Ætlar að trylla allt á þorrablóti Stjörnunnar

Selma Björnsdóttir.
Selma Björnsdóttir.

Selmu Björnsdóttur er margt til lista lagt. Hún er frábær söngkona eins og flestir vita. Hún hefur hæfileika á sviði leiklistar, leikstjórnar og dans svo dæmi séu tekin. Hún hefur einnig tekið að sér að vera veislustjóri á stórum árshátíðum og öðrum viðburðum. Hún verður veislustjóri þorrablóts Stjörnunnar að þessu sinni. 

Selma flutti í Garðabæinn fimm ára að aldri og gekk þar í skóla. Síðan flutti hún til Reykjavíkur og bjó þar í 22 ár. Hún segist vera nýkomin aftur heim, í Sjálandshverfið. Henni er því ljúft og skylt að stýra einum stærsta viðburði bæjarfélagsins um þessar mundir.

„Ég datt inn í bransann að vera með stórar árshátíðir fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið árið 2016. Mig langar ekki að segja of mikið frá því hvernig þorrablótið verður en ég lofa einstakri skemmtun og frábærri tónlist.“

Regína Ósk Óskarsdóttir og Selma Björnsdóttir.
Regína Ósk Óskarsdóttir og Selma Björnsdóttir.

Vill láta gott af sér leiða

Hvað er á dagskrá á næstunni?

,,Ég er mikið að stýra veislum um þessar mundir. Ég syng mikið og svo er ég að fara að leikstýra verki í Þjóðleikhúsinu í vor. Það er ekki tímabært að tala um hvaða verk það er á þessari stundu. En það er kominn tími til að ég hitti mitt listræna teymi og við búum saman til rammann utan um verkið. Síðan er ég mikið í því að gifta fólk, stjórna nafngiftum og síðan mun ég taka að mér fermingar í vor.“ Selma tók námskeið í að vera athafnastjóri hjá Siðmennt síðasta sumar og hefur því rétt til þess að framkvæma þessar athafnir á vegum Siðmenntar. Hún segir þetta starf þjóna vel hugsjónum hennar sem eru í anda húmanískra kenninga. Hún aðhyllist siðfræðikenningar þeirra og alla hugsun sem miðast að því að miðla kærleika og fallegri hugsun út í samfélagið.

,,Ég fór í þetta eftir að hafa verið að leita að tilgangi lífsins og þeirri andlegu næringu sem við öll þurfum á að halda. Ég trúi ekki á neitt yfirnáttúrulegt í þessu lífi og lifi frekar eftir siðferðislegum og heimspekilegum kenningum. Ég er virðingu fyrir ást og kærleik, umburðalyndi og náungavinsemd.“

Selma segir að hún hafi verið leitandi lengi þegar kom að trúmálum og þegar hún hafi kynnst Siðmennt hafi hún uppgötvað að margt af því sem þau boðuðu var í anda þeirrar lífsskoðunar sem hún er með.

,,Ég vildi láta gott af mér leiða. Eins finnst mér þetta frábær leið til að gefa af mér til samfélagsins. Það er gefandi og dásamlegt starf að vera athafnastjóri.“

Að stugga við og ögra

Lítur þú á öll störfin sem þú vinnur sem þjónustu við samfélagið?

,,Í leikhúsinu erum við að fræða fólk. Hreyfa við fólki, skemmta því og stugga við. Jafnvel að ögra. Við fáum fólk til að hlæja, gráta, hlusta og læra ef svo má segja.“

Hvað með sönginn, við sem fylgdumst með þér koma fram í fyrstu skiptin og syngja vitum að söngurinn bjó innra með þér og kom frekar fullskapaður út frá byrjun. Ertu sammála því?

,,Já ætli það megi ekki segja það bara. Mér hefur alltaf þótt gaman að syngja og ég hef lært ýmislegt í söng frá því ég kom fram fyrst. Ég hef lært meiri tækni, að stjórna röddinni og fleira. En það er margslungið að halda öllu við, ég er ennþá að syngja en hef lagt meiri stund á leikhúsið svo dæmi séu tekin.“

Þegar kemur að því að leikstýra þá er eitthvað sem lifnar innra með henni þegar hún segir: ,,Ég elska að leikstýra. Það hefur verið mín aðalstarfsgrein frá árinu 2007. En ég hef leikið endrum og sinnum og það er gaman líka. Í raun alveg frábært að fá að standa á sviðinu og túlka ólíkar persónur.“

Hvernig finnst Selmu að vera að þroskast með aldrinum?

,,Ég finn að með vaxandi aldri þá átta ég mig á því að það er stöðug vinna að vera maður sjálfur. Ég vinn í sjálfri mér á hverjum degi, legg rækt við sjálfa mig í stað þess að vera í stöðugu kapphlaupi við lífið. Ég hef verið einstæð móðir lengi og þá eru öll verk á mínum höndum. Maður er stöðugt með hugann við næstu mánaðamót. En ég ákvað árið 2017 að kaupa mér árskort í Hilton Spa. Ég fer þangað til að fá axlanudd, hugleiða en ekki einvörðungu að fá six pack og að keppast að því að hafa eitthvert útlit. Þessi ákvörðun hefur gefið mér mikið. Ákveðin sjálfsást sem ég hef gefið mér nú í eitt og hálft ár. Það er mikilvægt að við elskum okkur sjálf, kannski meira en við ætlumst til að aðrir geri, leyfa okkur að slaka á, staldra við og gefa heilsunni gaum. Það er svo auðvelt að klessa á vegg, ég hef gert það sjálf og legg því mikið upp úr því að halda í góða heilsu, jafnvægi og að ástunda það sem gefur mér þá sjálfsvirðingu sem ég þarf að hafa í þessu lífi.“

Selma er með þetta þögla öryggi sem er svo eftirsótt.

Hún er líka alltaf í góðu formi.

Mætir með læti

,,Þegar kemur að hreyfingu þá hef ég reynt margt. Sem dæmi langaði mig lengi að líka vel við jóga. En það var aldrei fyrir mig. Mér bara hundleiddist í tímunum. Ég þarf að stunda hreyfingu, þar sem ég fæ útrás, ég geri það á minn hátt, fer svo og teygi og hugleiði eftir æfingar. Það er allt leyfilegt, og maður á einmitt að gera það sem manni finnst gaman.“

Hverju lofar þú gestum sem ætla að mæta á þorrablótið að þessu sinni? ,,Ég mun mæta og vera með læti, gleðjast með fólki, syngja og dansa og hafa rosalega gaman. Markmiðið er að fólk skemmti sér sem best og fái eitthvað pínulítið gott í sálartetrið í leiðinni.“

Hvað með dressið?

,,Ég verð í nokkrum geggjuðum dressum. Sérsaumuðum kjólum sem og einhverju sem ég hef verslað erlendis. Maður getur ekki látið sjá sig í sama dressinu allt kvöldið. Það verður glimmer og gleði.“

Ertu með tískuráð fyrir gestina? ,,Guð, ég veit ekki. Held ég sé ekki sérfræðingur í því, en kannski bara að fólk hafi það hugfast að það sem lætur manni líða vel, fær mann til að geisla. Ætli það sé ekki það sem ég hef helst í huga á kvöldum sem þessum.“

Selma með börnin sín tvö.
Selma með börnin sín tvö.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál