Ásdís Rán trúir ekki að Ruja Ignatova hafi verið myrt

Ruja Ignatova og Ásdís Rán í janúar 2016.
Ruja Ignatova og Ásdís Rán í janúar 2016. Ljósmynd/Facebook

Ásdís Rán Gunnarsdóttir er óhress með að vera sett á forsíðu DV og því haldið fram að hún sé flækt í alþjóðlegan fjársvikahring. Hún vonar að vinkona sín, Ruja Ignatova, sé á lífi þótt hún hafi ekki heyrt í henni í tvö ár. 

Í DV er sagt frá því að Ásdís Rán sé flækt í eitt stærsta fjársvikamál síðari ára sem tengir sig til 175 landa. 

„Samkvæmt bandarísku alríkislögreglunni, FBI, náði besta vinkona Ásdísar Ránar, búlgarska athafnakonan Ruja Ignatova, að svíkja út tæpa þúsund milljarða íslenskra króna á heimsvísu áður en hún hvarf sporlaust í október árið 2017. Ekkert hefur spurst til hennar síðan þá og hafa lögregluyfirvöld víðs vegar í heiminum reynt að hafa uppi á henni, líkt og vinkona hennar Ásdís Rán en hún er andlit fyrirtækisins sem talið er að standi að baki svikamyllunni,“ segir í DV. 

Ásdís Rán segir í samtali við Smartland að henni finnist í raun mjög skrýtið að það sé verið að fjalla um þetta mál á Íslandi fyrst núna því málið hafi verið í erlendum fjölmiðlum síðan Ignatova hvarf. Þegar Ásdís Rán er spurð að því hvað hún haldi að hafi orðið um vinkonu sína segist hún ekki hafa hugmynd.

„Ég var hjá henni í tvo mánuði, áður en hún hvarf. Við vorum í Búlgaríu á sólarnýlendu. Ég var þarna með krakkana mína og viku eftir að ég kem heim hverfur hún,“ segir Ásdís Rán. 

Heldur þú að hún hafi verið myrt?

„Ég hef oft velt þessu fyrir mér. Hún var orðin rosalega rík á þessum tíma. Hún var með lífvarðastóð og ferðaðist um í skotheldum bílum. Mér finnst ólíklegt að hún hafi verið myrt. Á sama tíma finnst mér líka skrýtið að ég hafi aldrei heyrt í henni ef hún er á lífi því við töluðum saman á hverjum degi í tíu ár.

Fyrst hélt ég að hún hefði verið látin hverfa, en mig grunar að hún sé í felum. Það fór fram skattarannsókn í mörgum löndum og fólki er oft haldið í fangelsi á meðan verið að rannsaka það. Ég held að það sé möguleg ástæða fyrir því að hún hafi horfið,“ segir Ásdís. 

Hvernig kynntust þið?

„Við kynntust þegar ég flutti til Búlgaríu. Byrjuðum í viðskiptum saman en hún fjárfesti í fyrirtækinu mínu, Icequeen. Hún stóð við hliðina á mér í mínu ferli. Á þeim tíma var hún bara venjuleg stelpa. Hún var ekki orðin eitthvað súperrík þá. Svo fékk hún þessa brjálæðislegu bisness hugmynd sem gekk svona vel þangað til allt sprakk,“ segir Ásdís og heldur áfram:

„Áður en hún stofnaði þetta fyrirtæki þá kom kreppa í Búlgaríu og allt fór á hausinn. Þá var hún með járnverksmiðju í Þýskalandi sem fór á hausinn. Hún var stór fjárfestir í mínu fyrirtæki, Icequeen, sem hafði svo mikil áhrif á mitt fyrirtæki að ég þurfti að loka því. Hún missti allt og var alveg í ár að reyna að rífa sig upp og búa til eitthvað nýtt og stofnaði þá þetta, OneCoin. Sem var ekkert alveg búist við að myndi ganga svona svakalega vel. Þetta var ekki stofnað með það markmið að svíkja fólk,“ segir hún.  

Hvernig hefur þér liðið síðan þú hættir að heyra í Ruja Ignatova?

„Þetta er búið að vera hræðilegt. Hún var stór hluti af okkar fjölskyldu og þetta hefur líka verið mjög erfitt fyrir krakkana mína. Við vorum alltaf saman.“

Hvað heldur þú að gerist næst?

„Það getur ekki gerst neitt meira. Tíminn mun bara leiða það í ljós. Ég vona að hún sé á lífi einhversstaðar. Mér finnst glatað að vera sett á forsíðu DV fyrir fjármálasvik því þetta hefur ekkert með mig að gera,“ segir Ásdís Rán. 

mbl.is
Loka