Grilluðu 20 lambalæri í brúðkaupinu

Heiðdís Hrönn Dal veit fátt skemmtilegra en að undirbúa brúðkaup. Hún segir brúðkaupsdaginn einstakan, að undirbúningurinn eigi að vera skemmtilegur og síðan þurfi alltaf að gera ráð fyrir að eitthvað fari úrskeiðis. Þess vegna sé best að setja athyglina á aðalatriðið. 

Heiðdís er búsett í Noregi þar sem hún stundar nám í leikskólafræðum. Heiðdís giftist æskuástinni sinni, Aroni Ásbirni Sigurðarsyni, í fyrra. Nánar tiltekið þann 18.08. 2018.

Heiðdís veit fátt skemmtilegra en að tala um brúðkaup og undirbúa brúðkaup. Um þessar mundir er hún á leiðinni til Tromsø að aðstoða vinkonu sína við undirbúning brúðkaups sem haldið verður í september.

Hún kemur einnig að undirbúningi hjá annarri vinkonu sinni á næsta ári.

Að mörgu að huga fyrir brúðkaup

Kannski eru brúðkaup að mati Heiðdísar samvinnuverkefni?

,,Já, það má segja það. Eftir að hafa farið í gegnum þá reynslu að gifta mig sjálf, fékk ég þennan gífurlega áhuga á brúðkaupum. Veislan sjálf og stóri dagurinn er eitt og dagurinn okkar var æðislegur. Undirbúningurinn var ekki síður áhugavert ferli og var ég í um það bil eitt ár að vinna að mínu brúðkaupi.

Þau giftu sig í Mosfellsdal, veislan var á Stokkseyri og allt sem boðið var upp á í veislunni var ýmist heimagert eða búið til af vinum og fjölskyldunni.

„Það var auðveldara fyrir okkur að halda brúðkaup á Íslandi heldur en að fá 130 gesti til Noregs. Það að vera með viðburðinn í náttúrulegu umhverfi var táknrænt fyrir okkur, þar sem við erum mikið fyrir náttúruna, blóm, tré og allt sem því fylgir að gera rómantískt náttúrubrúðkaup.“

Brúðkaup verður aldrei fullkomið

Heiðdís og Aron hafa verið saman frá því þau voru táningar og eru fjölskyldur þeirra mjög samrýmdar.

Þegar Heiðdís lýsir undirbúningnum þá er ljóst að brúðkaup er stórframleiðsla þar sem hvert einasta atriði verður að vera vel skipulagt.

„Ég er sammála því en hins vegar má aldrei missa sjónar á því sem er aðalatriðið og það er athöfnin sjálf og að vera í hjónabandi. Það að vera hjón í dag, að hafa manneskju sér við hlið sem mun vera til staðar fyrir þig sama hvað kemur upp á í lífinu er ólýsanleg tilfinning og eitthvað sem mig hefur alltaf dreymt um. Allt annað er aukaatriði. Ég þurfti að hafa æðruleysi fyrir þeim atriðum sem eftir stóðu á planinu og er það kannski stóri lærdómurinn sem maður tekur út úr þessu öllu. Brúðkaupsdagurinn fer aldrei 100% eftir áætlun sama hversu mikið maður skipuleggur hann. En dagurinn verður fullkominn engu að síður.“

Grilluðu 20 lambalæri

Heiðdís og Aron vildu bjóða upp á grilluð lambalæri og voru 20 læri grilluð á brúðkaupsdaginn ofan í gestina. „Um leið og við tilkynntum fjölskyldunni um daginn, þá fór af stað atburðarás þar sem okkar nánustu byrjuðu að bjóðast til að aðstoða okkur. Systir pabba sem dæmi vann í blómabúð og hún aðstoðaði við skreytingar. Pabbi smíðaði bekki og borð fyrir pallinn úr vörubrettum. Sumir gerðu salöt, aðrir kartöflur og segja má að veislan hafi verið þannig að hver og einn sem að henni komu voru að gera réttinn sem þeir voru bestir í. Ég er sem dæmi mikið fyrir að baka. Ég bakaði brúðarkökuna sem var gómsæt súkkulaðikaka með berjum og rjóma. Aron smíðaði tvö stór tunnugrill sem við notuðum til að grilla á. Sumir úr fjölskyldunni söfnuðu vínflöskum sem við notuðum undir blómavasa, við vorum með krukkur undir fordrykkina og allskonar sniðuga hluti sem gerði veisluna að einmitt þessari skemmtilegu samvinnu okkar allra.“

Heiðdís segir að með því að gera hlutina svona hafi þau sparað heilmikinn pening. „Með því að hafa mest allt heimagert, komumst við upp með að nota helmingi minni pening en áætlað var í sjálft brúðkaupið. Með þessu áttum við pening sem við erum að nýta okkur í húsakaup. Það hefðum við ekki getað gert nema að sníða okkur stakk eftir vexti þegar kom að brúðkaupinu.“

Gleymdi töskunni með skarti og skóm

Heiðdís segir að brúðkaupsdagurinn hafi gengið vel en undirbúningurinn sé mikil vinna. „Við vorum í þrjár vikur á landinu fyrir athöfnina að undirbúa okkur og lærdómurinn var talsverður, meðal annars um það sem getur farið úrskeiðis sama hvað maður planar. Við vorum með allt okkar dót í töskum og sem dæmi þá gleymdum við einni töskunni okkar, sem gerði það að verkum að mamma mín þurfti að versla meðal annars nýtt krullujárn og nærföt fyrir mig klukkan fjögur, nóttina fyrir brúðkaupið. En það var allt í lagi, dagurinn var fullkomlega ófullkominn og maðurinn minn minnti mig á að muna stóru myndina. Við vorum að játast hvort öðru í hjónaband með þeim sem okkur þykir vænst um.“

Ráðleggingar Heiðdísar og Arons

Gefðu þér góðan tíma í að undirbúa brúðkaupið

Gerðu ráð fyrir að dagurinn verði ófullkomlega fullkominn

Biddu um aðstoð

Skrifaðu áætlunina þína niður í brúðkaupsbók

Finndu hugmyndir og límdu í bókina

Settu niður tímaramma fyrir allt á brúðkaupsdaginn

Gerðu símaskrá með númerum hjá þeim sem koma að brúðkaupsdeginum

Mundu að anda

Mundu að brosa

Mundu að þetta er þinn dagur

Forðastu að gera ráð fyrir því að allt verði fullkomið

Forðastu að gestir séu með símann uppi í kirkjunni

Forðist að eyða öllum peningunum ykkar í brúðkaupið

Að lokum segir Heiðdís að brúðhjón þurfi að hafa það hugfast að nokkrum árum eftir brúðkaupið muni enginn muna eftir servíettunum, hvort öll glösin voru samstæð eða stólarnir hvítir eða svartir.

„Ekki festast í litlu hlutunum, það ert bara þú sem tekur eftir þeim. Það sem skiptir mestu máli er að þið segið bæði já! Njóttu dagsins og mundu að anda, þetta reddast allt og best af öllu – þið verðið hjón.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál