Birgitta býr til magnaða jólastemningu

Birgitta Sif, barnabókahöfundur og myndskreytari, kann að búa til ævintýralega stemningu í kringum jólin. Hún setur jólabarnabækur við jólatréð sem ýtir undir lestur barna hennar yfir hátíðina. 

Birgitta Sif kennir barnabókateikningu á meistarastigi í Cambridge School of Art í Cambridge þar sem hún býr ásamt eiginmanni sínum Borgþóri og dætrum þeirra, Sóleyju Sif og Sölku Sif.

Hún hefur gefið út sex barnabækur sem hafa fengið mikla athygli víða og segist elska að teikna en þegar hún þurfi hvíld frá því þá halda ævintýrin áfram. „Já, ég elska að teikna, en þegar ég þarf hvíld frá því finnst mér ofsalega gaman að fara í einhver ævintýri með fjölskyldunni. Þá bökum við eithvað gott eða bara gerum heitt kakó í brúsa og förum út að ganga. Ég reyni að hafa litla tösku tilbúna með nokkrum litlum hlutum sem ég hef alltaf með, til dæmis litlu spili, stækkunargleri, litlum myndavélum, húfum og auðvitað teikniblokk og blýöntum.“

Reynir að halda stressinu í burtu

Hvaða merkingu hafa jólin í þínum huga?

„Jólin eru svo hlý og notaleg. Mér finnst þetta besti tíminn til að róa allt niður og slaka á og við reynum því að halda stressinu í burtu. Leiðin okkar er að minnka gjafafjöldann og auka samveru.“

Birgitta tengir jólin ekki við trú. „Ég trúi á gott hjarta og gott fólk.“

Hvernig er jólaskrautið á heimilinu?

„Við erum alltaf með körfu hjá jólatrénu með jólabarnabókum sem ég hef safnað í gegnum árin. Ég hef fundið út að ef ég set þær þar endar það með því að við lesum þær og eigum svo margar notalegar stundir saman.

Við erum líka með lítið músahús sem stelpurnar og ég skreytum og gerum huggulegt með fyrir jólin. Við búum oft til föndur úr einhverju sem við höfum fundið í ævintýrunum okkar og föndrum aðventukransinn saman. Mér finnst mjög fallegt að hafa hlýlega birtu frá kertum um allt húsið.“

Aðventudagatal góð skemmtun

Hvað fá börnin í skóinn?

„Við erum svo þakklát fyrir jólasveininn og erum sammála honum um að við viljum helst ekki að jólin snúist um að fá pakka heldur um að vera saman. Svo stelpurnar mínar fá annaðhvort mandarínu eða lítið súkkulaði í skóinn. Þetta fjallar meira um hefð en að fá gjöf í okkar húsi. Þær skrifa svo bréf til Stekkjarstaurs fyrsta kvöldið og auðvitað er hann duglegur að skrifa til baka.“

Fjölskyldan er einnig með aðventudagatal, sem er lítill miði á hverjum degi. „Miðarnir eru allir um eitthvað sem við munum gera saman, lítið eða stórt, hvort heldur sem er að spila, lesa jólasögur, taka göngutúr saman með lukt eða heitt kakó, baka kaniljólaskraut, búa til kransa saman eða kósí popp og bíó. Þetta er yndisleg hefð sem fjölgar gæðastundum okkar fjölskyldunnar.“

Áttu þér uppáhaldsjólagjöf sem þú hefur fengið og skiptir þig máli?

„Litla Salka mín kom rétt fyrir jólin og hún er því allra besta jólagjöfin sem ég hef fengið.“

Hvernig velurðu jólagjafir fyrir aðra?

„Ég reyni að velja eitthvað fyrir fjölskylduna mína sem hvern og einn langar í eða vantar, eitthvað að lesa og að vera í.

Ég trúi að það sé miklu betra að fá góðar gjafir sem endast lengi heldur en nýjasta æðið sem fer í ruslið síðan strax eftir jólin. Að sama skapi finnst mér upplifun besta gjöfin. Að fara í leikhús, í bíó eða bæjarferð inn í London til að hitta bestu vinkonu okkar sem dæmi.“

Jólahlaupið ómissandi

Heldurðu í íslensk jól eða ertu dugleg að aðlagast þeirri menningu sem þú býrð í?

„Við reynum að halda í hefðirnar en blanda samt við menninguna í því landi þar sem við búum. Við höldum upp á jól á aðfangadag klukkan 18.00 eins og heima á Íslandi. Eins er hefð að hafa malt og appelsín með jólamatnum. Á jóladag er venjulega haldið upp á jólin hérna á Englandi og við erum svo heppin að eiga góða vini sem bjóða okkur alltaf heim á jóladag. Þá göngum við í gegnum miðbæ Cambridge um níu að morgni. Það er skemmtileg upplifun að sjá þessa uppteknu borg svona tóma. Þetta er í raun eini dagurinn á árinu þar sem þú sérð engan niðri í bæ.

Þegar við komum síðan til vinafólks okkar er yfirleitt fullt hús af fólki samankomið og þá byrjar jólafjörið. Það er borðað, hlegið, spilað á píanó og sungið. Farið í alls konar leiki og teiknað langt fram á kvöld.“

Áttu skemmtilega sögu um jólin?

„Þegar stelpurnar mínar voru litlar byrjuðum við að fara á aðfangadagsmorgun út í jólahlaup. Við klæðum okkur í alls konar rauðan jólafatnað og setjum á okkur skraut og tökum með í hlaupið hátalara sem við spilum jólalög á. Síðan hlaupum við og hlæjum mikið. Það er svo gott að komast út og ná öllu stressinu úr sér og bara hlæja saman! Það er fyndið hvernig þetta varð að hefð en nú höfum við gert þetta í svo mörg ár að ég gæti ekki ímyndað mér jólin án þess!

Við förum líka alltaf í vetrarlautarferð með lukt, í hvernig veðri sem er. Það er alltaf ein af mínum uppáhaldsminningum af jólunum; heitt kakó, með vettlinga. Að vera umkringd fólkinu mínu.

Ég vona svo sannarlega að fólk finni jólaandann um jólin og óska öllum gleðilegra jóla!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál