Þetta er besta bóndadagsgjöf allra tíma

Er þinn stærsti ótti að maðurinn þinn verði einn daginn virkur í athugasemdum? Ef svo er þá gæti þessi gjöf bjargað lífi þínu og lífi fjölskyldunnar í heild sinni. Út er nefnilega komin Tuðbókin - litla bókin um ólundina sem er tilvalin bóndadagsgjöf. 

„Hún var ein af þeim bókum sem vöktu mesta athygli á Bókamessunni í Frankfurt nú í haust en áður hafði hún slegið rækilega í gegn á heimaslóðum í Finnlandi. Allt þetta vakti forvitni Forlagsmanna sem á endanum stukku til og keyptu bókina og er hún nýlega komin út í íslenskum búningi. 

Höfundurinn, Lotta Sonninen, hefur um árabil ritstýrt svokölluðum hamingjubókum, leiðarvísum að því hvernig hægt sé að öðlast sanna lífshamingju með einföldum ráðum. Á endanum fékk hún nóg því það er einfaldlega þannig að mann langar ekkert alltaf til að vera glaður og jákvæður. Hver sá sem hefur þroskað með sér metnaðarfulla geðvonsku veit og þekkir að þá er fátt betra en að næra í sér ólundina, sérstaklega með því að skeyta skapi sínu á öðrum,“ segir Bjarni Guðmarsson þýðandi bókarinnar. 

Bók Sonninen er innfyllingabók – full af tuði og pirringi og upplögð fyrir þá sem vilja glæða í sér geðvonskuna með því að skrá samviskusamlega inn í þennan fábæra fýlupoka. Og hér er séð til þess að allir þeir sem valda viðkomandi skapraunum fái á baukinn: maki, börn, samstarfsmenn, álitsgjafar, virkir í athugasemdum, ráðamenn, ras- og veganistar og „góða fólkið“ … og ýmsir til viðbótar.

Finnar eru álitnir vera hamingjusamasta þjóð í heimi og það er því óneitanlega fyndið að þeir skuli gefa út slíka tuðbók. En það sýnir líka að þeir hafa húmor fyrir sjálfum sér, og þessi bók hittir í mark. Hún hefur verið seld um heim allan og vakið mikla athygli. Og ekki skrýtið því þeir sem hafa hagnýtt sér bókina vitna um að nagi og nöldri fylgir heilmikil andleg hreinsun; sá sem færir inn pirringsvalda og dregur ekkert undan hefur þar með skilað skömmunum og gengur léttur og glaður út í drunga dagsins.

„Við völdum að gefa bókina út á leiðinlegasta degi ársins – þriðja mánudaginn í janúar – en í Bretlandi er útgáfan áætluð á sjálfum Valentínusardegi. Það má deila um hvort hún veki lukku elskenda, en þessi bók er alla vega tilvalin bóndadagsgjöf.

Það hefur sjaldan verið tuðað, eða hlegið jafnmikið, á skrifstofum Forlagsins og við vinnslu þessarar bókar og við höfum komist að raun um að mögl og rag og raus eru sannkallaðir gleðigjafar rétt eins og skammir og vammir, mald, þus og tuð – ef rétt er á haldið,“ segir Stella Soffía Jóhannesdóttir, verkefnastjóri útgáfu Forlagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál