Harry prins svarar fyrir sig

Guðný Ósk Laxdal fylgist grannt með Harry og hinum í …
Guðný Ósk Laxdal fylgist grannt með Harry og hinum í konungsfjölskyldunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Harry prins hefur verið mikið gagnrýndur undanfarið fyrir að ferðast um á einkaþotu í sumar og svaraði loksins fyrir það síðastliðinn þriðjudag. Breski prinsinn hefur verið mikill talsmaður umhverfismála undanfarið og nefndi t.d. í viðtali á dögunum að þau Meghan ætluðu sér bara að eignast tvö börn af umhverfisástæðum,“ skrifar Guðný Ósk Lax­dal í sín­um nýj­asta pistli á Smartlandi um bresku konungsfjölskylduna:

„Harry var í vikunni staddur í Amsterdam að kynna nýtt samvinnuverkefni sem hann hefur verið að vinna að sem snýst um að hjálpa ferðamálaiðnaðinum að verða sjálfbærari. Verkefnið nefnist Travalyst og er unnið af stórum ferðafyrirtækjum eins og t.d. Booking.com og TripAdvisor. Verkefnið er fyrsta stóra verkefnið sem Sussex-góðgerðarsjóðurinn styrkir en Harry og Meghan stofnuðu þann sjóð eftir að hafa sagt skilið við sameiginlegan sjóð sem þau áttu með hertogahjónunum af Cambridge, Vilhjálmi og Katrínu. Hvað verkefnið samt nákvæmlega gerir er en nokkuð óljóst en verður áhugavert að fylgjast með því í framtíðinni.

Harry kynnti verkefnið nefnist Travalyst í Amsterdam.
Harry kynnti verkefnið nefnist Travalyst í Amsterdam. mbl.is/AFP

Á kynningarfundinum var Harry eðlilega spurður út í sín eigin ferðalög og þá gagnrýni að hann notist mikið við einkaþotur, en hann mætti t.d. á einkaþotu á loftlagsráðstefnu í sumar. Svar Harrys var einfalt; hann segist notast mikið við almennt farþegaflug og reyni það eftir bestu getu, en þegar fjölskyldan sé annars vegar séu ákveðin öryggisatriði sem þurfi að uppfylla og þau verði þá að notast við einkaþotur. Viðurkenndi Harry að það að vera umhverfisvænn væri ekki alltaf auðvelt og enginn væri fullkominn í þeim efnum. Nefndi hann þennan sama punkt í ræðu sinni um verkefnið og ferðamálaiðnaðinn.

Harry var mjög rólegur í svari sínu og telja margir að hann hafið talað af mikilli fullvissu og var málið ekki rætt meira eftir svar hans. Svarið er nokkuð gott og án efa búið að undirbúa það vel, enda málið lengi verið milli tannanna á fólki. Hægt er að sjá svar hans hér fyrir neðan.

Kóngafólk og flug hefur verið talsvert rætt undanfarið en Vilhjálmur og Katrín sáust í seinasta mánuði notast við almennt farþegaflug með börnunum sínum þegar þau flugu til Skotlands að heimsækja Elísabetu drottningu í Balmoral. Var þetta um svipað leyti og Meghan og Harry notuðust við einkaþotur. Erfitt er þó að bera ferðalögin saman; Cambridge-fjölskyldan var að fara í stutt flug innan Bretlands en Harry og Meghan ferðast langar leiðir milli landa með Archie aðeins nokkurra mánaða.

Ferðalög konungsfjölskyldunnar eru skipulögð langt fram í tímann og margt sem þarf að hafa í huga þegar kemur að þeim. Öryggi er stór hluti sem og hver borgar fyrir ferðalagið. Sem dæmi þá flugu Harry og Meghan á almennu farrými þegar þau flugu milli Ástralíu og Nýja-Sjálands í fyrra í opinberri heimsókn, en þá var það ríkisstjórn Nýja-Sjálands sem borgaði flugið. Þegar þau notuðust við einkaþotu í sumar til að fara til Frakklands var það Elton John sem bauð þeim sína þotu og borgaði brúsann. Samt sem áður hafa ferðalög hertogahjónanna af Sussex komið illa út fyrir þau í sumar og hafa þau sjálf lítið svarað þessari gagnrýni og var flott að sjá Harry loksins tækla þetta mál.

mbl.is