Nína Björk kynntist ástinni í barnaafmæli

mbl.is

Nína Björk Gunnarsdóttir hefur starfað sem fyrirsæta, ljósmyndari og fleira sem tengist tísku og hönnun. Henni væri án efa samt best lýst sem athafnakonu. Hún vann hlutastarf á Hjúkrunarheimilinu Mörkinni á Alzheimerdeildinni en hætti þar um áramótin.

„Í dag er ég búin að vera að sækja mér meiri menntun í grafískri miðlun sem er nauðsynlegt fyrir ljósmyndara. Eins ákvað ég að læra barnajóga, en þar liggur áhugasvið mitt mikið í dag. Við Aron erum líka að flytja inn ítalskan marmara og aðra eðalsteina fyrir marmari.is.“

Nína Björk og Aron Karlsson giftu sig þann 1. september árið 2018 í Langholtskirkju.

Kynntust í barnaafmæli

„Ég er búin að þekkja Styrmi Karlsson, bróður Arons, í mörg ár en hafði aldrei hitt Aron sjálfan. Heldur einungis heyrt af honum. Það var síðan í barnaafmæli hjá Styrmi þegar ég hitti Aron í fyrsta skiptið. Um leið og hann labbaði inn um dyrnar í afmælinu tók hjartað mitt kipp og ég fann fyrir þessari ást við fyrstu sýn. Eftir afmælið spurði ég Styrmi hver þessi maður væri eiginlega?

Mörgum mánuðum seinna hringdi Aron og bauð mér í mat. Ekki skemmdi fyrir hversu góður kokkur hann var. Þetta var einstakt kvöld og okkur fannst við hafa alltaf þekkst. Rúmlega einu og hálfu ári seinna vorum við trúlofuð og fjórum árum seinna gift.“

Ljósmynd/Saga Sig

Fjölskyldan í aðalhlutverki

Hverjir voru viðstaddir brúðkaupið?

„Börnin okkar fjögur, ásamt Hirti Magna presti sem gaf okkur saman. Páll Rósinkrans söng nokkur af okkar hugljúfu lögum og organistinn Óskar Einarsson spilaði undir.“

Hvernig var dagurinn?

„Dagurinn byrjaði á að ég fór í hárgreiðslu hjá Rúnu Magdalenu vinkonu minni í Hárgallerý. Alexander Sigfússon kom heim og sá um að farða mig fyrir brúðkaupið. Saga Sig ljósmyndari kom á svipuðum tíma til að mynda undirbúninginn. Við búum á móti Langholtskirkju, þannig að ég labbaði yfir götuna í kirkjuna með Agli Orra syni mínum sem var minn svaramaður. Aron beið í kirkjunni með hinum börnunum, Kristjáni Eldi (sem var hans svaramaður), Ester Regínu og Emblu Örk sem var hringaberi. Eftir athöfnina fallegu beið brúðarbíllinn sem er gamall gylltur Bens og óvæntir gestir sem hentu hrísgrjónum yfir okkur og kysstu okkur í kaf. Teitur Þorkelsson vinur okkar keyrði brúðarbílinn (gullvagninn), þar opnuðum við kampavín og keyrðum niður Laugaveginn. Leiðin lá í stúdíó til þess að taka fleiri myndir, en Saga Sig var búin að fylgja okkur allan daginn. Eftir stúdíóið hittum við börnin okkar á Kolabrautinni inni í Hörpu, borðuðum þar dýrindis mat og nutum kvöldsins saman.“

Aron og Nína Björk á brúðkaupsdaginn sinn.
Aron og Nína Björk á brúðkaupsdaginn sinn. Ljósmynd/Saga Sig

Fóru í brúðkaupsferð til Capri

Daginn eftir brúðkaupið fóru nýgiftu hjónin í brúðkaupsferðina. „Við fórum til Caprí á Ítalíu sem var yndislegt og algjört ævintýri. Capri er svo falleg að ég þurfti stundum að klípa mig, þetta virtist svo óraunverulegt. Maturinn var svakalega góður á Caprí, umhverfið ótrúlega rómantískt og frábær staður til að fara í brúðkaupsferð.“

Hvernig var undirbúningurinn?

„Undirbúningur var með öllu mjög afslappaður. Ég var dugleg að skoða Pinterest þar sem ég fékk allskonar flottar hugmyndir þar. Ég keypti kjólinn minn á netinu á fallegri brúðkaupssíðu. Kjóllinn smellpassaði og ég er svo ánægð með hann. Hann er í anda sjöunda áratugarins, stuttur með fallegum ermum og með kvenlegu sniði. Ég valdi slör sem var stutt og passaði síddinni á kjólnum. Aron valdi flauels-blazer í búrgundý-rauðum lit sem passaði afar vel við fallega vöndinn minn sem blómabúðin 4 Árstíðir gerðu fyrir mig. Börnin völdu sér sín föt þannig að allir yrðu fallegir og fínir á stóra deginum okkar. Giftingarhringarnir voru keyptir erlendis. Báðir hringarnir eru úr hvítagulli, en minn er með demanti.“

Nína Björk ásamt frumburði sínum.
Nína Björk ásamt frumburði sínum. Ljósmynd/Saga Sig

Góð orka á brúðkaupsdaginn

Hvað stendur upp úr?

„Hvað dagurinn var fallegur. Eins hvað allir voru glaðir. Það var ekkert stress, heldur góð orka, þar sem allir fengu að njóta sín. Myndatakan var frábær og valdi ég Sögu Sig því hún þekkir mig og veit hvað ég vil. Ég var búin að setja saman „look book“ þannig að þemað var ákveðið fyrirfram. Það skiptir miklu máli að nærveran sé þægileg í myndatökunni, þannig verður maður eðlilegur og útkoman góð.“

Þegar Nína og Aron kynntust fyrir fjórum árum, áttu þau tvö börn hvort. Hvernig gekk að sameina svona stóra fjölskyldu?

„Við reynum að hittast og borða saman eins oft og mögulegt er. Þá erum við öll saman og tölum og heyrum hvað öllum liggur á hjarta. Við höfum farið oft í ferðalög með börnunum innanlands sem og utan. En ferðalög eru einna best fallin til þess að þétta hópinn. Strákarnir eiga það sameiginlegt að halda með sömu liðunum í enska og íslenska boltanum og hittast oft til að horfa á leiki og stelpurnar koma stundum með. Elstu börnin eru 22, 18 og 15 ára og eru öll mjög upptekin í lífinu eins og er hjá flestum í dag.“

Ljósmynd/Saga Sig

Að vera stjúpforeldri er flókið hlutverk

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem eru í ykkar sporum?

„Ég held það sé mjög mikilvægt að hafa það í huga að það kemur enginn í staðinn fyrir foreldrana og að vera stjúpforeldri getur verið flókið hlutverk. Við eigum að vera til staðar fyrir þau og vera góðir vinir. Alls ekki að reyna of mikið strax, heldur að leyfa börnunum að hafa þetta á sínum hraða, sérstaklega þegar þau eru orðin svona stálpuð þá hafa þau sínar skoðanir á hlutunum, geta farið í mótþróa og þannig geta breytingarnar farið illa í þau. Embla var ung þegar hún kynntist Aroni svo hún horfir á hann sem pabba þó svo hún viti hver er faðir hennar og fari til hans aðra hverja helgi. Ég er mikil mamma í mér og eru börnin mín afar mikilvæg og tek ég móðurhlutverkinu alvarlega. Ég vil gefa þeim mikla ást, hvatningu og ýti undir styrkleika þeirra og vil alltaf vera til staðar fyrir þau. Eins tala ég mikið við börnin. Ég veit að stjúpbörnin mín vita að mér þykir afskaplega vænt um þau og vil vera til staðar, en svo fer þetta í báðar áttir með samskipti, allir þurfa að leggja sitt af mörkum.“

Nína Björk segist án efa aldrei munu gleyma þegar stjúpsonur hennar þakkaði henni fyrir að gera pabba sinn svona hamingjusaman.

„Það er fátt fallegra en að fá svona orð til sín. Mér þótti ótrúlega vænt um þetta. Ég held að við séum öll að gera okkar besta og mikilvægt að börnin finni fyrir ást, væntumþykju og að þau séu velkomin. Það er ekkert verra en að setja reiði, gremju, biturleika og afbrýðisemi yfir á börnin. Börn stjórna ekki aðstæðunum. Glaðir foreldrar gera börnin sín glöð að mínu mati.“

Hvað myndir þú segja að væri mikilvægast varðandi brúðkaup?

„Númer eitt, tvö og þrjú að gera hlutina á sínum forsendum. Brúðkaupsdagurinn á að vera fallegur, góður og skemmtilegur. Ég hvet alla til að muna að þetta er þeirra dagur!“

Ljósmynd/Saga Sig

Fallegar ljósmyndir geyma daginn

Hvernig er að vera gift kona?

„Að finna lífsförunaut og sálufélaga er góð tilfinning. Ég er á þeirri skoðun að þegar maður tekur svona stóra ákvörðun þarf maður að vera duglegur að rækta ástina. Ég líki hjónabandi við blóm sem þarf að vökva og rækta, annars þornar það upp og deyr. Ég vitna í Hjört Magna prest þegar hann gaf okkur saman, þá sagði hann við okkur að blómin yxu ekki hvort í skugga annars, við þurfum frelsi til þess að vera einstaklingar. Ég mæli með að fara alltaf sátt að sofa og bera virðingu hvort fyrir öðru.“

Nína Björk segir að besta ráðið sem hún gæti gefið þeim sem eru að fara að gifta sig sé að brúðhjón muni að setja fókusinn á sig. „Ekki reyna að þóknast öðrum, heldur setjið kraftana í að gera það sem ykkur finnst skipta máli. Eins mæli ég með að flækja ekki hlutina. Við lögðum mest upp úr því að eiga sem bestu minningarnar frá brúðkaupsdeginum. Í okkar huga var það samvera okkar og barnanna og fallegar ljósmyndir, sem geyma daginn fyrir okkur.“

Ljósmynd/Saga Sig
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál