Þórunn Lárusdóttir er alltaf í jólaskapi

Þórunn Lárusdóttir er í jólaskapi allan ársins hring.
Þórunn Lárusdóttir er í jólaskapi allan ársins hring.

Leik- og söngkonan Þórunn Lárusdóttir er búsett í Sitges á Spáni ásamt manni sínum og börnum. Hún ætlar þó að koma heim um jólin enda toppar fátt íslensk jól.

Fjölskyldan flutti upphaflega til Spánar til þess að Þórunn gæti stundað framhaldsnám í kvikmyndagerð. Afraksturinn úr náminu er kvikmyndin Shattered Fragments, sem var frumsýnd í byrjun október á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Sitges. Upphaflega ætlaði fjölskyldan að vera í ár en nú hafa þau ákveðið að framlengja um eitt ár.

„Fjölskyldunni líkaði dvölin svo vel að við ákváðum að hafa aðra vetursetu í paradísinni sem Sitges er, en skiptum um hlutverk, þannig að nú er bóndinn, Snorri Petersen, í meistaranámi í gagnavísindum í Barcelona. Börnin, Kolbeinn Lárus og Katla, ganga í katalónskan skóla og stunda nám á katalónsku og spænsku,“ segir Þórunn, sem vinnur að kvikmyndagerð og skrifar handrit.

Fjölskyldan ætlar að koma heim um jólin en meðan á Íslandsdvölinni stendur ætlar hún að frumsýna kvikmynd sína og syngja á jólatónleikum ásamt systrum sínum.

„Ég er mikið jólabarn og ég held hreinlega að ég þekki ekki meira jólabarn en sjálfa mig! Ég er algerlega óþolandi!

Mér finnst bara allt skemmtilegt við jólin. Ég stóð sjálfa mig að því í byrjun desember fyrir nokkrum árum að vera skælbrosandi í bílnum á leiðinni heim til mín, af því ég fattaði að það var kominn fyrsti desember! Ég trúði því ekki að hann væri kominn! Mér finnst öll aðventan og hátíðin sjálf skemmtileg, alveg frá fyrsta desember til sjötta janúar. Ég nýti tímann alltaf vel til að hitta fólk og hafa gaman. Ætli það sé ekki það sem mér finnst best,“ segir Þórunn.

Jólamaturinn leikur stórt hlutverk. Þórunn reynir alltaf að breyta til með jólamatinn og vera ekki alltaf með það sama.

„Mér finnst mikilvægt að ekkert sé ómissandi á jólunum. Það skapar bara óþarfa stress. Við hjónin höfum því alltaf eitthvað nýtt í matinn, þannig að allir séu til í breytingar, ef þeirra er þörf. Jólin snúast um að hafa það notalegt, borða ljúffengan mat, gleðjast og vera saman.“

Hvað um jólahefðir þínar?

„Við höfum þá hefð að bjóða stórfjölskyldunni í skötu á Þorláksmessu – ég elska skötu, vil hafa hana vel kæsta og finnst dásamlegt að byrja jólin á þennan hátt. Hún er þó ekki á boðstólum á öðrum tímum ársins.“

Hér er Snorri Petersen eiginmaður Þórunnar ásamt börnum þeirra tveimur, …
Hér er Snorri Petersen eiginmaður Þórunnar ásamt börnum þeirra tveimur, Kolbeini Lárusi og Kötlu.

Hvernig er jólaundirbúningi ykkar háttað?

„Undirbúningur jólanna hjá okkur er upplifunin á aðventunni. Börnunum finnst mjög gaman að skreyta og við gerum það alltaf saman í byrjun desember. Jólatréð skreytum við svo um miðjan mánuð en það verður fallegra með hverju árinu. Ég set sköpunargleði barnanna ofar útliti, þannig að það hefur á stundum litið ansi skrautlega út! Sem eru einstaklega skemmtilegar minningar. Við setjum upp seríur, ég elska jólaljós, en vil þó hafa þau friðsæl og falleg, þoli ekki blikkandi seríur! Ég kaupi jólagjafir og pakka inn smám saman þegar tími gefst. Oft er ég að syngja jólaprógrömm og maður skýst inn á milli í jólaboð, hittir vini og fjölskyldu.“

Svo er það tónlistin. Þórunn segir að hún skipti sig mjög miklu máli og gerir hún mikið af því að hlusta á fallega tónlist á aðventunni. „Að sama skapi finnst mér mjög gaman að flytja jólatónlist og er svo heppin að hluti af mínu starfi er einmitt fólginn í því. Hinn 15. desember erum við systurnar til dæmis með jólatónleika í Salnum í Kópavogi, en það eru komin níu ár síðan við vorum síðast með jólatónleika. Það verður þess vegna stór hluti af undirbúningi jólanna þetta árið og verður yndislegt að geta sameinað samverustundir fjölskyldunnar og vinnuna með því að syngja jólalög! Alger bestun á tíma.“

Hvert er besta jólalag allra tíma?

„Stórt er spurt! Það eru til svo ótrúlega mörg dásamleg jólalög og eflaust mismunandi svör eftir því hvernig maður er upplagður. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er Chestnuts roasting on an open fire. Það er svo flott lag og á við á flestum stundum. Ég fékk að syngja það á íslensku á jólaplötu okkar systra, en þá heitir það Þorláksmessukvöld. Eflaust fær það að hljóma á tónleikunum í desember.“

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Hvað meinarðu? Ég er alltaf í jólaskapi,“ segir hún og hlær.

Hvaða fötum ætlarðu að klæðast um jólin?

„Ég veit ekkert hverju ég ætla að klæðast á jólunum. Það er eins með það og matinn. Ég ákveð það bara korter í jól! Ég kaupi nú yfirleitt ekki nýjan kjól eða slíkt fyrir jólin en ég er í sparifötum á aðfangadag. Svo er stór hluti jóladags yfirleitt í kósí innifötum eða náttfötum. Það er best. Sérstaklega ef maður fékk náttföt í jólagjöf.“

Bakar þú smákökur fyrir jólin?

„Ég baka yfirleitt eitthvað fyrir jólin. Við fjölskyldan bökum alltaf smákökur sem tengdamamma gaf okkur uppskrift að sem eru algert nammi og klárast um leið og þær koma út úr ofninum! Það er eiginlega eini gallinn við þær. Þær eru svo góðar að það er alveg sama hvað við bökum mikið, þær klárast alltaf strax!“

Ertu þessi skipulagða jólatýpa sem kaupir gjafir allan ársins hring eða gerirðu jólagjafainnkaup á Þorláksmessu?

„Ég er ekkert sérstaklega skipulögð, nema þegar þörf krefur. Við erum öll mjög hvatvís í fjölskyldunni og það hentar því ekkert sérstaklega vel að vera að skipuleggja hluti langt fram í tímann. Ég er yfirleitt búin með flest á Þorláksmessu; ekki af því ég hef ákveðið það heldur af því að mér finnst þetta bara svo gaman! Vil eiga að minnsta kosti eina gjöf eftir til að kaupa og pakka inn á Þorláksmessukvöld, eftir skötupartí, þá hlusta ég á hátíðlega jólatónlist og svíf inn í aðfangadag með bros á vör.“

Kolbeinn Lárus og Katla.
Kolbeinn Lárus og Katla.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál