var ég kölluð í dómsal. Sat þar á bekk með skipsáhöfn sem hafði verið tekin fyrir stórfellt bjórsmygl. Einn skipverjinn hallaði sér fram og spurði: „Fyrir hvað varst þú tekin?“ Ég hvíslaði svarið og þeir skelltu upp úr. Ég held að þeim hafi fundist ég vera lélegur glæpamaður. En þetta – hvað myndi gerast ef þetta kæmist upp?

Flugmaðurinn ræsti hreyfilinn og Henny og Gúndi settust hvort inn í sinn bílinn. Þau fylgdust með vélinni þar sem hún tókst á loft og þá var tímabært að bruna af stað til að vera komin í tæka tíð á Reykjavíkurflugvöll til að taka á móti góssinu. Þau keyrðu að tollhliðinu. Bæði í sínum einkennisbúningum með galtóma bíla og bæði köstuðu kveðju á tollverðina. Allt í besta hjá þeim, ekkert ólöglegt úr fríhöfninni í þeirra bílum. Og svo var brunað af stað eftir Keflavíkurveginum. Flugmaðurinn var lentur þegar þau komu til Reykjavíkur og ekkert annað að gera en afferma vélina.

Þarna voru rækjur og heilagfiski í forréttinn og amerískar kalkúnabringur og alls kyns meðlæti. Og mörgum sinnum nóg af áfengi. Það var kampavín og rautt og hvítt og bjór og koníak og líkjörar og svo auðvitað gin og vodki. Það varð að vera hægt að bjóða upp á long drinks. Gestirnir hefðu getað baðað sig upp úr áfengi.

Því næst var ekið með veisluföngin heim til Unnar og Hermanns, því þar átti jú veislan að vera. Henny og Gúndi báru allt inn í mörgum ferðum og Unnur réð sér ekki fyrir kæti. Nú var sko hægt að efna til glæsilegrar veislu. Hermann hins vegar settist inn í stofu og sagði ekki eitt einasta orð.

Veislan tókst með jafn miklum ágætum og vonast hafði verið til og stuttu seinna fóru brúðhjónin í brúðkaupsferð og þær tvær frekar en eina. Sú fyrri var innanlands. Þá óku þau hringinn í kringum landið og gistu í tjaldi. Og brúðguminn lét sig hafa það þótt honum líkaði töluvert betur við dúnsængur en svefnpoka.

Hlaðfreyja á næturvakt.
Hlaðfreyja á næturvakt.

Já já, við tjölduðum. Ég held að við höfum nú samt gist á hóteli á Akureyri og Egilsstöðum. En þetta var mjög gaman. Gúndi gat verið svo skemmtilegur og svo var hann bara svo hlýr og góður við mig.

Seinni brúðkaupsferðin var til Hawaii. Þetta var hálfs mánaðar ferð og fyrri vikuna voru þau á fallegu hóteli við Waikiki-ströndina í Honolulu og þá seinni hjá Kristínu Hallvarðsdóttur og fjölskyldu hennar sem þá bjó á norðurhluta eyjarinnar. Henny og Kristín höfðu skrifast reglulega á frá því þær hittust fyrst í Perth og þetta urðu gleðilegir endurfundir. Fljótlega kom í ljós að Kristín og Gúndi voru skólasystkini úr Verzló og höfðu um margt að tala og margs að minnast. Eftir vikuna hjá Kristínu átti að halda heim en sú heimferð gekk ekki eins greiðlega og þau höfðu búist við.

Við vorum á frímiðum sem þýddi að við gátum bara fengið laus sæti. Þetta var síðsumars og allar vélar fullar af Ameríkönum sem voru að drífa sig heim eftir sumarleyfi. Við mættum á völlinn, eldsnemma, fjóra daga í röð áður en við komumst loksins heim. Við vorum orðin mjög stressuð, því okkar frí var líka búið og við áttum að vera mætt í vinnu.

En heim komust þau að lokum og hversdagsleikinn tók við. Hversdagslífið sem Henny var búin að hlakka til að takast á við í mörg ár.

Samskiptin við frænkuna Guðbjörgu voru stirðari en við tengdafjölskylduna í húsi númer 58 en ekki alslæm. Stundum spjölluðu þær Henny um liðna daga en stemningin í húsinu var vægast sagt sérstök. Frænkan var afskaplega fín frú en mjög ómannblendin. Hún fór helst ekki út á meðal fólks. Hún átti lítil samskipti við aðra en Margréti vinnukonu og útivera takmarkaðist við svalir hússins. Hún gekk út á þær annan hvern dag, uppábúin í pels.

Henny vildi að þau Gúndi flyttu frá Guðbjörgu, því henni fannst þau ekki geta byrjað sitt líf saman í nábýli við frænkuna og svo var hún hálfsmeyk við vinnukonuna. En Gúndi mátti ekki heyra á það minnst. Hann gat ekki hugsað sér að flytja. Kannski fannst honum hann vera skuldbundinn Guðbjörgu sem hafði dekrað við hann á alla lund eða ef til vill fannst honum þetta heppilegasta fyrirkomulagið.

Tilhugalífinu fylgdi heilmikið fjör og djamm. En þegar djammið hélt áfram eftir að þau Gúndi fóru að búa áttaði Henny sig á því að ef til vill væri ekki allt með felldu. Hún vann mikið, kenndi og rak Parið. Hún hafði alltaf séð fyrir sér að fjölskyldulífið yrði þannig að hún kæmi heim að vinnudegi loknum og eldaði góðan mat handa manninum sínum. Og eftir matinn gætu þau setið og spjallað um heima og geima. Hið raunverulega heimilislíf á Laufásvegi 60 minnti lítið á þessa rómantísku mynd. Gúndi var ekki fyrr kominn heim í vaktafrí en dyrabjallan hringdi, vinirnir voru komnir í heimsókn.

Vinir er varla réttnefni. Orðið drykkjufélagar lýsir þessum gestum betur. Og svo fór það að gerast oftar og oftar að Gúndi skilaði sér ekki heim. Ég beið. Hryggurinn varð svartur í ofninum og svo hringdi hann kannski um miðja nótt og sagðist hafa sofnað úti í bæ. Mér fannst vont þegar hann kom ekki heim.

Mér fannst ég verða að skipta mér af. Ég talaði við Henny um drykkjuna á Gúnda og þetta líf sem þau lifðu, því ég þekkti hana nógu vel til að vita að þetta var ekki líf sem hún gæti búið við til lengdar. Ég talaði svo við þau bæði saman og Gúndi vissi að hann yrði að hætta að drekka, annars gæfist hún upp einn daginn.

             – Arngrímur Hermannsson, bróðir

Árið 1975 vissi Henny ekkert um alkóhólisma. Hún hafði vissulega tekið þátt í átaki gegn eiturlyfjaneyslu unglinga og eins og flestir heyrt talað um dagdrykkjumenn og túrakarla, fyllibyttur og róna. En hún hafði ekki hugmynd um að sjúkdómurinn alkóhólismi væri til og því síður að fólk færi í áfengismeðferðir. Og hún var ekki sú eina. En þetta sama ár leitaði fyrsti Íslendingurinn sér hjálpar á meðferðarstöðinni Freeport í Bandaríkjunum og þar með opnaðist nýr heimur og umræðan tók að breytast. Arngrímur bróðir hennar var vel með á nótunum og beitti sér fyrir því að Gúndi, sem af og til hafði orð á því að hann yrði að fara að hætta þessu sulli með strákunum, varð sá sjöundi sem fór. Þá hafði honum verið sagt upp í Keflavík vegna drykkju, en það sagði hann Henny ekki. Hún man ekki hvaða skýringar hann gaf á uppsögninni en þær tengdust ekki áfengi á nokkurn hátt. Uppsögnin kom Henny mjög á óvart. Gúndi rekinn, hann sem var svo flinkur og klár og gat allt. Hún fékk ekki að heyra forsöguna fyrr en löngu seinna og þá kom í ljós að ýmislegt hafði gengið á fyrir þeirra kynni. En nú var hún hins vegar eitt spurningarmerki.

Ég var ekki heima þegar uppsagnarbréfið kom. Ég var á Hólum í Hjaltadal að kenna einhverjum eftirminnilegustu dansnemendum sem ég hef haft. Ég var ýmsu vön og hafði oftar en ekki kennt hópum þar sem stelpur voru í miklum meirihluta og aldrei neitt vandamál að fá þær til að dansa saman. En þarna á Hólum mættu 52 strákar og tvær stelpur og þeir allir á lopasokkum og ekkert sérlega spenntir fyrir því að dansa hver við annan. En ég var sem sagt nýbúin að kveðja lopasokkastrákana mína þegar Gúndi kom keyrandi í hlað á Hólum. Ég var mjög hissa að sjá hann en þó enn meira þegar hann sagði mér frá uppsögninni, þetta gat bara ekki staðist.

Henny reyndi af fremsta megni að stappa stálinu í sinn mann sem tók uppsögninni mjög illa. Hann reyndi að finna sér nýjan vettvang og ákvað að hefja innflutning. Fyrst á flugeldum og síðar á húsgögnum. Meðferðin á Freeport dugði skammt og brátt bókaði Gúndi aðra ferð. Og svo aðra og aðra og aðra. Hann drakk gegndarlaust milli meðferða og Henny vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Hvað átti hún að gera? Hún hafði ekki sagt neinum frá brottrekstrinum, bara að Gúndi væri hættur í fluginu og hún gat ekki hugsað sér að nokkur vissi hvernig komið var. Hún lagði sig fram um að láta eins og allt væri í besta standi en aðfangadaginn sem þau misstu af jólamessunni var erfitt fyrir hana að halda andlitinu fyrir framan pabba og mömmu.

Loks kom að því að Henny ákvað að fara og heimsækja Gúnda á Freeport. Hana langaði til að reyna að skilja við hvað hann var að glíma. Henni fannst skrítið að geta ekki fengið sér rauðvínsglas með matnum án þess að sturta í sig heilli vodkaflösku á eftir. Hún kynnti sér líka Al-anon-fjölskyldusamtökin þegar þau voru stofnuð. Hvort tveggja jók hennar eigin skilning en hvorugt hjálpaði Gúnda við að hætta að drekka.

25 ára afmæli

Jólin 1976 voru um margt ánægjuleg. Gúndi var nýkominn úr enn einni meðferðinni og bar alltaf með sér þá von að nú færi allt á besta veg. Dagarnir liðu og 13. janúar hélt Henny upp á 25 ára afmælið sitt.

Þetta var þrefalt afmæli. Ég var að vinna í sjónvarpsþætti sem hét Spor í rétta átt og byrjaði á því að bjóða samstarfsfólki mínu heim. Ég var búin að undirbúa pottrétt og eitthvað fleira svo nóg var til. Daginn eftir var svo annað partí fyrir vini og kunningja og það þriðja fyrir fjölskylduna daginn þar á eftir. Það var mikið fjör og dansað upp á stólum og borðum. Gúndi tók þátt í þessu öllu og sýndi sínar bestu hliðar. Hann gekk um og þjónaði og lék á als oddi. Tveimur dögum seinna hringdi hann til mín í búðina, fullur og sagðist vera að fara á Freeport og ætlaði í eftirmeðferð á Villa Veritas. Ég spurði hann hvort ég ætti ekki að koma heim og hjálpa honum að pakka en hann vildi það ekki. Sagðist vera að fara út úr dyrunum og kvaddi. Þetta var 15. janúar og hann kom heim 2. apríl.

Þessi meðferð dugði ekki frekar en þær fyrri og stuttu eftir heimkomuna var ljóst að endalokin voru ekki langt undan. Á skírdag var Henny á leið heim til foreldra sinna. Unnur hafði boðað fund með Módelsamtökunum og Henny var auðvitað hluti af þeim. Hún kvaddi Gúnda sem aldrei þessu vant brást illa við, óvænt og alveg að ástæðulausu. Hann sem aldrei hækkaði róminn, hversu drukkinn sem hann var, öskraði á eftir henni út um eldhúsgluggann: „Ef þú ferð núna, þá þarftu ekki að koma aftur!“ Henny var verulega brugðið en hún hélt sínu striki, settist inn í bílinn og ók af stað. Þegar hún kom heim til foreldra sinna settist hún niður og allt í einu tóku tárin að streyma. Hvað í ósköpunum átti hún að gera? Henni þótti undurvænt um Gúnda og hún þráði ekkert heitar en að hjónabandið gæti gengið en hún gat ekki haldið þetta út lengur. Hún gat ekki bjargað þessu.

Henny fór ekki heim aftur. Þetta voru erfiðir dagar. Hún var sorgmædd og að auki fótbrotin. Hún hafði verið að kenna rokk í Tónabæ, á pinnahælum eins og venjulega, og brotið illa á sér ristina. Hún var nánast óvinnufær, gat hvorki kennt né flogið. Hana langaði til að komast í burtu. Fá örlitla fjarlægð á atburði liðinna ára. Hún hafði samband við Guðna í Sunnu og lét vita að hún væri laus ef hann vantaði fararstjóra fyrir sumarið. Svo var ekki, ekki þann daginn, en tveimur dögum seinna var hringt: „Geturðu farið í hvelli?“ Já, auðvitað gat hún farið í hvelli. Fararstjóri sem átti að fara til Mallorca hafði forfallast og Henny þaut af stað. Eins hratt og göngugifsið leyfði.

Hlaðfreyja á dagvakt.
Hlaðfreyja á dagvakt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál