Pakkar niður og samgleðst Aroni Einari

Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir eru að flytja til …
Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir eru að flytja til Katar.

Kristbjörg Jónasdóttir einkaþjálfari og eiginkona Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða Íslenska landsliðsins er að flytja til Katar með eiginmanni sínum þar sem hann hefur skrifað undir samning við Al Ar­abi. Hún segir að það hreyfi við öllum tilfinningaskalanum að flytja. 

„Þetta eru frekar blendnar tilfinningar. Ég er ótrúlega spennt og ánægð fyrir Arons hönd þar sem þetta er nýr kafli á hans ferli og kominn tími á breytingu fyrir hann. Tilhugsunin að vakna í sólinni, í nýju landi, kynnast annarri menningu og upplifa fleiri ævintýri sem fjölskylda, gerir mig spennta,“ segir hún og bætir við: 

„Aron er búinn að vera liðsmaður Cardiff síðastliðin 8 ár og ég hef verið með honum sex ár af því. Á þeim tíma erum við búin að eignast mikið af vinum og kynnast yndislegu fólki sem verður erfitt að kveðja. Við keyptum okkur hús í Cardiff fyrir nokkrum árum og höfum gert að fallegu heimili sem mér þykir ótrúlega vænt um. Báðir strákarnir okkar, Óliver og Tristan, fæddust hér og því má eiginlega segja að mér finnst ég vera fara „að heiman“ þegar við kveðjum Cardiff. 

Í atvinnumannaheimi íþróttamanna er því miður mikið um félagsskipti og þá þarf oft að rífa alla fjölskylduna upp og flytja annað. Nýr skóli fyrir börnin, atvinna fyrir maka, húsnæði, afþreying, nýtt umhverfi, önnur menning, kynnast nýju fólki og allt þetta er að sjálfsögðu ekki auðvelt. Ég er þakklát fyrir að hafa verið á sama staðnum í langan tíma og ekki þurft að upplifa þetta áður, sérstaklega eftir að við eignuðumst strákana okkar,“ segir hún. 

Þegar Katar ber á góma kemur í ljós að Kristbjörg hefur komið þangað og leist nokkuð vel á. 

„Ég hef komið þarna áður og þetta er góður staður. Ég fann fyrir miklu öryggi og það er mjög hreinlegt þarna. Að mínu mati er Katar eins og minni útgáfa af Dubai og borgin Doha er í mikilli uppbyggingu sérstaklega út af HM sem haldið verður þar 2022.“ 

Finnst þér Katar ekkert langt í burtu?

„Ég hef ekki áhyggjur af því að einangrast í Katar. Ég er mikil félagsvera og á örugglega eftir að kynnast fólki þarna á fyrstu vikum eftir flutninga. Það er alltaf erfitt að vera frá fjölskyldu og vinum og þarna er maður kannski kominn aðeins lengra frá heldur en Cardiff þar sem er stutt að ferðast heim en það eru bara þrír tímar í tímamismun og Facetime virkar alls staðar. Svo höfum við hvort annað og svo er eitthvað af Íslendingum á þessu svæði sem við þekkjum vel til.“

Það er mikið fyrirtæki að flytja og hvað þá á milli landa. Hvernig munið þið pródúsera flutningana? Ætlar þú að ferja alla búslóðina á milli landa? 

„Við byrjuðum að pakka fyrir einhverjum vikum síðan og svona sortera það sem kemur með og það sem við annaðhvort seljum eða gefum áður en við förum. En við ætlum bara að reyna að losa okkur við sem flest nema hluti sem hafa einhver gildi fyrir okkur. Það verður bara sent beint til Íslands en annars ætlum við ekki að taka neitt með okkur til Katar.“ 

Eruð þið komin með húsnæði í Katar? 

„Nei ekki eins og er. Við erum aðeins búin að skoða á netinu og séð einhver húsnæði sem okkur líst vel á. Aron á að mæta til Katar í lok júlí og þá ætlum við að fara saman og finna húsnæði en ég og strákarnir flytjum ekki út fyrr en í lok sumars þannig að við munum eyða sumrinu að mestu leyti heima á Íslandi sem er skemmtileg tilbreyting.“ 

Aðspurð hvað sé annars að frétta af henni sjálfri segist hún hafa það gott og hún sé farin að kenna konunum í hverfinu leikfimi. 

„Það er allt gott að frétta af mér og mesti tíminn minn þessa dagana fer í móðurhlutverkið. Yngri sonurinn, Tristan, er 6 mánaða og ég vil njóta tímans með honum þar sem tíminn líður nú þegar hratt. Ég er þó með nokkur verkefni í gangi og vonandi að eitt þeirra líti dagsins ljós í haust þannig það skiptir miklu máli að skipuleggja hvern dag vel. Ég var farin að sakna þess mikið að þjálfa þannig að ég skellti mér í það að kenna tvo tíma tvisvar sinnum í viku konunum í hverfinu í garðinum hér heima. Heimasíðan mín er í smá breytingum þannig að ég get ekki beðið eftir að byrja aftur,“ segir Kristbjörg. 

Þessi mynd var tekin síðasta vor en sonurinn Tristan er …
Þessi mynd var tekin síðasta vor en sonurinn Tristan er nú hálfs árs gamall sem var þarna í bumbunni.
mbl.is