Jólahald í Santa Monica er svolítið öðruvísi

Kristín Eva Þórhallsdóttir handritshöfundur í Santa Monica segir að jólin …
Kristín Eva Þórhallsdóttir handritshöfundur í Santa Monica segir að jólin séu töluvert öðruvísi í Bandaríkjunum en á Íslandi.

Kristín Eva Þórhallsdóttir handritshöfundur býr í Santa Monica í Kaliforníu ásamt eiginmanni sínum og börnum þeirra tveimur. Jólahaldið í Ameríku er aðeins öðruvísi en á Íslandi en þau leggja sig fram við að halda í íslenskar jólahefðir. 

„Við höldum í íslenska jólahefð og fögnum jólum á aðfangadagskvöld með öllu tilheyrandi. Hins vegar höfum við tekið upp þann ameríska sið að hengja upp jólasokka sem eru fullir af litlum pökkum snemma á jóladagsmorgun,“ segir Kristín Eva spurð um jólahefðir fjölskyldunnar.

Kristín Eva er um þessar mundir að þróa sjónvarpsþáttaseríu í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Viafilm sem framleiddi meðal annars þættina Lilyhammer og The Norsemen. Fjölskyldan skiptist á að halda jól á Íslandi og í Santa Monica.

„Við höfum skipst á að vera á Íslandi og hérna í Kaliforníu. Jólin eru hvergi betri en á Íslandi enda tengjast þau að svo miklu leyti veðráttunni og að kúra inni í kuldanum, koma saman, lesa bækur, kveikja jólaljósin og taka sér hvíld frá hversdagsamstrinu. Í Bandaríkjunum er í mesta lagi einn frídagur fyrir vinnandi fólk yfir jólin og svo er auðvitað stór hluti fólks sem fagnar ekki jólum. Þakkargjörðarhátíðin, sem er í lok nóvember, er mun stærri hátið.“

Santa Monica Pier.
Santa Monica Pier.

– Hvað er ómissandi um jólin?

„Fjölskyldan, góður matur, bækur og kertaljós.“

– Hvernig eru jólin í Kaliforníu frábrugðin íslenskum jólum?

„Það eru auðvitað engar vangaveltur um hvort jólin verði hvít eða rauð hérna í Los Angeles, enda snjóar aldrei. Mér finnst eins og ég sé að undirbúa jólin í júlí þegar ég er að hengja upp útijólaseríurnar á grænar trjágreinar, auk þess sem samfélagið í heild sinni undirbýr ekki jól eins og gerist á Íslandi; hér er ekkert um jólaföndur í skólum eða jólaböll. Síðustu jól voru krakkarnir meira að segja í skólanum á Þorláksmessu,“ segir hún.

– Hvað finnst þér best við jólin?

„Mér finnst best að slappa af með góða bók eða spila með fjölskyldunni og hafa engum skyldum að gegna.“

– Hvað borðið þið á jólunum?

„Við ákveðum það oftast ekki fyrr en nokkrum dögum fyrir jól hvað við borðum þegar við kíkjum í kjötbúðina og sjáum hvað okkur líst vel á.“

– Eftirminnilegustu jólin?

„Á námsárunum fórum við hjónin ein jólin ásamt vini okkar til Las Vegas. Við þóttumst hafa dottið í lukkupottinn að fá ódýra gistingu á lúxushóteli þar til á aðfangadag þegar við vorum vakin við æpandi fólk sem þaut framhjá glugganum okkar í rússíbana sem hlykkjaðist á braut um alla hótelbygginguna. Í tíu mínútna akstursfjarlægð frá stigum við hins vegar inn í ólíkan heim á bóndabæ þar sem tóku á móti okkur asni, geit og tveir hundar. Þarna bjó systir vinar okkar sem bauð okkur að halda jólin með þeim. Enginn var á nýjum skóm eða búið að dekka borð, heldur allir á náttfötunum og jólamaturinn borðaður af pappadiskum. Næsta dag bauð systirin okkur á Star Trek-sýningu á Hilton-hótelinu, en hún var einn af leikurunum í sýningunni. Þar fengum við að fara um borð í Enterprise og lenda í átökum við nokkra Klingona. Jólahaldi lauk svo við barinn á Enterprise þar sem við drukkum bláan bjór.“

– Hvernig er jólagjafainnkaupum háttað hjá þér? Kaupir þú gjafir jafnt og þétt yfir árið eða græjarðu þetta á Þorláksmessu?

„Ég stefni á það hver einustu jól að vera snemma í jólainnkaupunum og fer af stað og kaupi nokkrar gjafir. Svo líður tíminn og allt í einu eru nokkrir dagar í jól og ég hleyp um eins og hauslaus hæna að redda síðustu pökkunum.“

Í Kaliforníu er gott veður allan ársins hring.
Í Kaliforníu er gott veður allan ársins hring.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál