„Ég var stressuð og sveitt í lófunum“

Ágústa Eva Erlendsdóttir leikkona.
Ágústa Eva Erlendsdóttir leikkona. mbl.is/Karl R. Lilliendahl

Leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir er stödd í Osló í Noregi þessa stundina þar sem sjónvarpsþátturinn Beforeigners var frumsýndur í gær. Ágústa Eva klæddi sig upp fyrir rauða dregilinn og segir hún að þetta sé hennar fyrsta gala-frumsýning. 

„Það er akkúrat ár síðan við byrjuðum að filma þannig að þetta hefur verið unnið fljótt og vel. Þetta er svo stórt og viðamikið verkefni og mikil pressa því þetta er HBO,“ segir hún og játar að það sé að sjálfsögðu ánægjulegt að verkefnið sé tilbúið en þetta sé líka stressandi að frumsýna svona þótt gleðin sé í forgrunni.

„Þetta er fyrsta gala- rauðadregils frumsýningin mín og ég var vel stressuð, sveitt í lófunum yfir öllum þessum myndatökum og fjölmiðlum og umstangi. En það var geggjað að hitta alla þessa frábæru leikara og fólk og fá að knúsa þau öll aftur.

Í svona verkefnum þá skapast einskonar fjölskyldustemmning og fólk bindist ákveðnum böndum. Þannig að ég upplifði svolítið eins og ég væri að hitta familíuna aftur,“ segir hún og hlær.

Hún segir að sumir fjölmiðlar ytra hafi fengið að sjá fyrstu fimm þættina. 

„Viðbrögðin hafa farið fram úr öllum eðlilegum væntingum. Við höfum fengið nánast fullt hús og umfjöllunin hefur verið stórkostleg. Þetta virðist vera að hitta fólk mjög vel. Það er búið að vera mjög skipulagt fjölmiðlastreymi á okkur hérna dagana að frumsýningunni. Fólk er bæði hugfangið og forvitið um þættina og það er vissulega búið að vera áskorun að svara fyrir þessa flóknu sögu og allt sem í henni er. Því handritið er þykkt og mikið um nýja og ferskar aðferðir í handritagerð og þáttagerð yfir höfuð,“ segir hún. 

Síðasta vika hefur því verið uppfull af fundum, matarboðum og svo endaði þetta allt á rauða dreglinum en frumsýningin fór fram í Colosseum, sem er langstærsta bíóhúsið á norðurlöndunum og þykir fínasti staðurinn í Noregi til að frumsýna á. 

„Það er mjog sérstakt að fá að frumsýna þar,“ segir hún. 

Ágústa Eva klæddi sig upp fyrir frumsýninguna og þegar hún er spurð út í kjólinn kemur í ljós að hún gerir öll sín helstu fatakaup í Breiðholtinu. 

„Ég klæddist kjól frá Prinsessunni í Mjódd. Ég fer oft þangað ef mig vantar fatnað fyrir einhver glæsidæmi eins og tónleika og jólin og svona,“ segir hún. 

Ágústa Eva Erlendsdóttir og Krista Erika Kosonen á rauða dreglinum.
Ágústa Eva Erlendsdóttir og Krista Erika Kosonen á rauða dreglinum.
mbl.is