Ástæðan af hverju Parton klæðist langerma

Dolly Parton er alltaf í flíkum með löngum ermum.
Dolly Parton er alltaf í flíkum með löngum ermum. mbl.is/AFP

Tónlistarkonan Dollly Parton klæðist ávallt langerma, hvar sem hún kemur fram. Ástæðan er sú að handleggir Parton eru húðflúraðir.

Merkilega hefur húðflúr hennar eiginlega aldrei sést opinberlega, enda felur Parton það rækilega. Árið 2006 sást dauflega í það í gegnum blússu sem hún klæddist í 9 to 5 partýi með Jane Fonda og Lily Tomlin. 

Eftir það þurftu aðdáendur að bíða í 6 ár til að sjá sýnishorn af húðflúrinu. Þá var Parton stödd á forsýningu kvikmyndarinnar Joyful Noice. Þá beygði tónlistarkonan sig aðeins of langt niður og mátti sjá glytta í rós á brjóstkassa hennar. Hún neitaði að ræða húðflúrið í viðtali eftir það. 

Nokkrar vinkonur Parton segja að þær hafi fengið að sjá húðflúr hennar. Grínleikkonan Roseanne Barr sagði í viðtali árið 2011 að Parton hafi sýnt henni flúrið. Hún sagði að þau væru öll í fallegum pastel litum og engar svartar eða bláar línur.

Leikkonan Jennifer Saunders staðfesti einnig tilvist húðflúrsins í sjálfsævisögu sinni. Hún sagði að Parton hafi sýnt henni húðflúrið á veitingastað. Saunder segir að Parton hafi beðið hana að leysa ekki frá skjóðunni, en hún virðist ekki hafa staðist mátið.

Árið 2017 staðfesti Parton svo sjálf sögusagnirnar um húðflúrið í viðtali við Vanity Fair. „Ég vil ekki gera mikið mál úr þeim, því fólk gerir alltaf úlfalda úr mýflugu. Þegar ég fékk mér fyrsta húðflúrið fékk ég mér það til að fela ör,“ sagði Parton.

„Þannig mín eru öll pastel, þau fáu sem ég er með, og ég er með þau til að fela ör. Ég er ekki að reyna að vera með stóra yfirlýsingu um neitt,“ bætti Parton við.

Dolly er með húðflúr.
Dolly er með húðflúr. AFP
mbl.is