Auðmýktin bjargaði mínu lífi

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Hefur þú staðið frammi fyrir erfiðleikum í lífinu og upplifað að þú sért að gefast upp og getir ekki meir? Jafnvel að velta ýmsu fyrir þér til að losna við þjáninguna,“ spyr Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

Viðhorf

Ég ólst upp við þau viðhorf að vera ekki að væla yfir vanlíðan eða kvarta yfir mótlæti. Karlmenn gráta ekki! Menn voru kallaðir aumingjar. Hver vill fá þann stimpil? Guð minn góður hvað þetta er rangt og setti mig nánast í gröfina.

Áföll

Ég hef gengið í gegnum mikið mótlæti í lífinu s.l. ár sem hefur haft afdrífarríkar og alvarleg áhrif á mitt líf og heilsu. Aldrei óraði mér fyrir að ég yrði fyrir svona höggi í lífinu, enda gera það fæstir sem lifa hefðbundnu lífi og gengur sæmilega vel. Það var mín saga í mörg herrans ár.

Við verðum öll fyrir einhvers konar áföllum. Ég hef lært að það er ómögulegt að setja mælistiku á einstök áföll þ.e. hvernig áhrif það hefur á fólk. Sumum finnst eitthvað smáatriði sem er óviðráðanlegt hjá öðrum.

Ég hef tekist á við áföll frá barnásku. Að auki borið þungan poka af sársauka í gegnum lífið. Án þess að vita það! Ég þekki að lenda í óreglu og missa von. Hvernig knattspyrnuferillinn minn klúðraðist var áfall fyrir mig sem ég fattaði löngu síðar. Ég hef misst báða foreldra. Misst systkini. Gengið í gegnum skilnaði. Þetta eru allt áföll. Áföllum fylgir sársauki sem verður að vinna úr. Það kunni ég ekki. Að missa móður mína árið 1996 var sárt en í miðju lokaverkefni í háskóla setti ég þann sársauka í pokann. Svipað þegar faðir minn kvaddi tæpum 10 árum síðar. Þá var ég svo hrokafullur í hugsun að ég taldi ekki þörf að takast á við það.

Stærsta áfallið miðað við áhrif á mitt líf hófst árið 2013 og lagði mig og mitt líf í rúst á 2 árum. Þá sprakk fyrrnefndur sársaukapoki. Vill svo til að sársauki er ekki eitthvað andlegt sem hverfur. Nei þetta verður líkamlegur kvilli. Heilinn markerast og geymir sársaukann. Það vissi ég ekki. Svo kemur að skuldadögum! Þá varð ég veikur af röskun sem ég hafði ekki hugmynd um. Fyrstu einkenni voru ofsakvíði- og ótti upp úr þurru. Hvað átti ég að gera? Gerði það sem ég var vanur. Ekki neitt. Ég myndi negla þetta sem annað í lífinu.

Eftir tveggja ára baráttu lá ég líkamlega og andlega örmagna. Búinn að missa húsnæði, samband, vinnu og peningamál í óreiðu.Súrealísk staða sem ég hafði aldrei verið í. Gat engan veginn skilið ástæðuna. Var eins og að vakna eftir 2 ára fylleri í óminni. Nei hafði ekki þá „afsökun“. Hafði enga afsökun né skýringu. Fyrr en síðar.

Svona var fyrir mér komið og í þessi 2 ár barðist ég eins og ljón við einkennin sem voru svæsin ofsakvíða- og panikköst með endurupplifunum á hræðilegum sársauka. Stóð samt mína plikt á heimili og í vinnu. Þangað til síðasti orkudropinn tæmdist. Hvað var þá eftir til að lifa fyrir? Já fyrrnefnd viðhorf voru ekki að hjálpa mér!

Uppgjöf

Þegar þú upplifir vonleysi þá ertu komin í þá stöðu að geta ekki meir. Gefst upp. Því miður leggja sumir skilning í uppgjöf að það sé veikleikamerki. Þú átt að harka af sér. Þá er stutt í skömmina hjá fólki. Skömmin leiðir mann í þögnina. Segja ekki frá. Byrgja inni og bera sársaukann í hljóði. Því miður hefur það reynst allt of mörgum dýrkeypt ákvörðun.

Í minni súrealísku stöðu upplifði ég í fyrsta sinn á ævinni að gat ekki meira. Ég var ekki nógu sterkur. Það var líka áfall. Vissi ekki hvað væri að mér. Hvers vegna staðan mín væri svona. Ósjálfbjarga. Lífið var búið því ég sá ekkert framundan nema komast í gegnum hræðilega ofsakvíða- og pankköst með hrottalegum sársauka. Í það fóru dagar og nætur undir lokin.

Eins mikill baráttu- og keppnismaður sem ég er þá var ég mölbrotinn. Samt gat ég ekki hrópað á hjálp. Af hverju? Jú skömm. Líka því ég gat ekki útskýrt neitt. Leit út fyrir að ég hefði klúðrað öllu. Þá er ekki mikið eftir að lifa fyrir?

Þú hefur val!

Það sem ég stóð frammi fyrir er svipað og margir þekkja út frá ólíkum ástæðum. Ég og þú höfum val! Hvað er hægt að gera? Hljómar einfalt að segja að í svona stöðu hafi maður val.

Að spyrja sig; Hvað ætla ég að gera? Ætla ég að gefast upp? Þetta snýst EKKI um að vera hörkunagli. Það veit ég. Þegar þú ert staddur í svartnættinu, sérðu ekki valmöguleikana. Þess vegna er lykilatriði að biðja um hjálp sem fyrst. Mikilvægt að aðstandendur séu vakandi fyrir breyttri hegðun og „spili“ ekki með í meðvirkni. Í mínu tilfelli virtist enginn nálægt mér átta sig á breytingum hjá mér til að skerast í leikinn. Ég lék hörkunaglann líklegast frábærlega. Þrátt fyrir svefnlausar nætur eftir ofsakvíða- og panikköst mætti ég í vinnu og lét sem ekkert væri.

Að geta ekki beðið um hjálp

Ég er þannig gerður, með þessi hörkunaglaviðhorf undirligjandi, að eiga erfitt með að segja....ég get ekki! Ég berst þar til engin hálmstrá eru eftir. Nefndi skömm og stolt. Mér til varnar þá hafði ég enga hugmynd hvað eða hvort eitthvað væri að mér þrátt fyrir stöðuna. Gat ekki útskýrt. Þetta hræðilega sumar ritaði ég stundum á facebook hvernig mér liði og gerði það í örvæntingu. Án þess að vita hvað væri að. Þessi viðleitni mín átti eftir að skila sér. En fyrst endaði ég í þögninni og skömminni. Búinn að tapa. Aumingi.

Hvað er fyrsta og mikilvægasta skrefið?

Mér tókst að biðja um hjálp! Viðurkenna vanmátt og hætta að streitast á móti. Að viðurkenna vanmátt er fyrsta skrefið og það mikilvægasta. Ég gerði það þegar ég hafði ekki getu til að gera neitt sjálfur. Ekki til eftirbreytni en tókst það samt.

Fyrsta skrefið er það erfiðasta. Að gefast upp, viðurkenna vanmátt og biðja um hjálp. Mín skilaboð eru að það er alltaf von. Engin skömm að viðurkenna vanlíðan hvað sem orsakar hana. Ekki byrgja inni. Þú gerir illt verra.

Sigurvegarinn er sá sem getur viðurkennt sína líðan og leitað sér hjálpar.Það er enginn minnkun í því að viðurkenna að manni líði illa. Því miður er fólk sem gengur með þetta „væluviðhorf“ sem ég minntist á.  Það heitir líka að gangast við tilfinningum sínum. Það er títtnefnd auðmýkt. Eitt af mörgu sem ég hef lært á minni bataleið. Hélt ég vissi það líkt og margt annað. Nei. Mín viðhorf og skoðanir til margra hluta voru kolröng og mannskemmandi.

Ég var heppinn!

Hef oft hugsað um afdrífarríkan dag snemma í september 2015 í í ástandinu sem ég lýsti fyrr. Það var örlagaríkt ferli sem varð til að ég fékk hjálp. Get aldrei útskýrt það. Sálfræðingur sem ég þekkti tók mig að sér. Fyrsti mánuðinn var að gera mér grein fyrir að ég væri fárveikur. Þar braust ég í gegnum afneitunina, skömmina og gafst upp með því að sýna vanmátt. Ég get ekki og verð að fá hjálp. Stórt skref fyrir mig. Sett upp 4 mánaða plan í byrjun.

Að lifa í núinu

Á fyrsta mánuði varð ég að læra að lifa í núinu. Einn klukkutíma í einu. Læra að róa hugann. Byggja upp orkuna. Taka út alla streitu úr lífinu þ.m.t. fólk, staði og annað sem gat triggerað ofsakvíða- og panikköst. Hafði aldrei í lífinu staðið verr veraldlega og þakkaði fyrir að geta leigt herbergi út í bær. Þar hófst mín bataleið. Varð að gjöra svo vel að kyngja öllu stolti. Það merkilega var að mér þótti það lítið mál. Ég var svo örmagna og varnarlaus. Ég hef oft sagt að ég hóf mína leið til baka með auðmýkt að vopni. Annað átti ég ekki. Var opinn fyrir öllu og gerði allt sem mér var ráðlagt án þess að hafa skoðun.

Að sigrast á mótlæti gerist ekki sjálfkrafa

Í gegnum bataferlið hef ég þurft að takast á við ýmis konar mótlæti og áföllum.

Ég byggði mér upp sjálfshjálparprógram í upphafi sem ég fylgdi alla daga. Það átti eftir að verða dýrmætt. Sem dæmi hefur mér alltaf tekist að fara í uppgjöfina og vanmáttinn þegar mótlætið kemur. Rætt við trúnaðarvin og ekki tekið ákvörðun án þess að bera undir annan. Fá leiðsögn að vinna úr hverju mótlæti fyrir sig. Sumt smávægilegt, önnur sem mér þóttu óyfirstíganleg. Alltaf tókst þetta að lokum. Þar með fleiri sigrar í kladdann sem styrkti mig.

Taka leiðsögn

Ég, eins og allir, þarf að láta segja mér hlutina. Hlusta og taka leiðsögn Ég ber ábyrgðina á eigin líðan. Ég þarf að framkvæma. Það hefur reynst mér gagnslaust að kenna öðru fólki eða aðstæðum um. Hvort sem ég upplifi að reiði sé réttlát eða ekki þá hjálpar hún ekkert við að leysa vandann. Úr uppgjöf í mannlegan þroska. Engin minnkun að viðurkenna að maður „geti ekki“.

Reynslan kennir

Reynslan hefur kennt mér að mistök og áföll herða ef manni tekst að nýta reynsluna. Það eru litlu sigrarnir sem verða að innistæðu til að batna, jafna sig og þroskast. Það eru að mínu mati stóru verðlaunin að takast á við áföllin sem um leið þroska mann í að vera betri manneskja. Hvað er eftirsóknarverðara? 

Að lokum

Eins og ég nefndi hef ég farið í gegnum áföll á bataleiðinni og lent á veggjum. Ekki langt síðan að það riðu yfir mig líkamleg og andleg áföll sem ég hreinlega hélt að ég myndi ekki höndla. Þá kemur uppsöfnuð reynsla til góða sem og traustir vinir. Reynslunar og vinina hef ég nýtt mér og er að rísa sem aldrei fyrr.

Þrátt fyrir gríðarlegan sársauka þá verður það mitt lán að hafa þurft að takast á við mín áföll. Get sagt það í dag. Það eru stóru verðlaunin.

Auðmýktin bjargaði lífinu mínu

Lifið heil, lifið vel og verið góð við hvort annað. Það er alltaf þörf á því.

mbl.is