Hápunktur jólahátíðarinnar að baka Lúsíubrauð

Jón Arnór Stefánsson körfuboltastjarna er mikið jólabarn.
Jón Arnór Stefánsson körfuboltastjarna er mikið jólabarn. mbl.is/Árni Sæberg

Körfuboltastjarnan Jón Arnór Stefánsson segir jólin einstakan tíma með fjölskyldunni. Hann lifir heilsusamlegu lífi og segir að það skipti ekki mestu máli hvað fólk geri á milli jóla og nýárs, heldur skipti mestu máli hvað gert er á milli nýárs og jóla ári seinna.

Jón Arnór er á því að frumbernskan hafi mikil áhrif á upplifun okkar af jólunum. Sjálfur upplifði hann fyrstu jólin sín í Svíþjóð þar sem Stefán Eggertsson faðir hans starfaði sem læknir á sínum tíma.

Jón Arnór og eiginkona hans, Lilja Björk Guðmundsdóttir, hafa verið ötul við að þróa sínar eigin hefðir. Með tilkomu barnanna hefur ánægjan síðan aukist í gegnum árin.

Jón Arnór er á því að jólin hér á Íslandi séu þau allra bestu, að öllum öðrum stöðum ólöstuðum.

„Þar sem ég hef dvalist mikið erlendis sem körfuboltamaður hef ég upplifað jólin í Svíþjóð, Ítalíu, Spáni, Rússlandi og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt. Ég er á því að jólin séu áhugaverðust á Íslandi, það sé hvað mest gert úr þeim hér á landi enda er Ísland einstakt land fyrir svo margar sakir. Það var oft skrítið að upplifa jól í 15 gráðum og sól,“ segir hann og brosir.

Hefðin í kringum Lúsíubrauðið skemmtileg

Hvernig upplifðir þú jólin í Svíþjóð?

„Fjölskyldan mín bjó í mörg ár í Svíþjóð og ég fæddist þar í landi, en var einungis tveggja ára þegar við fluttum til Íslands. Sænsku jólahefðirnar hafa alla tíð einkennt jólin á heimili mínu. Mamma og pabbi gerðu jólin að besta tíma ársins. Ég er úr stórri fjölskyldu þar sem við erum fimm systkinin. Ég á tvo bræður og tvær systur. Ég er yngstur í röð systkina minna og þú getur rétt ímyndað þér stemninguna fyrir jólin á svona stóru heimili. Ein uppáhaldsminning mín frá jólunum var þegar við bökuðum Lúsíubrauð saman fjölskyldan í Svíþjóð og við höldum í þá hefð enn í dag. Það er sænsk hefð sem er á þá leið að 13. desember á hverju ári er St. Lucia-dagurinn haldinn hátíðlegur. Þessi hátíðardagur er einnig nefndur hátíð ljóssins. Lúsíu-brauðið er gómsætt á bragðið og er eins konar saffronkryddað sætabrauð. Á meðan við sköpuðum alls konar jólatengdar fígúrur með deiginu og skreyttum með rúsínum spiluðum við fallega jólatónlist og drukkum heitt súkkulaði. Í dag er þetta einn af hápunktum jólahátíðarinnar hjá börnunum okkar því við komum saman öll systkinin með börnin okkar ásamt ömmu og afa og bökum saman Lúsíubrauð.“

Einmanalegt að vera einn um jólin

Jón Arnór er mikið fyrir fjölskylduna og segir að hún sé það sem hann er stoltastur af í dag.

„Ég á minningar um að hafa upplifað jól erlendis án fjölskyldunnar minnar og Lilju. Það var einmanalegur tími. Við Lilja bjuggum erlendis lengi og þá þróuðum við okkar eigin hefðir saman í bland við þær gömlu. Tengdaforeldrar mínir voru dugleg að heimsækja okkur úti um jólin, þar sem tengdamamma kom með íslenskt hangikjöt, villigæs, jólaöl og fleira gómsætt að borða um jólin. Þessi stuðningur frá þeim var okkur ofboðslega dýrmætur í gegnum árin og skapaði margar fallegar minningar fyrir okkur og börnin okkar.“

Hvernig eru dæmigerð jól á heimili ykkar?

„Dæmigerð jól hjá okkur eru hátíðleg og skemmtileg og snúast að mestu leyti um að njóta þess að vera saman og skapa fallegar minningar. Þegar við bjuggum erlendis fékk ég lítið sem ekkert jólafrí frá körfuboltanum þannig að í dag elska ég að eyða löngu jólafríi með mínum nánustu. Undirbúningurinn getur verið óþarflega stressandi eins og á mörgum heimilum en við erum staðráðin í að minnka jólastressið í framtíðinni og njóta aðventunnar betur.

Við Lilja erum lifum heilbrigðu lífi og borðum holla og góða fæðu flesta daga ársins. Vegna vinnu minnar hef ég alltaf haldið mér í góðu formi og það á líka við um jólin. Lilja Björk er sjálf mikil íþróttakona og hefur kennt mér rosalega margt í gegnum árin þegar kemur að mataræði og heilsunni almennt. Það er samt sem áður ekki hvað þú gerir milli jóla og nýárs sem skiptir mestu máli, heldur nýárs og jóla.“

Sleppir þú þér þá aldrei með mat og drykk yfir jólin?

„Það er mikilvægt að njóta þeirra kræsinga sem jólahátíðin hefur upp á að bjóða. Jólin hjá mér snúast að mestu leyti um mat og drykk en maturinn þarf ekki endilega að vera óhollur þótt hann bragðist vel. Allt er gott í hófi og það er hægt að gera helling innan þess lífsstíls sem við lifum, sem við reynum að hafa heilbrigðan og hreinan eftir fremsta megni.“

Jón Arnór bakar alltaf Lúsíubrauð fyrir jólin.
Jón Arnór bakar alltaf Lúsíubrauð fyrir jólin.

Missa sig ekki í gjafasturlun

Hvað gerir þú til að gleðja eiginkonuna um jólin?

„Mér hefur gengið vel að gleðja Lilju Björk í gegnum árin þó að ég verði að viðurkenna að ég hafi kannski verið aðeins meira skapandi hér á árum áður þegar kom að gjöfum. Í dag höfum við bæði þroskast mikið og höfum reynt að halda í við okkur; að missa okkur ekki í gjafasturlun. Við reynum frekar að fjárfesta meira í upplifun yfir jólin, þar sem við förum þá kannski á tónleika saman eða til útlanda ef því er að skipta. Ef ég ætti að gefa Lilju eitthvað áhugavert í pakkann verð ég að viðurkenna að ég myndi velja Bio Effect-vörurnar handa henni. Hún elskar þær vörur. Mér finnst einnig skipta máli að versla við fyrirtæki sem er íslenskt og umhverfisvænt og gerir hlutina vel frá grunni. Ég veit að þessir hlutir skipta hana líka máli.“

Hvað er á óskalistanum hjá þér þessi jólin?

„Ég held að það sé samvera við fjölskylduna og að njóta þess að vera til. Ég vil minnka óþarfa stúss í kringum jólin og eyða frekar tíma og orku í eitthvað skemmtilegt eins og að fara í gönguferðir í jólasnjónum og sjá góða jólatónleika. Síðan finnst mér alltaf gaman að fá eitthvað sem vökvar mann og nærir, þannig að kannski væri það bara eitthvað svipað og ég sting upp á fyrir eiginkonuna. Ég myndi í það minnsta stelast í vörurnar frá henni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »