Komin með stóra hvíta „glimmer“-vængi

mbl.is/Kristinn Magnússon

Theodóra Mjöll, vöruhönnuður og hárgreiðslukona, segir að henni hafi aldrei liðið betur í lífinu. Hún hefur farið í gegnum alls konar verkefni en alltaf náð því að breyta áföllum í sigra og virðist ekki láta hindranir á veginum stoppa sig. Hún vonar að saga sín gefi fleiri konum leyfi til að standa með sjálfum sér. 

Gömul áföll og djúp tilfinningaleg vinna spila lykilhlutverki í lífi Theodóru Mjallar, sem deilir svipaðri sögu og margar aðrar konur á Íslandi, sem upplifa sig ekki öruggar hér á landi. Hún hefur notað verkefni lífsins til að styrkja sig og segir að í dag eigi hún betra líf en hún hefði nokkurn tíman þorað að vonast eftir. Hún elskar vinnuna sína á hárgreiðslustofunni Barbarellu Coiffeur og öll verkefnin sem hún er í til hliðar við þá vinnu. Meðal annars nýju hárbókina sem kemur út í lok mánaðarins.
mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er fædd og uppalin fyrir norðan, í Eyjafjarðarsveit. Foreldrar mínir eignuðust okkur fimm systkinin á átta árum og eins og gengur og gerist í stórum barnahópi gafst ekki mikill tími til að sníða uppeldið að þörfum hvers barns. Ég flutti til Reykjavíkur fimmtán ára að aldri og bjó fyrst um sinn hjá systur minni, sem var 17 ára. Foreldrar mínir eru gott fólk sem aðhyllist kristin gildi. Þau starfa bæði innan heilbrigðisgeirans. Mamma er hjúkrunarfræðingur og pabbi tannlæknir. Ég hef stundum spurt mömmu hvernig henni hafi dottið í hug að leyfa mér að fara svona ungri að heiman. En mig langar að segja þessa sögu út frá mér en engum öðrum, því ég tek ábyrgð á mínu lífshlaupi og er stolt af því í dag.“

Var hræðilegur unglingur

Á þessum tíma segir Theodóra að hún hafi verið orkumikill unglingur.

„Ég var svolítið hræðilegur unglingur. Ég var týnd og svolítið út um allt. Þegar ég varð 17 ára missti ég sumarvinnuna mína. Ég þurfti á vinnu að halda til að lifa af um sumarið og hugsaði með mér að eflaust væri best að fara bara í öll fyrirtækin á Laugaveginum og sækja um vinnu þannig. Ég ákvað að byrja efst og byrjaði á því að fara inn á hárgreiðslustofuna Tony & Guy til að athuga hvort ekki vantaði starfskraft í afgreiðsluna þar. Þetta var fyrsta fyrirtækið sem ég fór inn í og hafði ég enga sérstaka löngun á þessum tíma að fara í hárgreiðslu. Ég hafði áhuga á hári eins og margar stelpur á mínum aldri, en það var ekkert meira en það. Þau voru einmitt að leita að einstaklingi í nemastöðu og buðu mér starf daginn eftir, sem ég og þáði. Þetta er forsaga þess að ég fór í hárgreiðsluna.“

Þetta var árið 2004 og segir hún vinnuna á hárgreiðslustofunni hafa hentað henni vel.

„Ég áttaði mig fljótt á því að það þurfti mikið að segja mér til þegar kom að samskiptum. Ég veit að margir deila með mér þessari reynslu, sem koma úr stórum systkinahópi. Þar sem lítill tími gefst til að klæðskerasauma uppeldi að hverjum og einum. Ég hafði greinilega aldrei almennilega náð tökunum á því hvað mætti segja við fólk og hvað ekki. En fékk leiðsögn frá dásamlegu fólki sem lagði sig fram um að kenna mér samskiptafærni og aðferðir að vinna eftir bestu getu.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kynferðisofbeldi ástæða óstýrilætisins

Theodóra rekur ástæðuna fyrir óstýrilæti sínu á þessum tíma til þess meðal annars að hafa lent í kynferðisofbeldi þegar hún var fimmtán ára gömul. Þá var hún flutt til Reykjavíkur en fór norður í helgarferð á fyrstu önninni sinni í námi við Menntaskólann við Hamrahlíð.

„Þetta var mikið áfall fyrir mig, þar sem þetta var eitt af fyrstu skiptunum mínum með karlmanni. Ég held að þessi lífsreynsla hafi orðið til þess að ég upplifði ákveðið óöryggi með mig. Áfall sem þetta hefur einnig áhrif á sjálfsvirðingu stúlkna. Ég bar innra með mér skömm og ótta og bjó ósjálfrátt til stóran vegg í kringum mig svo að enginn gæti nálgast mig eða sært mig aftur.

Ég varð uppreisnargjörn og reyndi stöðugt að brjótast í gegnum þetta fasta form samfélagsins. Þess vegna er ég á því að hárgreiðslan hafi komið eins og gjöf inn í lífið á þessum tíma. Þar gat ég starfað inni í lifandi ramma. Ég lærði að tjá mig og tilfinningar innan þessa ramma og fann mikla listræna sköpunarþörf innra með mér brjótast út.“

Hún segir að í kjölfarið hafi hún á nokkrum árum upplifað þrjú önnur tilvik þar sem farið var yfir mörkin hennar á þessu sviði. Að í hvert skiptið hafi hún lokað tilfinningarnar niðri og upplifað mikla skömm í kjölfarið.

„Árið 2015 upplifði ég hluti sem ég lít á sem vendipunkt þess að ég byrjaði að vinna í mér. Það var farið allhressilega yfir mörkin mín. Ráðist á mig persónulega. Það var þá sem ég hætti að upplifa Ísland sem öruggan stað til að vera á. Ég fór í kjölfarið í mikla sjálfsvinnu og fékk mikla faglega aðstoð og þá kom upp sú staðreynd að ég hafði úr fleiru að vinna en einungis áfallinu sem ég hafði verið að lenda í á þessum tíma. Þá kom upp áfallið frá því ég var fimmtán ára og hin þrjú svipuðu tilvik sem ég átti nokkrum árum seinna. Ég gerði upp fæðingarþunglyndið sem ég upplifði í kjölfar fæðingar sonar míns og í raun allt sem kom upp sem ég átti erfitt með að horfast í augu við eða skilja.

Þetta var það erfiðasta sem ég hef gert, en jafnframt það dýrmætasta.

Ég fékk verkfæri til að byrja að lifa því lífi sem mig langar að lifa. Ég fékk hæfni og skilning á eigin tilfinningum og er mjög varkár í dag varðandi hvaða orku ég dvel í og hvaða fólk ég umgengst.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Listin býr innra með mér

Theodóra segir að þegar komi að því að vera listræn sé það ekki hennar val, heldur sé eins og hún hafi fæðst listræn og þetta sé nokkuð sem finni sinn farveg í lífi hennar.

„Ég finn þessa sköpunarþörf eins og litlar nálar sem stinga mig stöðugt að innan og þurfa að komast út. Eins fannst mér svo frelsandi að geta menntað mig með því að búa til eitthvað í höndunum. Þar sem flestir í kringum mig hafa menntað sig í heilbrigðisvísindum fannst mér áhugavert að geta lært eitthvað sem mér fannst skemmtilegt og skapandi. Ég uppgötvaði að það mætti hafa gaman og læra á því sviði. En ég fékk þá tilfinningu þegar ég var búin að mennta mig tengt hárgreiðslunni að það væri eitthvað við það fag sem væri heftandi fyrir mig. Mig langaði að halda áfram að þróa mig sem hönnuð og fann þá vöruhönnunarnámið hjá Listaháskólanum.

Það skrítnasta við hönnunarnámið er að það kenndi mér að vera betri hárgreiðslukona. Að hár er efni, eins og ull og silki. Í raun finnst mér hár eitt mikilvægasta efnið, ekki minna mikilvægt en efnin sem við göngum í eða skartgripirnir sem við notum. Þarna komst ég einnig að því hvað iðn- og háskólanám fer vel saman.“

Tími kominn að kenna nýjar greiðslur

„Fyrstu hárbókina gerði ég árið 2012 og ber nafnið „Hárið“. Sú bók fékk betri viðbrögð en ég hefði getað órað fyrir og er ég óendanlega þakklát fyrir það. Í kjölfar hennar hófst skemmtilegt hárbókaævintýri en ég fór að vinna og gera bækur fyrir Disney og HH Simonsen sem ég er svo stolt af. Árið 2013 gerði ég einnig barnahárbókina „Lokkar“, sem fékk frábærar viðtökur.

Fyrr á þessu ári ákvað ég að kíkja í fyrstu bókina mína, Hárið, sem ég hef ekki gert í óralangan tíma, og ég sá á svörtu og hvítu að það væri kominn tími á kenna nýjar og ferskar greiðslur.

Í nýju hárbókinni er að finna 58 mismunandi gerðir af greiðslum; fléttum, töglum, hversdagsgreiðslum, letidagsgreiðslum, brúðkaupsgreiðslum, fermingargreiðslum og fínum uppgreiðslum fyrir alla aldurshópa. Einnig skrifa ég um hárumhirðu, hárþvott og hárnæringar, undirbúning hársins fyrir greiðslur og ýmislegt fleira sem viðkemur hári og kemur að góðu gagni.

Ekki skemmir fyrir að einn flottasti ljósmyndari landsins að mínu mati, Saga Sig, tók allar myndirnar fyrir bókina og hönnuðurinn Rakel Tómasar setti hana upp. Svo sá Sara Dögg, annar eigenda Reykjavík Makeup School, um förðunina og Berglind Veigarsdóttir um stíliseringu.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hárgreiðslur þurfa ekki að vera flóknar

Theodóra er á því að við konur miklum stundum fyrir okkur orðið hárgreiðsla.

„Að greiða á sér hárið eða setja það upp þarf ekki að vera flókið með réttu upplýsingunum og tólunum. Það er aðalástæða þess að ég hef gert hárbækurnar mínar. Ég hef einfaldað annars flóknar greiðslur og gert þær aðgengilegar fólki með bæði fima fingur og tíu þumalfingur.

Þegar ég hitti fólk horfi ég vanalega í augu þess og síðan á hárið. Ég held að þetta eigi við um flesta. Hárið er svo stór hluti af sjálfsvirðingu okkar og getur haft stór og mikil áhrif á andlega líðan okkar. Hárið getur verið okkar stærsti skartgripur. Ég hef trú á því að fólk finni sjálft sig í gegnum hárið. Eins trúi ég því að hárið tengist tilfinningum okkar. Sem dæmi: Ef þú átt æðislegan hárdag áttu oftar en ekki æðislegan dag.“

Theodóra er mikill frumkvöðull í

eðli sínu og er einnig að þróa nýja tegund af hárvörum sem hún hyggst framleiða á Íslandi.

„Ef allt gengur samkvæmt áætlun kemur afrakstur þeirrar þróunar í ljós eftir áramótin. Ég vil þróa íslenska vörur fyrir Íslendinga því mér finnst mikilvægt að við minnkum sóun og hugsum um umhverfið í þeirri grein sem ég starfa í líkt og í öðrum greinum. Það er ótrúleg mengun fólgin í því að færa hárvörur í stórum skipförmum til landsins.“

Lítur kæruleysið jákvæðum augum

Hvaðan kemur þetta hugrekki hjá þér, ertu aldrei hrædd?

„Í grunninn er ég mjög óörugg týpa, en ég bý yfir ákveðnu kæruleysi sem ég lít á sem jákvæðan hlut. Hér áður átti ég til að líta á kæruleysið mitt sem neikvæðan hlut. Ég hugsa með mér að ef aðrir geta gert ákveðna hluti þá get ég það líka. Ég held að eini munurinn á milli þeirra sem hugsa hlutina og þeirra sem hugsa og gera hlutina er að við sem gerum þorum að prófa okkur áfram og jafnvel að gera mistök. Ég treysti veröldinni fyrir mér og hef ákveðið að vera í ferli og læra stöðugt af lífinu. Sumt af því sem ég hef gert hefur heppnast og gengið vel en annað hefur ekki gengið eftir og þá hef ég fengið tækifæri til að læra af því.“

Kann illa að meta baktal

Hvernig finnst þér viðtökurnar hafa verið?

„Ég hef oftast fengið mjög jákvæð viðbrögð við öllu því sem ég skapa, sem er ómetanlegt. Hrós er nokkuð sem við Íslendingar þurfum að læra og færa meira inn í okkar daglega líf. Ég reyni að hrósa eins mikið og ég get, konunni í búðinni eða hugarfari sem ég dáist að. En ég hef alveg lent í mótlæti líka. Það er áhugavert að tala um gagnrýni yfir höfuð því hún er svo nauðsynleg. Ég er ekki hrædd við að fá gagnrýni á það sem ég geri og veit að gagnrýni þýðir að rýna til gagns. Það er, að segja sína skoðun á hlutunum með virðingu og vinsemd og það er í lagi að vera ósammála. Þegar ég fæ gagnrýni skoða ég hvaðan hún kemur áður en ég tek mark á henni. Kemur hún frá góðum eða vondum stað? Ég hef mikla óbeit á baktali og ég tel mikið hugrekki í að segja fólki sannleikann, hver sem hann er.“

Hefur þú hug á að opna þína eigin stofu?

„Ég hef stóran hluta ævinnar verið frumkvöðull. Sem dæmi fór ég í frumkvöðlaverkefni með vinkonu minni sem gekk ekki upp. Ég var lengi að jafna mig eftir það. Ég þurfti að endurhugsa líf mitt eftir þá reynslu og ákvað að fara að starfa hjá Wow air sem flugfreyja tímabundið. Þar uppgötvaði ég hversu dásamlegt er að hafa fasta vinnu, og eins konar handrit að því sem maður ætti að framkvæma daglega. Að fá föst mánaðarlaun og læra að vinna fyrir aðra en sjálfa mig. Það er ákveðið frelsi fólgið í því að vinna fyrir aðra og vera síðan með önnur sjálfstæð verkefni meðfram því.“

Konur ættu að standa með sér

Theodóra segir að þegar Wow air hafi hætt starfsemi sinni hafi hana langað að starfa lengur fyrir fyrirtækið, en hún hafi tekið því sem skilaboð að nú væri kominn tími á annað í lífi hennar.

Þú gefst aldrei upp eða hvað?

„Nei, það er ekki í boði. Það gerir mann sterkan að fá tækifæri að læra í lífinu. Þá lærir maður einnig á tilfinningar og innsæið sitt. Innsæið er svo vanmetið að mínu mati. Innsæið er eitt af sterkustu verkfærum okkar. Innsæið hjálpar mér einnig að skilja aðra í kring um mig. Ég hef svo endalausan áhuga á fólki og hef öðlast hæfni í samskiptum við fólk með því að vera opin og berskjölduð sjálf. Ég grínast þó stundum með það að taugakerfið mitt liggi utan á mér því ef ég er sem dæmi hamingjusöm, þá segi ég það og get ekki með nokkru móti falið það. Sömuleiðis ef ég er leið. En ég reyni þó að draga ekki aðra með mér þegar það kemur fyrir. Ég passa upp á orkuna mína og reyni að skipuleggja mig þannig yfir daginn að orkan mín endist. Ég skoða hvar ég fæ orku og hvar ég gef orku.

Dæmi um það sem ég geri er að ég fer í ræktina og æfi Crossfit. Það gefur mér orku að vera með barninu mínu og fjölskyldu. Eins vökva ég mig og næri eftir bestu getu með því að hugleiða og elda góðan mat. Ég reyni að hugsa eins vel um umhverfið mitt, húðina mína og hárið mitt og síðan finn ég góðar og heilbrigðar leiðir til að gefa áfram það sem ég hef öðlast með lífinu. Ég vona að líf mitt verði til þess að fleiri konur gefi sér leyfi til að standa með sér.“

Sjá síðu 26

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »