„Þú átt skilið að elska án skilyrða“

Sigurður Karlsson ráðgjafi hefur hjálpað fjölmörgum aðilum og aðstandendum þeirra að komast í bata. Hann segir mikilvægt að rækta ástina og ráðleggur foreldrum sem vilja ná betur til barnananna sinna að vera til staðar sem vinur þeirra í raun.

Það er eitthvað svo hressilegt að lenda á samtali við Sigurð. Hann er ráðgjafi af lífi og sál og lifir lífinu öðrum til eftirbreytni. Hann átti góða páska þar sem hann borðaði mikið af súkkulaði og gladdist með fjölskyldu og vinum. Þrátt fyrir súkkulaði átið virðist hann alltaf í góðu formi. 

„Ég á hund sem þarf mikla hreyfingu en síðan reyni ég að borða skynsamlega. Ég hef reyndar prófað alla megrunarkúra sem til eru. Þeir skila mér vanalega sama árangri sem er mikill strax en síðan þyngist ég um tvö kíló eftir hvern þeirra,“ segir Sigurður og brosir.

Aðspurður um hvernig hann fari að því að líta svona vel út segir hann aðalmálið vera að finna hamingjuna innra með sér og að raða í kringum sig rétta fólkinu.

„Þú velur þér ekki fjölskyldu en þú velur þér vini. Maður verður sjálfur að finna hamingjuna það er ekki á ábyrgð maka eða annars aðila. Þegar kemur að vinum er gott að skoða, hverjir gefa og geta þegið og þroska mann í anda og hverjir eru einungis í sambandi þegar eitthvað bjátar á. Þeir sem eru með manni í gleði og sorg og leyfa manni að taka þátt í lífinu sínu er fólkið sem ég vil hafa í kringum mig.“

Hver og einn er einstakur

Sigurður starfar í umhverfi þar sem mörg kraftaverk gerast daglega. Hann er ráðgjafi í Hlaðgerðarkoti og þykir sterkur á mörgum sviðum, sér í lagi þegar kemur að verkefnum til að efla sjálfsvirðingu og sjálfsástin.

„Ég ráðlegg fólki að horfa í spegil og segja sjálfum sér að það sé frábært og einstakt. Það er mjög mikilvægt að fólk þori að taka pláss í þessu lífi og viti að það sé nóg. Þegar kemur að mér sjálfum finnst mér mikilvægt að gera þetta og svo eru verkefni daglega sem auka á sjálfsvirðinguna sem er m.a. að klæða sig fallega og líta vel út.“

Sigurður segir að hver manneskja sé einstök og þess vegna þurfi allir að muna að fara vel með sig. „Við þurfum að átta okkur á hversu dýrmæt við í raun og veru erum og hvað lífið er mikil gjöf. Það eru litlu fallegu hlutinir sem við oft ekki sjáum fyrir vandamálum sem taka mikið pláss.“

Sama ár og Jesús er fæddur?

Sigurður hefur reynslu af því að vinna með fólki út úr aðstæðum sem sumir hefðu haldið að væri ómögulegt að vinna sig úr. Hann þykir einnig fær að leiðbeina fjölskyldum að ná saman í sátt.

„Ég held það sé ótrúlega dýrmætt fyrir börnin okkar að sjá okkur gera skynsamlega hluti en ekki einvörðungu tala um það. Það getur valdið óöryggi barna og ungmenna þegar foreldrar segja hluti á skjön við það sem þau gera. Að taka utan um þá sem við elskum er einnig mikilvægt. Hlýtt faðmlag segir meira en mörg orð. Það skortir svolítið á nánd við unga fólkið okkar í dag. Að það fái þessa tilfinningu að fólki þyki vænt um það.“

Þó að Sigurður vinni í kröfuhörðu umhverfi þá segir hann marga foreldra með óþarfa kvíða út af unglingunum sínum. „Við þurfum að muna hvernig var að vera á þessum aldri sjálf. Þegar handleggirnir voru svo langir að þeir gerðu skurði í kringum vegina. Skórnir líktust meira skíðum en skóm og nefið var úr hlutföllum við andlitið. Við höfum öll verið á þessum stað og megum ekki gleyma því að við vorum einu sinni unglingar. Manstu hvað var óþolandi þegar sagt var við okkur hvað allt hefði verið betra hér á árum áður? Sú orðræða á heldur ekki við í dag. Mér er minnistætt eitt sinn þegar ég var að tala við son minn um hvenær ég fæddist og hann spurði mig snöggur upp á lagið: Var það ekki sama ár og Jesús fæddist?“

Sigurður segir að hlutverk ráðgjafa sé oft að starfa sem lífsþjálfari fyrir aðra.

„Við gefum áfram og kennum það sem við höfum lært. Við fáum oft stór og falleg orð sem lýsa þakklæti til okkar. Mér finnst ekki síður mikilvægt að minna fólk á að sigurinn sé þeirra. Það er ekki hægt að kenna fólki neitt nema að það sé á staðnum.“

Fær kitl í magann á leiðinni heim

Sigurður er í góðu hjónabandi með eiginmanni sínum Ragnari Kristinssyni og segist fá kitl í magann í hvert skipti sem hann keyrir heim úr vinnunni og hitti eiginmanninn. „Punkturinn yfir i-ið er ástin í lífinu að mínu mati. Fyrstu tvö árin má allt vera bara gaman, en svo er þetta eins og að reka lítið fyrirtæki. Að viðhalda neistanum og vinna í að það virki.“

Hvaða ráð áttu til þeirra sem langar að upplifa meiri hamingju í samböndum?

„Við Raggi erum duglegir að tala saman og segja hvor öðrum það sem okkur finnst. Við reynum ekki að breyta hvor öðrum, heldur reynum að elska það sem er einkennandi fyrir hvorn okkar. Ég sem dæmi skil alltaf fötin mín eftir óhrein við rúmið á meðan maðurinn minn skilur alltaf skápana eftir opna. Í staðinn fyrir að ég pirri mig á skápunum, þá bara loka ég þeim, líkt og hann hendir fötunum mínum bara í óhreint. Það er kúnst að geta elskað bæði styrkleika hvor annars og bresti. Að kunna að meta maka sinn fyrir hvernig hann er í staðinn fyrir að pirra sig á honum stöðugt. Þetta heitir samkvæmt mínum bókum að elska án skilyrða og grunnvinnan sem maður þarf að fara í til að geta elskað frá þeim stað er að elska sjálfan sig þannig. Maður þarf að vera tilbúinn að treysta og leyfa sér að upplifa. Að vera sterkur með þeim sem maður elskar jafnt sem að fá að vera lítill og kúra. Að vera sannur og maður sjálfur er það sem virkar alltaf best.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem eru með höfuðið fullt af ónýtum hugmyndum?

„Gefðu þér tími til að skrifa niður það sem býr innra með þér. Hausinn á okkur er eins og harður diskur í tölvu. Það þarf að hreinsa út úr honum reglulega svo ekkert láti undan. Að skrifa lítið bréf til þeirra sem við erum að hugsa um. Að vinna með upplýsingarnar sem búa innra með okkur er mikilvægt. Eins er gott að komast út úr því að eiga bágt, vita hver staðan er og vinna sig upp þaðan.“

Sannur vinur í raun

Að lokum segir Sigurður að til að upplifa hamingju í lífinu sé mikilvægt að gera upp fortíðina. Það gengur ekki upp að fara úr sambandi í samband. Ef þú gerir ekki upp þitt síðasta samband, þá tekur þú með þér gamla hluti inn í nýja sambandið. Ef þú treystir ekki fyrrverandi maka þínum, muntu eiga erfitt með að treysta þeim sem þú ert með núna. Það er enginn annar að fara að gera okkur hamingjusöm, við verðum að gera það sjálf fyrir okkur. Eins vil ég mæla með því við alla að velja sér maka en láta ekki velja sig. Meðvirkir í samböndum vita oft ekki af hverju þeir eru í sínum samböndum og finna síðan ekki leiðina út. Þörfin okkar fyrir að vera elskuð og að vera með annarri manneskju getur oft verið ofar þeirri þörf að taka ábyrgð á okkur sjálfum. Ég er ekki þakklátur fyrir að maki minn sé með mér, heldur er ég þakklátur fyrir tímann okkar saman. Við höfum átt margar stundir saman, unnið saman og gert hluti hlið við hlið. Síðan höfum við upplifað meiri fjarlægð þegar hann hefur unnið fjær heimilinu og það sem það gerir er að skerpa á ástinni og auka á tilfinningarnar. Manni hitnar í hjartanu og fær þetta kitl í magann þegar maður fær tækifæri til að sakna líka.“

Hvernig getur fólk vitað að það er með hinum/ hinni einu réttu?

„Með því að vita að þú sért hin/hinn eina/eini rétti í þessu sambandi. Ef þú ert þú og færð að vera sá /sú sem þú ert þá ertu í góðum málum.“

Hvað með foreldra sem þrá að tengjast börnum sínum betur um þessar mundir?

„Farðu stundum úr því að vera foreldri í að vera vinur. Að eiga traust barnsins síns þannig að það geti talað við mann um allt er dýrmætt. Vinátta er oft meira virði en orðin pabbi og mamma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál