Skammarlega fáum boðið í skírn Archie

Guðný Ósk Laxdal skrifaði lokaritgerð um bresku konungsfjölskylduna.
Guðný Ósk Laxdal skrifaði lokaritgerð um bresku konungsfjölskylduna. mb.is/Eggert Jóhannesson

„Í fyrradag var send út tilkynning frá Buckinghamhöll um skírn Archie Harrison Mountbatten-Windsor, son Harry og Meghan. Skírnin verður haldin næsta laugardag, 6. júlí, en það er tveimur mánuðum eftir að Archie fæddist. Margir bíða spenntir eftir skírninni, en þá munu loksins koma fleiri myndir af nýjasta meðlimi konungsfjölskyldunnar. Skírnir verða oft til þess að við fáum flottar fjölskyldumyndir eins og þessa frá skírn Lúðvíks prins í fyrra,“ segir Guðný Ósk Laxdal í sínum nýjasta pistli en hún skrifaði lokaritgerð um bresku konungsfjölskylduna:

Skírn Archie mun vera frekar lítil og fara fram í kapellu í Windsor kastala þar sem um 25 gestir munu vera viðstaddir. Hertogahjónin af Cambrigde, Katrín og Vilhjálmur munu vera viðstödd, ásamt Karli Bretaprins og Kamillu, og móður Meghan, Doria Ragland. Elísabet drottning mun ekki mæta en ástæðan mun vera sú að hún sé með annað planað. Elísabet var ekki viðstödd skírn Lúðvíks prins í fyrra, yngsta sonar Vilhjálms og Katrínu, af sömu ástæðu.
Í tilkynningunni í gær kemur fram að hertogahjónin séu spennt fyrir því að deila myndum frá viðburðinum sem verða teknar af ljósmyndaranum Chris Allerton, sem tók brúðkaupsmyndirnar fyrir Harry og Meghan. Munu því Harry og Meghan hafa fulla stjórn á hvaða myndir verða notaðar í fjölmiðlum. Fjölmiðlar munu ekki hafa neinn aðgang að viðburðinum, en vani er fyrir því að hægt sé að mynda gesti koma og fara frá skírnum. Þegar Karlotta prinsessa var skírð var almenningi einnig leyft að fylgjast með gestum koma og fara.

Það sem er áhugaverðast við tilkynninguna er að það verður ekki gefið upp hverjir eru guðforeldrar Archie. Stendur í tilkynningunni að það sé gert eftir óskum þeirra sem eru að taka að sér guðforeldrahlutverkið. Bresk konungleg börn fá oftast 5-7 guðforeldra og er ávallt gefið út hverjir það eru en það eru oft nánir vinir foreldranna. Í þessu tilviki má áætla að einhverjir guðforeldranna séu einhverjir af stjörnuvinum Meghan, sem þau vilja halda leyndu. Af hverju samt er spurningin. Sérstaklega þar sem hverjir eru guðforeldrar mun vera skráð á skírnarvottorð Archie, sem mun verða hluti af opinberum skjölum sem fjölmiðlar og almenningur getur seinna nálgast. Verður ekki langt þar til það verður ljóst um hverja er að ræða. Að koma með tilkynningu um að það verði ekki tilkynnt hverjir eru guðforeldrar er því frekar undarlegt.

Þetta er eitt af mörgu sem Harry og Meghan eru að gera öðruvísi sem er að fara illa ofan í fjölmiðla. Á Twitter hefur umræða komið upp að þessi tilkynning þeirra sé að búa til meiri vandræði fyrir þau en ef að þau myndu gefa út hverjir guðforeldrarnir eru. Þau eru í raun að fá fjölmiðla frekar upp á móti sér. Enda eru þetta upplýsingar sem munu aðeins vera leyndar í nokkra daga og er bara verið að gera fjölmiðlum erfiðara fyrir. Vilja fjölmiðlar í Bretlandi meina að Harry og Meghan séu að neita almenningi um rétt þeirra til að fylgjast með konungsfjölskyldunni, en Harry og Meghan er á því að þau séu að vernda barn sitt.

Þessi togstreita er erfið, en konungsfjölskyldan hefur oft átt í erfiðu sambandi við fjölmiðla. Harry og Meghan hafa að sjálfsögðu fullan rétt á að halda lífi Archie frá almenningi, enda ber hann engan konunglegan titil og hefur því engar konunglegar skyldur. Nafnið hans gefur skýrt til kynna að þau vilja að hann muni lifa sem eðlilegur breskur borgari og að hann muni geta valið hvað hann vilji gera í framtíðinni. Þó mun drengurinn fá titilinn prins þegar Karl verður konungur, sem barnabarn konungsins, nema að hann sjálfur eða foreldrar hans óski eftir öðru. 

Harry og Meghan hafa eflaust góðar ástæður fyrir sínum ákvörðunum, en það er leiðinlegt að sjá svona neikvætt umtal varðandi gleðiviðburð eins og skírn, og er erfitt að hunsa þá staðreynd að það hefði verið auðvelt að forðast þetta umtal með því að gefa bara út hverjir guðforeldrarnir eru. Þrátt fyrir umtalið mun þetta eflaust verða gleðidagur fyrir fjölskylduna og við munum fá að sjá flottar myndir af þeim Harry, Meghan og Archie. Vonandi koma myndir með fleiri fjölskyldumeðlimum, jafnvel af Cambridge-krökkunum og Archie saman.

mbl.is