Kynntust á trúnó og ætla sér stóra hluti

Agnes Kristjónsdóttir og Rebekka Austmann.
Agnes Kristjónsdóttir og Rebekka Austmann. Ljósmynd/Amalía Arnþórsdóttir

Agnes Kristjónsdóttir einkaþjálfari og söngkona stofnaði nýlega fyrirtækið VoR Austamann & Agnes ásamt Rebekku Austmann. Báðar hafa þær verið áberandi í heimi lista og menningar og nú sameina þær krafta sína á heillandi hátt en hvernig kynntust þær eiginlega?

„Við tengjumst gegnum sömu fjölskyldu; höfum rekist hvor á aðra í gegnum tíðina í kringum listalífið, leikhúsið og tónleikahald og svona á röltinu. Svo hittumst við út í Flatey um sumar; fórum á trúnó um lífið og tilveruna og kynntumst vel. Ég hef fylgst með Rebekku og er mjög hrifin af hennar vinnu í kringum leikmynda- og búningahönnun og ævintýralega flottum og frumlegum hlutum sem húnn hefur gert. Hún er Concept Designer og hefur verið með útlit og sviðshönnun fyrir stórstjörnurnar okkar Frostrósir, Siggu Beinteins, Grétu Salóme, Eyþór Inga, Jóhönnu Guðrúnu, Eivöru og marga fleiri. Hannað leikmynd og búninga fyrir leikhúsin, kvikmyndir, þætti, auglýsingar, ráðstefnur, árshátíðir og fyrir heimili bæði hérlendis og erlendis. Þannig að þegar við komum báðar hvor úr sinni áttinni að vinnu við veislu hér í bæ, fæddist sú hugmynd að  sameina vit okkar og krafta,“ segir Agnes sem einnig hefur komið að skiplagningu menningarviðburða eins og Menningarnótt í Landsbankanum, verið sýningarstjóri á Eddunni, leiksýningu Eddu Björgvins í Gamla bíói, auk þess að hafa sem söngvari og dansari verið á sviðinu í stóru leikhúsunum og hjá Íslensku óperunni, haldið tónleika með ýmsum hópum, skipulagt veislur og viðburði í gegnum tíðina.

„Jiii það er búið að vera spennandi að hitta Agnesi í gegnum tíðina, alltaf svo mikill gleði, maður hefur bara svona horft á úr fjarlægð, dáðst að hæfileikum hennar og dugnaði, svo ekki sé minnst á hennar einstöku fallegu lífssýn og smitandi lífgleði. Það er kjarninn í VoR,“ segir Rebekka. 

VoR sérhæfir sig í viðburðum og ráðgjöf. 

„Okkur fannst kjörið að hafa nöfnin okkar Austmann & Agnes með, svona rétt eins og Silli og Valdi, þekkt fyrirtæki hér í bæ á árum áður. Dálítið Old School. Ráðgjöfin kemur inn í þetta þar sem að við höfum báðar reynslu af þannig vinnu, ég m.a. í starfi mínu sem einkaþjálfari með lífsstílsráðgjöf og Rebekka sem stundakennari hjá LHÍ og námskeiðshaldari og með Heimasýn þar sem hún fer inn á heimili og ráðleggur og hannar. Við erum auk þess báðar markþjálfar og Rebekka er að ná sér í alþjóðleg réttindi. Stundum vill fólk aðeins þá þjónustu að fá nokkur góð ráð eða yfirhalningu,“ segir Agnes. 

Hún segir að þær taki að sér skipulagagninu á brúðkaupum, árshátíðum ásamt stórum og smáum veislum í sveit eða borg. Einnig hafa þær skipulagt ráðstefnur og tónleika svo eitthvað sé nefnt. 

„Einnig höfum við komið að yfirhalningu og breytingum á fyrirtækjum, í rýmum starfsfólksins og með starfsfólkinu. Okkar sterkasta vopn er áralöng reynsla, mjög gott tengslanet og áhugi á að skapa eftirminnilegt andrúmsloft sem enginn gleymir. Það er næstum ekkert sem við getum ekki komið í framkvæmd. Við leggjum ríka áherslu á að heyra hvað það er sem kúnninn vill og elskum að koma með frumlegar og ævintýralega skemmtilegar hugmyndir sem þurfa alls ekki að vera flóknar eða rándýrar,“ segir Rebekka sem hefur aldeilis reynsluna úr heimi leikhússins og kvikmynda og bætir við: 

„Mitt dálæti er að skipuleggja giftinga- og/eða brúðkaupsveislur sem og stórafmæli enda var mitt eigið brúðkaup í fyrrasumar einmitt þannig; gifting langt úti á ballarhafi á bát með nánustu vinum og vandamönnum. Eftir athöfnina sigldi báturinn Rósin að bryggju hjá Marshall-húsinu þar sem dýrindismatur og falleg brúðkaupsterta beið okkar. Alveg ógleymanlegt,“ rifjar Rebekka upp.

-Hver er hugmyndin á bak við fyrirtækið?

„Fyrst og fremst að auðvelda líf viðskiptavinarins með þau mál sem hann kemur með til okkar. Nota reynslu og úræðasemi okkar og virkja hæfileikaríkt fólk sem er í kringum okkur sem við höfum kynnst í ólíkum verkefnum okkar. Að virkja hugmyndir, hugmyndaflæði og koma þeim á rétta braut, í réttan farveg og á rétta staði,“ segir Agnes. 

Síðustu ár hefur Agnes verið vinsæll einkaþjálfari í World Class. Hún segir að vinnan fyrir VoR smellpassi við þá vinnu.

„Þetta fer vel saman með einkaþjálfuninni. Flestir kúnnarnir mínir vilja æfa snemma morguns þannig að ég klára þjálfunina fyrri partinn en ég kenni hjá World Class á Seltjarnarnesi og í Smáralind. Vinnan hjá okkur Rebekku fer meira fram eftir hádegi, á kvöldin og um helgar.  Hreyfing hefur alltaf verið sterkt element hjá mér en einnig að lifa og hrærast í alls konar listum, plana og plögga, tengjast og tengja fólk. Ég elska að „múltítaska“, vera í hugmyndavinnu, láta draumana rætast, skapa eftirminnilegar stundir, gleðja aðra, hjálpa fólki að blómstra og hafa gaman af lífinu,“ segir Agnes

Rebekka er nýbúin að leikstýra verki Inter-mission í Prag í Tékklandi með leikhópnum Secondhand Women en það er fimm kvenna leikhópur sem starfar á alþjóðlegum vetvangi. 

„Ég hef unnið með þeim í þrettán ár sem hönnuður og leikstjóri. Svo vorum við Stefania Thors sem vinnur með okkur Agnesi hjá VoR að klára að gera upp ofurtöff íbúð hennar og Helga Svavars sem var fjallað um á Smartlandi á dögunum. Við spáðum mikið í liti og lita samsetningar og varð úr að við blönduðum nýja liti fyrir allt heimilið og gáfum þeim ný nöfn,“ segir hún. 

„Nú erum við í VoR í miðju heimasýnarverkefni. Mætum  heim til fólks og vinnum í sameiningu með heimilisfólkinu að breytingum. Um er að ræða fallegt hús sem var byggt 1969 sem er í yfirhalningu hjá okkur. Það vantaði að koma heimilinu í meiri ró og jafnvægi. Við erum að umbreyta allri uppröðun á húsgögnum og húsmunum í  herbergjum hússins; kveðja það sem má missa sín, gefa því jafnvel sjéns á nýjum staðsetningum. Allt verður svo miklu fallegra fyrir vikið og allir fá að njóta sín meira, bæði heimilisfólkið og húsmunirnir,“ segir Rebekka.

Þegar Agnes og Rebekka eru spurðar út í hvernig teiti þær séu að skipuleggja þessa dagana kemur í ljós að þær ganga alltaf skrefinu lengra. 

„Það er vorpartý þar sem gestirnir fara í borgarferðalag á þrjá staði í Reykjavík. Þeir eru fluttir á milli í fornbílum á undurfallega staði þar sem tekið verður á móti þeim með veitingum og sérsniðnum skemmtiatriðum. Hver og einn staður er afar ólíkur þar sem við vinnum með að ýfa upp sérkenni staðarins og búa til nýja víddir og landslag. Við notum töfra leikhússins til þess að koma gestunum á óvart með upplifanir og skynjanir. En við leggjum mikið upp úr því að veislurnar séu það sem við köllum allsherjarskynjunargleðiskemmtun,“ segir Rebekka.

-Hvað finnst ykkur þurfa að vera í góðu teiti?

„Það þarf að taka vel á móti gestunum þegar þeir koma í hús, góð tónlist er mikið atriði og skemmtilegt að blanda saman lifandi tónlist og plötusnúður sem les vel í hópinn. Svo er alltaf gaman ef það er dansað. Það verða að vera girnilegar veitingar, eitthvað fyrir alla og veitingarnar verða að vera litríkar og fallegar. Tímasetningarnar skipta miklu máli og oft er gaman að brjóta upp samkvæmi með óvæntu skemmtiatriði; en við hjá VoR erum einmitt með langan lista yfir alls kyns listafólk; bæði klassísk atriði en einnig óvænt eins og einn sem eldar á risa paellupönnum, ástríðufull dans- og tónlistaratriði en einnig atriði þar sem gestir taka þátt, uppistand og fleira. Það er ótrúlegt hvað það er mikið til af skemmtilegum atriðum til að krydda veisluna. Þema er líka alltaf svo gefandi til að skapa „rétta“ andrúmsloftið en aðalatriðið er að heyra hvað kúnninn vill þannig að hann sé ánægður með veisluna sína hvort sem hún er klassísk og elegant eða ævintýraleg og frumleg,“ segir Agnes

-Hvað er á döfinni hjá ykkur?

„Við erum að vinna með Stefaníu Thors í að taka stærðar húsnæði í gegn úti á Granda en þar var áður netagerð. Þar verður opið vinnurými fyrir ólíka skapandi starfsemi. Síðan tekur við röð af veislum í sumar, bæði hjá fyrirtækjum og einkaaðilum, brúðkaup, giftingar og fleiri heimasýnir,“ segir Rebekka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál