Hjónabandsráðgjafinn sem náði ekki að bjarga eigin hjónabandi

Sólveig Guðmundsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Sólveig Jónsdóttir eru á …
Sólveig Guðmundsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Sólveig Jónsdóttir eru á því að konur hafi samið af sér í allri baráttu sinni fyrir jöfnum kjörum á vinnumarkaðnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Það virðast margir tengja við Pabbahelgar, nýja þáttaröð Nönnu Kristínar Magnúsdóttur á RÚV þessa dagana.  Sjónvarpsþættirnir segja dæmigerða sögu vísitölufjölskyldunnar sem missir taktinn í lífsins ólgu sjó. Í þáttunum er ráðagóða, ósérhlífna eiginkonan Karen. Fallegi eiginmaður hennar Matti og börnin þeirra þrjú. Vinir og vandamenn reyna að stíga ölduna með hjónakornunum, eftir að skipið þeirra lendir á skeri. Þar á meðal er Pála besta vinkona Karenar, sem bendir svo eftirminnilega á í upphafi sjónvarpsefnisins að allt við sorglegt framhjáhald sem Matti „lendir” í sé einkennilegt. Jafnvel nafn viðhaldsins hljómar illa – Anna Júlía – hver er skírð þannig nafni?

Sagan um Karen er að mati framleiðanda sagan um konuna …
Sagan um Karen er að mati framleiðanda sagan um konuna sem samdi af sér. Ljósmynd/Pabbahelgar

Þær Nanna Kristín Magnúsdóttir sem fer með hlutverk Karenar, sem og Sólveig Guðmundsdóttir sem fer með hlutverk Pálu og Sólveig Jónsdóttir sem kemur að handritsgerð sögunnar eru sammála um að sjónvarpþættirnir segi sögu sem mikilvægt er að segja í dag. Sögu konunnar sem samdi af sér og gerir of mikið. Sögu sem dætur okkar og jafnvel synir ættu að spegla sig í og velta fyrir sér hvernig væri hægt að gera aðeins öðruvísi um ókomna tíð.

Hefur fengið sterk viðbrögð við framhjáhaldinu

„Markhópur þáttaraðanna áttu í fyrstu að vera konur upp úr þrítugt. Viðtökurnar hafa verið framar mínum björtustu vonum og sýna að þættirnir eiga erindi við fleiri en ég hélt að ég væri að skrifa fyrir,“ segir Nanna Kristín og bætir við að það hafi komið henni á óvart hversu jákvæð viðbrögðin hafa verið. 

„Karlar jafnt sem konur eru að tengja við húmorinn. Að sjálfsögðu eru ólíkir einstaklingar að tengja við ólíka hluti. Sumir sjá stóra samhengið á meðan aðrir tengja við litlu hlutina. Sem dæmi eru margir að tengja við atriðið þegar Karen gleymdi skottinu af búningi yngsta barnsins heima. Eins þekkja fjölmargir þá stöðu að fara af stað inn í pabbahelgarnar, með eitt sett af öllu - einn bílstól fyrir barnið, íþróttaskó eða allt það sem fylgir frístundum. Skiljanlega er ekki hægt að eiga tvö pör af öllu sem börnin þurfa, þó að þau eigi tvö heimili. Ég hef fengið sterk viðbrögð við framhjáhaldinu og hjónabandsráðgjöfinni, en einnig þessum litlu hlutum.“

Er ekki helmingur hjónabanda að enda með skilnaði?

„Jú skilnaðartíðnin á Íslandi er mjög há, í kringum 40%. Skilnaðir eru auðvitað jafn ólíkir og þeir eru margir, ástæða þeirra og afleiðingar á alla í kring. En ég held að þetta ferli sé alltaf flókið þó svo að fólk skilji í góðu eins og sagt er. Það er ekki aðeins það „praktíska“ sem þarf að græja og gera heldur líka að fást við tilfinningarússíbanann. Það eru engin rétt eða röng viðbrögð í þessum aðstæðum og reiðin, sárindin eða hvaða tilfinning sem maður kannski bælir niður geta komið fram löngu seinna. Mér þótti vænt um að heyra frá  karlkyns-áhorfanda hversu mikið hann kunni að meta að sjá ekki einfaldaða útfærslu á viðbrögðum konu við framhjáhaldi. Í lok fyrsta þáttar veit Karen ekki í hvorn fótinn hún á að stíga þegar Matti vill vera góður við hana og tekur utan um hana. Í stað þess að berja hann með pönnu, eins og henni hefur kannski mest langað til að gera þá leyfir hún honum að taka utan um sig. Hún kaus reyndar að bíta hann. Hún hafði einfaldlega ekki getu í meira en dýrslegt bit,“ segir Nanna Kristín og hlær.

Sólveig Jónsdóttir sem kom að handritsgerð með Nönnu Kristínu segir að það sem hún hafi tengt við sjálf hvað mest og hafi heyrt að aðrar mæður tengja við eru þau fjölmörgu verkefni sem fylgja því að eiga börn.  

„Meðvirkni getur verið svo allt umlykjandi í móðurhlutverkinu. Maður er ekki endilega meðvirkur með börnum sínum, en það eru ótal hlutir sem þarf að fara í gegnum þegar maður eignast börn og er uppalandi. Hjá mjög mörgum eru börnin algjörlega í forgangi, nokkuð sem kemur svo einlæglega fram í þáttunum þegar Karen hlýðir elsta barninu yfir fyrir fermingafræðsluna, kemur yngsta barninu sínu í búning á sama tíma á meðan hún gengur úr skugga um að nestið sé í topplagi, keyrir þau í skóla, kemur sjálfri sér í vinnuna og endar svo á því að mála sig í bílnum. Í svona hröðu og krefjandi lífsmynstri má alltaf búast við því að hlutirnir fari í einhverskonar þrot. Hvort heldur sem er konan sjálf, vinnan nú eða hjónabandið.“

Við konur höfum samið af okkur

Þó ábyrgð okkar kvenna sé okkar í dag er áhugavert að velta fyrir sér í þessu samhengi hvernig formæður okkar horfa á okkur í dag? Þær sem ruddu brautina fyrir okkur tengt jafnrétti kynjanna og aukinni þátttöku okkar á vinnumarkaðnum. Þær sem kenndu okkur að við gætum allt. Unnið, þvegið þvottinn, eldað og hugsað um okkur sjálfar og aðra.

„Við konur höfum samið af okkur. Við erum komnar út á vinnumarkaðinn, en við erum líka með allt hitt. Berum uppi andlega velferð allra á heimilinu, erum framkvæmdastjórar heimilisins, vinnum úti og svo mætti lengi áfram telja. Ég held að þetta hafi ekki verið samningurinn sem mæður okkar höfðu í huga fyrir okkur þegar þær fóru af stað með réttindabaráttuna á sínum tíma,“ segir Sólveig Guðmundsdóttir og bætir við að hún sé ekki eins vel inn í þáttunum og hinar tvær þar sem hún er ekki í öllum atriðum.

„Svo ég upplifði þennan sting sem ég heyri að margar aðrar konur eru að fá í samfélaginu þegar þær horfa á Pabbahelgar. Þegar þær sjá sig í hlutverki Karenar að stíga inn í öll hlutverk. Jafnvel þau sem hún er ekki beðin um að fara í.“

Hvernig datt þér í hug Nanna Kristín að skrifa þessa þætti fyrir sjö árum?

„Í fyrstu snérist þetta um Karen og persónuleika hennar. Mig langaði að skrifa sögu venjulegrar konu sem er að fást við hversdagslega hluti sem aðrar konur gætu tengt við. Skrifa um hvernig hún reynir að lifa daginn af, vikuna og mánuðinn. Næsta skref var þá að skapa heiminn í kringum Karen, skilnaður var mér ofarlega í huga, sem er alltaf sorgarferli að fara í gegnum. Ég skil að fólk þurfi stundum að skilja, en þetta er alltaf erfitt og oft sjálfhverft ferli og það er ýmislegt sem fólk óttast í kjölfarið. Karen vill ekki vera ein, eins og hún segir í lok annars þáttarins þegar hún óttast að skilnaðurinn verði til þess að hún muni enda sem gamla skrítna kerlingin með gluggatjöldin dregin fyrir, eigandi 32 ketti með pissulykt heima hjá sér. Það er auðvitað ekki það versta sem gæti gerst en í fórnarlambshlutverkinu sem Karen er í einmitt á þeirri stundu þá er þetta framtíðarsýnin. Karen er ekki sú sem vill skilja. Hún vill halda í hjónabandið. Það er Matti sem vill skilnað. Er Karen heilbrigði aðilinn að vilja halda áfram þrátt fyrir framhjáhaldið? Eða er hún meðvirk?“

Kona sem vildi gera vel við karlinn sinn

Karen er allt í öllu. Hún er mamma, eiginkona, með flottan feril. Hún klárar allt í lífinu, nema kannski það hlutverk að vera hamingjusama vændiskonan. Þó hún sé að reyna sitt besta að gefa Matta góða afmælisgjöf snemma morguns.

„Þetta afmælisatriði var einmitt áhugavert að skrifa. Þegar ég skapaði Karen í upphafi, langaði mig að sýna manneskju sem vill gera vel við eiginmann sinn. Hún leggur á ráðin um að gefa eiginmanni sínum munnmök í afmælisgjöf og það finnst mér segja svo mikið um persónuleika hennar. Einnig teiknar þetta vel upp kynlíf þeirra hjóna, munnmök eru greinilega ekki daglegt brauð. Þetta atriði segir svo mikið um Karen, hvernig hún vil leggja sig fram um að hafa Matta glaðan. En þegar Matti þiggur gjöfina frá Karen, þá veit hann að seinna um daginn er hann einnig að fá meira gott í kroppinn frá viðhaldinu. Hann þiggur samt þessa persónulegu afmælisgjöf eiginkonu sinnar með þökkum. Karen vill gera allt 100% en eftir að hún heyrir í börnunum frammi reynir hún að drífa gjöfina af sem fyrst. Hún hugsar fyrir öllu. Hún vil alls ekki fá hvítar slettur í sængurfötin og leggur þá á það ráð að setjast ofan á Matta svo hann geti komið inn í hana. Rétt eins og hún sé ruslatunna. Sjálfsvirðingin þar mjög skýr,“ segir Nanna Kristín og brosir út í annað og Sólveig Jónsdóttir bætir við: „Svo er hann með ákveðna ósk á meðan á þessu stendur en hún svarar því afsakandi og útskýrandi að sig langi ekki til að verða við henni. Hún er að reyna að setja mörk en að sama skapi að reyna að vera ekki leiðinleg. Hann á nú einu sinni afmæli!“

Konur gætu verið hæfari en náttúran gerði ráð fyrir

Þær eru sammála um að þessar vandræðalegu senur sem margir þekkja á eigin skinni en hafa kannski aldrei séð berum augum áður, sé hressandi sjónvarpsefni sem við höfum öll gott af því að sjá.  

Hvernig leið þér með að koma að skrifunum Sólveig?

„Ég hafði mjög gaman af því að koma að skrifum þriðja þáttarins og hef líka haft einhver áhrif á fleiri þætti því vinir mínir sögðust hafa kannast við „frasana“ mína á nokkrum stöðum. En Karen er aðeins eldri kynslóð en ég, svo í þriðja þætti fáum við að kynnast viðhaldinu og hennar sögu, löngunum og væntingum. Þó ég deili ekki reynslu Önnu Júlíu í lífinu, þá er ég nær henni í aldri. Það er margt sem breytist á milli kynslóða og því áhugavert að koma að því að teikna hennar veröld á sannfærandi hátt með Nönnu Kristínu.“

Þegar talið beinist að hlutverkum kynjanna í þáttunum. Hvernig Matti er í aðeins betra formi en Karen og aðeins meira dreymandi út fyrir sambandið segir Nanna Kristín: 

„Kynin eru ólík. Það er bara staðreynd. En mér finnst eins og við konur kunnum og getum  meira en forfeður okkar, náttúran eða jafnvel Guð gerði ráð fyrir í byrjun. En þekkingin okkar nýtist ekki endilega ef við ætlum að reyna að vera allt í öllu – fyrir alla nema okkur sjálfar. Þá erum við að semja af okkur.“

Sólveig Guðmundsdóttir bætir við að hún þekki til fjölmargra kvenna sem eru fyrirvinnur heimilisins, með hærri laun en eiginmennirnir en þær séu ekkert endilega að gera hlutina öðruvísi heima fyrir. 

„Eiginmenn þeirra taka þátt og eru flottir í mörgum verkefnum, en mér finnst margar þeirra vinna þessa andlegu heimavinnu, sem er að taka ábyrgð á heimalærdómi, líðan allra í fjölskyldunni og verkstýringu heima.“

Meðvirkni getur verið allskonar

En hvernig stendur á því að Karen er meðvirk að okkar mati en samt vill samfélagið oft ekki gangast við því að þekkja meðvirkni af eigin raun. Er ekki meðvirkni víðar en okkur grunar og eigum við auðvelt með að skynja meðvirkni í eigin lífi, nema því sé speglað til okkar með þáttum eins og Pabbahelgum?

„Meðvirkni er svo oft tengd við undanlátsemi og það að segja alltaf já og setja ekki skýr mörk. En það er svo margt sem getur fallist undir meðvirkni. Meðvirkni getur líka verið ofsafengin stjórnsemi, þegar þú veður í öll verkefni, stundum óumbeðin og telur þig betri til þess en aðrir.  Meðvirkni getur verið svo margt og spannar svo breitt bil allskonar hegðunar í lífinu,“ segir Sólveig Jónsdóttir. 

Svo getur samfélagið verið meðvirkt í viðbrögðum sínum og þau geta verið breytilega eftir tímabilum. Sem dæmi þótti eðlilegt að ef upp kom um framhjáhald á tíunda áratugnum að fólk bara léti það framhjá sér fara og tengdi þá bara við einhverjar hetjur sem kunnu að lifa við slíkt í þáttaröðum eins og Dallas. Á meðan samfélagið í dag, telur meðvirkni að ganga ekki strax í skilnað, ef upp kemst um framhjáhald. Hvað segið þið um þetta?

„Þættirnir sýna m.a. hvernig einstaklingur hefði kannski ekki eignast þrjú börn, stórt heimili og fleira hefði viðkomandi vitað að allt stefndi í skilnað. En hvorugur aðili leggur upp með það í byrjun sambands, hvorki Matti né Karen. Eins er svo margt sem við ákveðum að sýna sem er heilbrigt í samskiptum Matta og Karenar. Hvernig allt gengur snurðulaust fyrir sig í dagskrá dagsins, við morgunverðarborðið, hvernig verkskiptingin er skýr, þó annar aðilinn taki kannski meiri ábyrgð heima fyrir þá heldur hinn boltanum uppi annars staðar. Samband snýst ekki aðeins um rómantík og losta, alla vega ekki til langs tíma. Þegar Anna Júlía viðhaldið kemur inn á sjónarsviðið í seríunni þá langaði okkur að teikna hana upp eins manneskjulega og hina „karakterana“ í Pabbahelgum. Ekki bara sem vondu sjálfselsku konuna sem splundraði fallegu hjónabandi. Karen væri reyndar ekki sammála mér,“ segir Nanna Kristín kímin.

Framhjáhald snýst ekki einungis um kynlífið – því miður

Hvað með Matta – ef hann er ekki að sækja í kynlífið utan hjónabandsins, hvað er hann þá að vilja með viðhaldinu?

„Að sjálfsögðu eru fjölmargar ástæður fyrir því að fólk heldur framhjá. Stundum er það skyndiákvörðun, stundum of mikil áfengisneysla eða kannski breytingaskeiðið. Sumir nota leiða sem afsökun og að því hafi langað í spennu. Í tilfelli Matta þá finnst honum hann sjálfur leiðinlegur í hversdagslífi þeirra Karenar. Matti talar um að það sé ekki kynlífið þegar Karen afsakar sig að hún hafi kannski ekki verið nógu iðin í rúminu. Matti elskar sjálfan sig þegar hann er með Önnu Júlíu. Auðvitað er skemmtilegra að upplifa alls konar nýja hluti með viðhaldinu í stað hversdagsleikans með konunni sem sendir skilaboð um hvaða stærð af aspasdós hann eigi að kaupa út í búð. Það er í það minnsta stigsmunur að vera með konu sem er mestan hluta tímans eins, eða konu sem er mestan hluta tímans með börnunum þínum, í vinnunni og að sjá um heimilið,” segir Nanna Kristín.

Svo upplifir Karen algjört áfall þegar hún kemst að því hvað hefur verið í gangi þó hún ákveði að vilja halda hjónabandinu gangandi?

„Já, heimurinn hennar hrynur en spurningarnar sem vakna hjá henni i fyrstu eru kannski ekki þær sem skipta mestu máli í heildarmyndinni. Var það rassinn á viðhaldinu sem var svona flottur? Var kynlífið svona gott? Svo spilast áfallið aftur og aftur inn í líkama og sál konunnar og hún verður kvíðin, hrædd og einmitt kannski stjórnsöm til að takast á við þetta allt saman. Svo eru án efa margar sem halda að þetta snúist einmitt um kynlífið en kannski er verra þegar það er einmitt ekki raunin. Hvað snýst framhjáhaldið þá um? Ást?” spyr Sólveig Jónsdóttir.

Hjónabandsráðgjafi sem nær ekki að bjarga sínu eigin hjónabandi

Síðan er Karen hjónabandsráðgjafi, sem er ekki endilega að bjarga sínu eigin hjónabandi. Eða hvað?

„Nei einmitt. Í fyrstu var ég að spá í að hafa hana hárgreiðslukonu sem hitti marga yfir daginn og væri góð í að halda uppi samtali um litlu hlutina í lífinu. En svo ákvað ég að hafa hana sérfræðing sem væri einmitt að mistakast í því sem hún vinnur við allan daginn. Þannig er sýnt hvað lífið er hverfult og hvað við erum oft góð að tækla vandamál annarra. Eins gat ég skrifað inn í þættina fleiri pör sem koma með þessi klassísku vandamál t.d. um fótboltann og kynlífið. Ég var hrædd um að það væri of mikil „klisja“ en ákvað svo að það væri bara kostur. Það er nefnilega svo margt satt við hluti sem við segjum oft og eru almennir,” segir Nanna Kristín.

Klósettsenurnar eru smávegis „klisjur“ og pínu vandræðalegar er það ekki? Þær benda á að oft eru einu stundirnar sem mömmur fá fyrir sig inn á baði. 

„Munið þið ekki eftir því hvernig afarnir okkar fóru alltaf á klósettið með Moggana hér á árum áður og nú höfum við mömmurnar tekið við af þeim,“ segir Nanna Kristín. 

„Að taka trúnaðarsamtal með mömmu inn á klósettinu er klassískt. Að passa upp á vinkonuna að hún missi sig ekki í drykkjunni ef hún er ekki á góðum stað er líka merki um góðan vinskap og umhyggju,“ segir Sólveig Jónsdóttir. 

Sólveig Guðmundsdóttir bendir á að það sem er áhugavert við þetta sé að á sama tíma sé ef til vill meira samþykkt að áfengi sjáist á körlum. „Það er ekkert hneykslismál að karlmenn geri sér glaðan dag með strákunum og fái sér í glas á meðan það þykir ekki eins aðlaðandi að konur séu út um allt.“ 

Þurfum að huga að vellíðan kvenna í hjónabandi betur

Það er enginn landsmaður að sleppa að geta speglað sig í Pabbahelgum er það?

Nanna Kristín hugsar sig aðeins um áður en hún svarar „Auðvitað er ekki hægt að fjalla um allt og alla sem tengjast efninu. Karen nær til margra en það er ekki þar með sagt að hún endurspegli allar konur á Íslandi, langt frá því. Þó að ég eigi margt í Karen þá er hún ansi ólík mér. Það er búið að sýna tvo þætti, fjórir þættir eftir. Og þar komum við aðeins inn á skilnaðarbörnin og ábyrgðina sem er sett á þau þegar veröld hinnar fullkomnu móður hrynur. Konuna sem kann ekki milliveginn og sér hlutina annað hvort hvíta eða svarta eins og Sólveig nefndi áðan. Það er smávegis ádeila í því. Það eru allir að fara í gegnum eitthvað. Jafnvel þeir sem lenda ekki í skipsbrotinu að missa hjónabandið sitt. Þeir eru bara með eitthvað annað. Karen reynir að rétta sitt áfall af fyrst með áfengi en í leiðinni með hinu svokallaða „me-time“, sem er frekar mikið mótsagnakennt. En það síðara er auðvitað ein leið, að gefa sjálfri sér meira pláss í sínu eigin lífi.“

Karen ákveður eftir skilnaðinn að búa til meira rými fyrir …
Karen ákveður eftir skilnaðinn að búa til meira rými fyrir sjálfan sig í lífinu. Hér hangir hún í rólujóga í Sólum. Ljósmynd/Pabbahelgar

Sólveig Jónsdóttir bendir á að rannsóknir sýni að margar þeirra kvenna sem eru fráskildar og einhleypar mæður, og upplifa þennan barnlausa tíma inn á milli, séu betur á sig komnar, minna þreyttar og heilbrigðari en margar konur sem eru í sambúð eða hjónabandi og stöðugt í hringiðu hversdagsleikans.

„Það er eitthvað sem samfélagið ætti að vera meðvitað um. En það er ekki þar með sagt að  þetta séu einhverjar kjöraðstæður. Að vera ekki með börnunum sínum kannski helminginn af tímanum, hitta þau jafnvel bara óvænt í sundi eins og hvern annan eða að þekkja ekki stóran hluta af því fólki sem barnið umgengst. En við þurfum greinilega að huga betur að umhverfi kvenna í hjónaböndum. Með því að sýna venjulega konu á þennan hátt þá sjáum við betur í hverju áskoranirnar eru fólgnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál